Rangar „fréttir“
Mig langar að þakka enn og aftur góð viðbrögð við þessum vef. Flestir hafa góðan skilning á tilgangi hans, þ.e. að skapa mér vettvang til að koma óbjöguðum upplýsingum á framfæri við almenning á Íslandi. En þeir eru líka ýmsir, sem hafa uppi stór orð um áróður og gefa í skyn að fjölmiðlum einum sé treystandi til að fjalla um mín mál og hafa jafnvel fyrir satt að almannarómur ljúgi aldrei. En er það svo? Hér er rétt að nefna nokkrar af þeim röngu „fréttum“, sem hafa verið mest áberandi frá hruninu og sem mikilvægast hefur verið að leiðrétta. Eftir þann lestur getur fólk svarað þeirri spurningu, hvort ég geti treyst á aðra til að koma réttri mynd af mér og viðskiptum mínum til skila.
„Síðasta lánið undir sólinni“
Eitt versta dæmið um skaðlegan fréttaflutning, þar sem staðreyndir máls voru virtar að vettugi, var frétt Fréttablaðsins í júlí 2009, þar sem fullyrt var að Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson hefðu fengið lán í Búnaðarbanka fyrir kaupum á Landsbankanum. Og aldrei greitt lánið.
Viðbrögðin við þessari „frétt“ létu ekki á sér standa. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði að sér þætti þetta um það bil vera síðasta lánið undir sólinni sem ætti að afskrifa fyrr en fullreynt væri með innheimtur á því. Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra sagði að vel gæti verið réttlætanlegt að fella niður hluta skulda i einhverjum tilvikum… „en mér svelgdist á þegar ég sá að þarna var verið að ræða um niðurfellingu á skuldum Björgólfsfeðga vegna kaupa á Landsbankanum. Þetta lán hefur nú talsverða sérstöðu í Íslandssögunni. Ég ætti, eins og eflaust landsmenn flestir, mjög erfitt með að kyngja því ef það gengi eftir.“
Þegar tveir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands voru búnir að tjá sig með svo afgerandi hætti um lánið var ekki nema von að almenningur áttaði sig ekki á að fréttin væri röng frá grunni. Ómögulegt reyndist að koma sannleikanum á framfæri í júlímánuði 2009. Það stafaði fyrst og fremt af því, að ég og faðir minn höfðum ekki aðgang að þeim skjölum, sem sýndu fram á hið sanna. Fréttablaðið tók ekki mark á munnlegri athugasemd og aðrir fjölmiðlar tóku málið allir upp eins og fréttin væri staðfest.
Ekki var hægt að færa endanlega sönnur á hið rétta fyrr en í byrjun mars 2010, þegar loks hafði tekist að afla allra gagna sem þurfti. Þau gögn voru afhent fréttamönnum, svo þeir gætu sjálfir gengið úr skugga um að rétt væri farið með.
Í yfirlýsingu, sem send var öllum fjölmiðlum, sagði meðal annars:
„Viðskipti Samsonar og Búnaðarbanka Íslands hf. hófust í apríl 2003 með lánssamningi að upphæð 48,3 milljónir bandaríkjadala. Þá höfðu eigendur félagsins átt áralöng og farsæl viðskipti við bankann.
– Tryggingar voru veittar með veði í hlutabréfum Samsonar í Landsbanka Íslands hf. að markaðsverðmæti sem nam tvöfaldri lánsfjárhæðinni.
– Þvert á yfirlýsingar fyrrum bankastjóra Búnaðarbankans þá voru engar sjálfskuldarábyrgðir gefnar vegna þessa láns.
Lán þetta rann til að greiða aðra greiðslu af þremur fyrir 45,8% eignarhlut í Landsbanka Íslands hf. sem Samson keypti af íslenska ríkinu. Samson greiddi umrætt bankalán að fullu með áföllnum vöxtum á gjalddaga þann 29.apríl 2005, samtals að fjárhæð 51, 2 milljón bandaríkjadala.
Greiðslan og lánið voru í fullu samræmi við kaupsamning íslenska ríkisins og Samsonar sem undirritaður var 31. desember 2002. Í þeim samningi setti seljandi , íslenska ríkið, engin skilyrði um hvar kaupandi gæti tekið lán fyrir hluta kaupanna. Hins vegar var gerð krafa um að eigið fé kaupanda væri ekki lægra en 35%. Samson greiddi fyrir 45,8% hlut sinn í Landsbanka Íslands hf. eins og hér segir:
– Í febrúar 2003 greiddu eigendur með eigin fé erlendis frá 48,1 milljónir bandaríkjadala.
– Í apríl 2003 greiddu eigendur 48,3 milljónir bandaríkjadala með láni frá Búnaðarbanka Íslands hf.
