Straumur-Burðarás : Yfirlit greina

Birta eftir árum

Átti að bjarga Straumi? Já.

Fjárfestingarbankinn Straumur-Burðarás hf. hafði alla burði til að standa af sér hrun bankakerfisins á Íslandi. Bankinn var enda starfræktur allt fram í mars 2009, þegar ríkið tók hann yfir með ógagnsæjum og illskiljanlegum aðgerðum sínum. Í pistli á baksíðu Viðskiptablaðsins fimmtudaginn 9. september sl. kemst Magnús Halldórsson blaðamaður að þeirri niðurstöðu að það hafi verið rétt ákvörðun af hálfu ríkisins að fella Straum. Magnús segir almannahagsmuni ekki hafa krafist þess að Straumi yrði bjargað, enda hafi bankinn ekki verið viðskiptabanki. En til að skoða spurninguna um hvort bjarga hefði átt bankanum þarf að huga að fleiru en blaðamaðurinn gerir hér.

Var Straumur felldur til að koma á höggi?

Einn lesandi síðunnar sem var í hópi um 20 þúsund hluthafa í Straumi og vill ekki að nafn sitt komi fram spyr hvort ég telji að stjórnvöld hafi verið að koma á mig höggi með yfirtöku á bankanum í mars 2009 og hvort hluthafar geti krafið stjórnvöld um skaðabætur. Þetta eru athyglisverðar spurningar. Það koma fram vísbendingar um undarlegar ástæður stjórnvalda fyrir yfirtöku bankans í sagnfræðilegri samantekt sem unnin var um fall Straums og birt er hér á vefnum. Þá samþykktu kröfuhafar Straums í júlí sl. nauðasamninga sem fela í sér að tryggðar kröfur fást að fullu greiddar og að almennir kröfuhafar geti vænst að um helmingur verði endurheimtur. Þetta er óvenju hátt hlutfall endurheimta sem styður það sem áður var sagt um styrk bankans. Í ljósi þessa er eðlilegt að fyrrum hluthafar í Straumi skoði stöðu sína. 

Rangar „fréttir“

Mig langar að þakka enn og aftur góð viðbrögð við þessum vef. Flestir hafa góðan skilning á tilgangi hans, þ.e. að skapa mér vettvang til að koma óbjöguðum upplýsingum á framfæri við almenning á Íslandi. En þeir eru líka ýmsir, sem hafa uppi stór orð um áróður og gefa í skyn að fjölmiðlum einum sé treystandi til að fjalla um mín mál og hafa jafnvel fyrir satt að almannarómur ljúgi aldrei. En er það svo? Hér er rétt að nefna nokkrar af þeim röngu „fréttum“, sem hafa verið mest áberandi frá hruninu og sem mikilvægast hefur verið að leiðrétta. Eftir þann lestur getur fólk svarað þeirri spurningu, hvort ég geti treyst á aðra  til að koma réttri mynd af mér og viðskiptum mínum til skila.

Pólitísk áhætta að gefa Straumi færi á að lifa

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur, birti er í tímaritinu Þjóðmálum sem kemur út í dag grein sem segir að embættismenn hafi litið svo á að það væri pólitísk áhætta að veita Straumi fyrirgreiðslu í mars 2009 þar sem hægt væri að túlka það sem einhverskonar stuðning við mig. Þá kemur fram í greininni að nær vonlaust er að fá upplýsingar eða gögn frá hinu opinbera um málefnalegar ástæður fyrir því af hverju ósk Straums um lánafyrirgreiðlsu var hafnað og hvers vegna FME tók bankann óvænt yfir í stað þess að hann færi í greiðslustöðvun eins og stjórnendur og eigendru bankans vildu og voru að undirbúa. Voandi fást þessi mál upplýst fyrr en síðar því að hagsmunir 20 þúsund hluthafa í Straumi voru í húfi.