Ágætu lesendur

Vefurinn btb.is er vettvangur fyrir mig, Björgólf Thor Björgólfsson, til að fjalla um viðskipti mín fyrr og nú og ýmis mál sem að mér snúa. Vefurinn er líka kærkomið tækifæri til að vera í sambandi við þá sem það vilja og mér hafa borist fjölmörg skilaboð af öllu tagi frá því að hann fór fyrst í loftið. Ég þakka góðar viðtökur frá upphafi og vona að vefurinn veki áfram forvitni lesenda, þótt vissulega rati efni hér inn eingöngu eftir þörfum, en ekki með reglubundnum hætti.

Vefurinn var opnaður í ágúst 2010 og þá var tilgangur hans fyrst og fremst að miðla upplýsingum um viðskipti mín á Íslandi og aðkomu að íslensku viðskiptalífi á árunum 2002-2009. Ég sá þann kost vænstan að opna vef, þar sem allar upplýsingar um viðskipti mín á Íslandi lægju fyrir á einum stað, enda fannst mér stundum sem hending réði því hvort það sem fram um þau viðskipti kom væri rétt eða rangt, – satt eða logið, – allur sannleikur eða bara hálfur eða bara svolítill misskilningur. Allar þessar upplýsingar er enn að finna hérna á vefnum og hann nýtist því sem gagnabanki fyrir þá sem vilja nálgast staðfestar upplýsingar um t.d. Landsbankann, Actavis eða Straum, svo dæmi séu tekin.

Vefurinn var opnaður skömmu eftir að ég tilkynnti um samkomulag mitt við kröfuhafa um uppgjör allra skulda. Því uppgjöri lauk í ágúst 2014 og frá þeim tíma hef ég getað einbeitt mér að uppbyggingu viðskipta á nýjan leik. Ég á enn nokkurra hagsmuna að gæta á Íslandi, þótt verulega hafi dregið úr viðskiptaumsvifum þar. Ísland verður alltaf heimaland mitt, þar á ég ættingja og vini og mitt annað heimili.

Björgólfur Thor Björgólfsson