– Í desember 2003 greiddu eigendur með eigin fé erlendis frá 42,7 milljónir bandaríkjadala.
Heildargreiðslur námu samtals 139,0 milljónum bandaríkjadala, þar af voru 90,8 milljónir fjármagnaðar af eigendum eða 65% . Þær voru greiddar að fullu inn á reikning ríkissjóðs Íslands í Seðlabanka Bandaríkjanna í New York í árslok 2003 og átti þá sér stað fullnaðaruppgjör vegna kaupa Samsonar á hlut ríkisins í Landsbankanum. Það er því rangt að Samson skuldi íslenska ríkinu einhverja fjármuni vegna umræddra kaupa.“
Lánið í Búnaðarbankanum var greitt upp snemma árs 2005. Þrátt fyrir að lögð væru fram kvittanir og gögn, sem staðfestu upplýsingarnar í yfirlýsingunni var skaðinn skeður. Enn sjást þess skýr merki í almennri umræðu, þar sem ekki hefur tekist að eyða upphrópunum um að hlutur Samsonar í Landsbankanum hafi aldrei verið greiddur. Sönnun þess, að Samson fékk aðeins tímabundið lán fyrir hluta greiðslunnar og að það lán er löngu upp greitt, hefur ekki megnað að koma í veg fyrir fullyrðingum um að bankinn hafi verið gefinn mönnum sem aldrei komu með fjármagn til landsins.
Sannanir um hið gagnstæða er að finna hér á vefnum.
Þar kemur jafnframt fram, að níu mánuðum eftir að lánið var greitt upp tók Samson annað lán í bankanum, sem nú var orðinn einkabankinn Kaupþing. Það lán var með öllu óskylt hinu fyrra. Við faðir minn vorum í persónulegum ábyrgðum fyrir láninu, sem féll á mig einan, enda faðir minn gjaldþrota. Þetta lán var gert upp að fullu, sem liður í nýlegu skuldauppgjöri mínu.
Ósannindi um fjármagnsflutninga
Í lok júlí 2009 birtist mjög skaðleg frétt á Stöð 2 og fréttavefnum Vísi.is. Þar var fullyrt að fjórir nafngreindir menn, ég þeirra á meðal, hefðu flutt milljarða króna í erlend skattaskjól á sama tíma og tilkynnt var um þjóðnýtingu Glitnis. Fullyrt var að peningarnir hefðu verið fluttir frá Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka og að auk þessara nafngreindu einstaklinga hefði eignarhaldsfélagið Samson komið við sögu, auk fleiri félaga og einstaklinga.
Í fréttinni fólust mjög grófar ásakanir, sem ekki var hægt að sitja undir. Þess var strax krafist að fréttin yrði dregin til baka. Þá var jafnframt leitað til Straums-Burðaráss og skiptastjóra þrotabús Samsonar, til að fá staðfestingu á hinu sanna í málinu. Af hálfu beggja þessara aðila var staðfest, að engar slíkar millifærslur á fjármunum hafi átt sér stað. Þar með var staðfest að fréttin var með öllu tilhæfulaus.
Þrátt fyrir að fréttastofan byggði fréttir sínar á orðum eins heimildarmanns, sem hafði engin gögn undir höndum, sem studdu fullyrðingar hans og þrátt fyrir að Straumur og Samson hefðu staðfest að engir slíkir fjármagnsflutningar hefðu átt sér stað neitaði fréttastofan að draga fréttina til baka. Ég sá því engan annan kost en að höfða meiðyrðamál, enda ekki hægt að láta fréttina standa óhaggaða um aldur og ævi.
Áður en til aðalmeðferðar málsins kom í héraðsdómi ákvað fréttastofan að draga fréttaflutninginn til baka. Fréttastofan lýsti því yfir að heimildir fyrir fréttinni hefðu verið „ófullnægjandi og rangar og var frétt fréttastofu Stöðvar 2 af málinu því röng,“ eins og sagði í yfirlýsingu fréttastofunnar. Þá baðst fréttastofan „velvirðingar á þeim skaða sem hún kann að hafa valdið hlutaðeigandi.“
Niðurstaðan var eins góð og hægt var að vonast eftir. Vissulega var fréttaflutningurinn mjög skaðlegur og sá skaði verður aldrei að fullu bættur þótt fréttin hafi verið dregin til baka níu mánuðum síðar. Rangar fréttir hverfa ekki úr gagnabönkum á netinu, svo dæmi sé tekið. Hins vegar fékkst leiðrétting, þótt seint væri og þar með var meiðyrðamálið látið niður falla.
Stöð 2 og „skuggastjórnendur“
Fréttastofa Stöðvar 2 sagði frá því mánudaginn 22. mars 2010 að „skuggastjórnendur yrðu ekki sóttir til saka“ og útskýrði svo að hugtakið skuggastjórnandi væri lýsing á þeim eiganda í hlutafélagi eða fulltrúa hans sem hefði áhrif á eða réði í reynd ákvörðunum stjórnenda félagsins.
