Almennt : Yfirlit greina

Birta eftir árum

Samhengislaus og óljós atburðarás – tilefnislausar ásakanir

Í rannsóknarskýrslu Alþingis er reynt að draga fram atburðarás helgarinnar 3.-6.október 2008. Hvað varðar þá atburði sem ég tók þátt í eru lýsingar rannsóknarnefndarinnar í alla staði afar ófullnægandi – samhengislausar, óljósar og mýgrútur hálfkveðinna vísa. Þá eru birtar í skýrslunni ásakanir í minn garð hafðar eftir Kaupþingsmönnum sem eru rangar og illgjarnar og er með ólíkindum að sómakærir nefndarmenn birti þær án þess að gefa mér tækifæri á svörum, útskýrum eða andmælum. Látið er í veðri vaka að ég hafi verið að blekkja Kaupþingsmenn þegar ég segi þeim í stuttu símtali að Landsbankinn væri búinn að „redda“ málum en fram kemur að í framhaldinu funda þeir með ráðherrum og bera á mig að ég beiti blekkingum. Hið rétta var að Landsbankamönnum hafði tekist að lækka lausafjárþörf bankans í erlendri mynt úr 1000 evrum í 500 milljónir evra og töldu menn það á sínum tíma gleðilegan áfanga. Hins vegar gekk illa að koma á fundum með ráðmönnum til að upplýsa þá um breytta stöðu.

Fullur vilji til sameiningar – alltaf ljóst að nýtt eigið fé gat ekki komið frá eigendum

Í aðdraganda hrunsins benti ég á m.a. í viðtölum við fjölmiðla að aðstæður væru þannig á árinu 2008 að eigendur bankanna væru ekki einráðir um framtíð bankanna – skuldir væru það miklar að kröfuhafar réðu för. Mér var það ljóst að sameining banka á Íslandi væri til lítils ef ekki fengist nýtt eigið fé sem enginn á Íslandi gat lagt fram nema þá ríkissjóður. Það kemur mér á óvart að í rannsóknarskýrslu Alþingis séu ummæli Geirs H. Haarde sett fram þannig að ég hafi verið tregur til viðræðna um sameiningu Landsbankans og Glitnis. Þá minnist ég þess ekki að hafa heyrt talað um 30 milljarða króna framlag ríkisins. Furðu mína vekur að rannsóknarnefndin birti einhliða frásagnir af þessum fundi og hirðir ekki um mína hlið mála en hafa skal í huga að verkefni nefndarinnar var að leita sannleikans.

Órökstuddar tölulegar niðurstöður, ályktanir sem rekast á og óljósar staðhæfingar

Í rannsóknarskýrslu Alþingis segir að skuldir mínar hafi aukist um 97 milljarða evra frá janúarbyrjun 2007 til október 2008. Birt er tafla með tölulegu yfirliti um skuldir mínar án þess að skýringur séu gefnar á því hvernig þessar tölur eru fundnar. Þá er þessi framsetning á upplýsingum ekki í samræmi við það sem segir í kafla 8.7.4.3. hér að framan. Þar er heldur ekki gefnar skýringar á tilurð talna. Þá er sett fram illskiljanleg staðhæfing um  að meirihluti nýrra lána sé „ótryggður eða tryggður með núverandi tryggingum“. Annaðhvort eru lán tryggð eða ótryggð og skiptir þá engu hvort veð eru ný eða gömul. Svo er því haldið fram að Samson hafi keypt meirhlutann í Landsbankanum en eins og flestir vita gerðist það aldrei. Og þá vekur það athygli þegar skrifað er að hlutir séu óútskýrðir þegar staðreyndin er sú að rannsóknarnefndin leitaði ekki til mín eftir skýringum.

Samið um lán að vori – síðasta greiðsla viku fyrir hrun

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er gefið í skyn að félag á mínum vegum hafi tekið lán í Landsbankanum í lok september rétt fyrir hrun íslensku bankanna. Það er ekki rétt að félag mitt hafi samið þá um lán heldur var samið um lánið á vormánuðum í tengslum við hlutafjáraukningu í Actavis en síðan var lánið greitt út í áföngum. Rétt er að sjótta og síðasta útborgun lánsins var 30.september 2008. Þessi rangfærsla er endurtekin fjórum sinnum í skýrslu nefndarinnar og ítrekað látið í veðri vaka að ég hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu rétt fyrir hrun. Rangfærslur í fremri hluta skýrslunnar verða að staðreyndum í síðari hluta hennar. Rétt er að fram komi að þetta lán var hluti af skuldauppgjöri mínu í júlí 2010.