Pólitísk áhætta að gefa Straumi færi á að lifa

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur, birti er í tímaritinu Þjóðmálum sem kemur út í dag grein sem segir að embættismenn hafi litið svo á að það væri pólitísk áhætta að veita Straumi fyrirgreiðslu í mars 2009 þar sem hægt væri að túlka það sem einhverskonar stuðning við mig. Þá kemur fram í greininni að nær vonlaust er að fá upplýsingar eða gögn frá hinu opinbera um málefnalegar ástæður fyrir því af hverju ósk Straums um lánafyrirgreiðlsu var hafnað og hvers vegna FME tók bankann óvænt yfir í stað þess að hann færi í greiðslustöðvun eins og stjórnendur og eigendru bankans vildu og voru að undirbúa. Voandi fást þessi mál upplýst fyrr en síðar því að hagsmunir 20 þúsund hluthafa í Straumi voru í húfi.  

Straumur stóð frammi fyrir umtalsverðum lausafjárvanda í byrjun mars 2009. Í febrúar hafði  bankinn óskað eftir fyrirgreiðslu frá Seðlabanka Íslands og samkvæmt því sem kemur fram í grein eftir  Björn Jón Bragason, sagnfræðing, og birt er í tímaritinu Þjóðmálum studdi fjármálaráðuneytið þá fyrirgreiðslu m.a. vegna þessi mikilvæga hlutverks sem Straumur gegndi þá í íslensku bankakerfi. Í áðurnefndri grein kemur fram að hik hafi komið á stjórnsýsluna. Seðlabankamenn og fjármálaráðuneytismenn hafi verið áhugalitlir og flóttalegir og að stjórnvöld hafi talið það pólitíska áhættu að grípa til aðgerða sem hægt væri að túlka sem einhverskonar stuðning við mig, – annan tveggja aðaleigenda og stjórnarformann bankans. Rétt er að hafa í huga að hluthafar í Straumi voru um 20 þúsund.

William Fall , þáverandi forstjóri Straums, fannst íslensk stjórnvöld vera eins og höfuðlaus her og að vantað hafi bæði reynslu og þekkingu til að takast á við þau vandamál sem við blöstu.

Á þessum dögum var ekki starfandi forstjóri hjá Fjármálaeftirlitinu og nýráðinn bankastjóri Seðlabankans, sem var lítt kunnur aðstæðum á Íslandi, þekkti ekkert til málefna bankans. Á sunnudeginum 8. mars 2009 var ljóst að ósk Straums um lán til þrautavara hjá Seðlabanka Íslands yrði synjað. Stjórn bankans og stjórnendur ætluðu í framhaldi að óska eftir því að fyrirtækið yrði sett í greiðslustöðvun. Áður en til þess kom ákvað stjórn FME að morgni mánudagsins 9. mars 2009 að nýta heimildir í neyðarlögum sem samþykkt voru á Alþingi í október 2008 og yfirtaka eignir og starfsemi bankans. Það var gert gegn vilja stjórnar og stjórnenda bankans.  

Í grein Björns Jóns kemur jafnframt fram að afar illa hafi gengið að fá upplýsingar og gögn um málefnalegar ástæður ákvarðana og aðgerða Seðlabanka, fjármálaráðuneytis og FME í tengslum við fall Straums. Er það ill skiljanlegt þar sem ekki er hægt að sjá hvaða almannahagsmuni er þar verið að verja þar sem bankinn var gerður gjaldþrota. Nú er að koma í ljós að eignir bankans duga fyrir um nærri 60% af kröfum. Setur það ákvarðanir stjórnvalda í enn vafasamara ljós. Á tímum gagnsæis hlýtur að vera hægt að vænta þess að hið sanna í þessu máli líti fyrr en síðar dagsins ljós.