Í beinu framhaldi af þessari skilgreiningu lýsti fréttamaðurinn eftirfarandi yfir:
„Sennilega hefur þetta aldrei birst skýrar fyrir opnum tjöldum en þegar eigendur stórra banka funduðu með ráðamönnum í aðdraganda bankahrunsins. Komið hefur fram að Björgólfur Thor Björgólfsson réð ferðinni í ráðherrabústaðnum helgina fyrir setningu neyðarlaganna. Lýsing á þessu hefur birst m.a í bókum um bankahrunið. Þessa helgi var Björgólfur sjálfur mjög sýnilegur á fundum í stjórnarráðinu og var myndaður með bankastjórunum, Halldóri J. Kristjánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni, á leiðinni á fund þar helgina fyrir setningu neyðarlaganna.“
Síðar í fréttinni var því svo bætt við, að ekki væri verið að „vísa sérstaklega til Björgólfs Thors, enda var það aðeins nefnt til skýringar hér framar“!
Í frétt þessari var tekið fram í öðru orðinu að engin ákvæði í íslenskum lögum tækju á hugsanlegri refsiábyrgð „skuggastjórnenda“ bankanna, en í hinu sagði fréttamaðurinn að eigendurnir myndu „að öllum líkindum sleppa“, þar sem refsiábyrgð hefði legið hjá stjórn og forstjóra. „Sleppa“? Undan refsiákvæðum sem ekki eru til vegna meintra brota sem ekki eru nefnd einu orði í íslenskri löggjöf?
Með þessari frétt fylgdu myndir af mér á tröppum stjórnarráðsins og skilaboðin augljós: Þarna hafði skuggastjórnandi verið gripinn glóðvolgur, fyrir tilstilli fréttamanns Stöðvar 2, 18 mánuðum eftir meint brot.
Uppsetning fréttarinnar var í hæsta máta ósanngjörn og í raun fáránleg. Það, að stór hluthafi í Landsbankanum hafi sótt fundi með ráðamönnum dagana sem kerfishrun vofði yfir, þar sem meðal annars var rætt um hugsanlega sameiningu bankans við annan banka, hefur að sjálfsögðu ekkert með svokallaða skuggastjórnun að gera.
RÚV og „rannsókn“ Deutsche Bank
Ríkissjónvarpið flutti af því fréttir 3. apríl 2010 að sérstakt rannsóknarteymi á vegum Deutsche Bank kannaði starfsemi Landsbankans fyrir fall bankanna haustið 2008.
Frétt þessi var raunar lengst af í formi vangaveltna um hversu víða íslensku bankarnir hefðu fengið fé að láni og gefið í skyn að „digrir sjóðir hafi ratað í skattaparadísir suður undir miðbaug.“ Þá var fullyrt, að sérstakt rannsóknarteymi lögfræðinga og endurskoðenda á vegum Deutsche Bank hefði fyrrverandi bankastjóra Landsbankans og fyrrverandi aðaleigendur bankans til sérstakrar skoðunar og hefði fengið upplýsingar bæði hjá nýja og gamla bankanum og vísað var til meints óheiðarleika þeirra og hugsanlegra lögbrota. Loks var gefið í skyn að það væri í valdi þessa rannsóknarteymis að taka ákvörðun um hvort menn yrðu sóttir til saka og fór RÚV þá heldur frjálslega með ákæruvald í sakamálum!
Þrátt fyrir fyrirspurnir og ítrekaða eftirgrennslan hjá nýja og gamla Landsbanka, sem og hjá Deutsche Bank, gat ég ekki fundið nokkur merki þess að Deutsche Bank ynni að neinni slíkri rannsókn. Frásögn RÚV fór hins vegar eins og eldur í sinu um alla fjölmiðla og netheima.
Eftir að ég tilkynnti um skuldauppgjör mitt og samhliða var tilkynnt um fjárhagslega endurskipulagningu Actavis ætti öllum að vera ljóst að viðskiptasamband mitt við Deutsche Bank stendur traustum fótum. Af hálfu bankans var tekin sú ákvörðun, í ljósi góðrar reynslu af viðskiptum við mig árum saman, að halda því samstarfi áfram. Ljóst má því vera, að Deutsche Bank hafði mig ekki grunaðan um svik eða lögbrot af neinu tagi.
Það gildir hins vegar um fréttir af þessu tagi, að töluð orð verða ekki aftur tekin. Fréttastofa RÚV hefur enga tilraun gert til að bæta fyrir skaðann.
Og aftur spyr ég: Telur fólk enn að ég geti treyst öðrum til að koma á framfæri upplýsingum um mig og viðskipti mín?