Fullur vilji til sameiningar – alltaf ljóst að nýtt eigið fé gat ekki komið frá eigendum

Í aðdraganda hrunsins benti ég á m.a. í viðtölum við fjölmiðla að aðstæður væru þannig á árinu 2008 að eigendur bankanna væru ekki einráðir um framtíð bankanna – skuldir væru það miklar að kröfuhafar réðu för. Mér var það ljóst að sameining banka á Íslandi væri til lítils ef ekki fengist nýtt eigið fé sem enginn á Íslandi gat lagt fram nema þá ríkissjóður. Það kemur mér á óvart að í rannsóknarskýrslu Alþingis séu ummæli Geirs H. Haarde sett fram þannig að ég hafi verið tregur til viðræðna um sameiningu Landsbankans og Glitnis. Þá minnist ég þess ekki að hafa heyrt talað um 30 milljarða króna framlag ríkisins. Furðu mína vekur að rannsóknarnefndin birti einhliða frásagnir af þessum fundi og hirðir ekki um mína hlið mála en hafa skal í huga að verkefni nefndarinnar var að leita sannleikans.

 

Hið rétt er að Björgólfur Thor Björgólfsson hafði látið kanna forsendur sameiningar Landsbankans, Straums og Glitnis og naut m.a. aðstoðar sérfræðinga Credit Suisse. Hann sett fram hugmyndir um slíkt m.a.á fundi með forsætisráðherra um verslunarmannahelgina 2008. Á þessum fundi taldi Björgólfur Thor rétt að undirbúa þessa vinnu með erlendum sérfræðingum með það í huga að niðurstöður lægu fyrir fyrir lok þriðja ársfjörðungs sem var í lok september.

Í 6. bindi rannsóknarskýrslu Alþingis, kafla 19 um aðgerðir og viðbrögð stjórnvalda er í undirkafla 19.3.11 fjallað um fund minn og forsætiráðherra þann 6.ágúst 2008 sem bar upp á verslunarmannhelgi. Þar segir á bls. 213:

Hinn 6. ágúst 2008 fundaði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, með Björgólfi Thor Björgólfssyni.Við skýrslutöku lýsti Geir aðdraganda fundarins með eftirfarandi orðum: „Í ágúst þá förum við yfir þetta aðeins, við Tryggvi Þór Herbertsson, sem þá er kominn í vinnu hjá mér sem ráðgjafi, förum við yfir á hverju hann ætti að byrja sem starfsmaður og niðurstaðan er sú að hann fer og talar við sem sagt sem sagt alla yfirmenn í bönkum og alls staðar þar sem talið var að skipti máli, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann, þeir eru nú tregir til að tala við hann þar í Seðlabankanum, töldu að ef þeir ættu vantalað við forsætisráðuneytið þá mundu þeir nú tala um það bara við mig, það voru svolítið svona stælar í þessu, eins og gengur. En hann fór og ræddi einkanlega við forsvarsmenn Landsbankans og Glitnis banka hf. um hugsanlega sameiningu. Og það var þarna ákveðin hugmynd á floti um það að það væri hægt að sameina þessa banka tiltölulega hratt og ríkið legði inn í það ákveðna upphæð, sem á þeim tíma var verið að tala um, 30 milljarða króna, sem mér fannst nú mikið, af því að ég var nískur síðan ég var fjármálaráðherra, en þetta var náttúrulega ekki neitt miðað við þann kostnað sem síðan hefur fallið til og heldur ekki miðað við það tjón sem almennt í fortíðinni hefur skapast í öðrum löndum vegna bankahruns. Þannig að ef það hefði getað afstýrt bankahruninu að leggja 30 milljarða hlutafé inn í nýjan banka, þá er það náttúrulega bara mjög gott mál. Þeir voru ekkert alltof ginnkeyptir fyrir þessu.“ Því næst sagði Geir: „6. ágúst talaði ég við Björgólf Thor, sem kom þá á minn fund og sérstaklega um þetta og þá segir hann það: „Ja, það er kannski hægt að undirbúa þetta á Q þrjú og ljúka því á Q fjögur.“ Þetta man ég það vel, þetta er svona bankamannatal, en hann taldi ekki tímabært og alls ekki nauðsynlegt að vera eitthvað að hraða þessu og ljúka því á einni helgi eða eitthvað svoleiðis, sem maður hefði nú náttúrulega helst viljað, að ljúka því í ágústmánuði.“

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

Þessi frásögn kemur Björgólfi Thor spánskt fyrir sjónir. Undrast hann að rannsóknarnefndin hafi ekki leitað til hans um upplýsingar varðandi þennan fund fyrst henni þykir ástæða til að greina frá honum í skýrslu sinni. Björgólfur Thor Hann hafði alltaf lagt á það áherslu m.a. í viðtölum við íslenska fjölmiðla að lánardrottnar væru þeir sem raunverulega réðu ferðinni um sameiningu banka. Hann benti alltaf á að ekki væri nóg að sameina skulduga banka heldur þyrfti nýtt eigið fé.

Björgólfur Thor minnist þess ekki að hafa heyrt  töluna 30 milljarða króna nefnda, – hvorki á fundum með Geir H. Haarde né fundi síðar með Tryggva Þór Herbertssyni. Hins vegar kynnti Björgólfur Thor fyrir forsætisráðherra á fundi þann 6. ágúst 2008 útdrátt úr greinargerð sem unnin var af Credit Suisse í apríl sama ár. Þar var m.a. skoðað að sameina Landsbankann og Glitni en til þess að það væri raunhæft þyrfti að koma fjárframlag frá ríkinu annað hvort á formi hlutafjár eða láns og að auki lánsfé frá erlendum bönkum.

Í kynningunni er varað við stöðu Glitnis og bent á að hann geti ekki óstuddur siglt í örugga höfn. Yfirveguð áætlun Credit Suisse gerir ráð fyrir 60% afskriftum á útlánum eða sem nemur 700 milljónum evra. Þá er bent á tvær leiðir fyrir afskipti ríkissjóðs, önnur er borin saman við yfirtöku breska ríkissjóðsins á Northern Rock og hin er borin saman við yfirtöku JP Morgan á Bear Stearn. Sú fyrri hafði alvarlegar afleiðingar fyrir fjármálamarkaðinn og var breska ríkissjóðinum dýrkeypt. Hin síðari hafði lágmarksáhrif á markaðinn og lánin sem ríkisvaldið veitti munu verða greidd. Í kynningu Credit Suisse er mælt með síðari leiðinni og tekið er fram að Credit Suisse var reiðubúið að lána til verkefnisins ef ríkisábyrgð fengist. Forsendan fyrir sameiningu var að samkomulag næðist við kröfuhafa um einhverjar greiðslur en að sameinaður banki fengi aukið eigið fé. Björgólfur Thor taldi ólíklegt að sameining tækist í ágúst vegna þess að nálgast þyrfti erlenda kröfuhafa Glitnis og að fá þyrfti erlenda ráðgjafa og að í ágúst væru allir í sumarleyfum  en að málið þyrfti að skoða í september. Þegar komið var fram í þann mánuð höfðu atburðir í Bandaríkjunum á borð við fall Lehman Brothers  og  fall Glitnis hér á landi flýtt allri atburðarás þannig að það var um seinan. Undarlegt verður að teljast að í ljósi þess að stjórnvöldum var kunnugt um þá greiningarvinnu sem unnin hafði verið og skýrslur sem til voru um forsendur sameiningar banka að þau skuli ekki hafa leitað eftir frekari samvinnu við bankana á þessum tíma. Þó svo að skýrslurnar sem unnar voru á þessum tíma séu enn í dag trúnaðarmál hefði Björgólfur Thor afhent nefndinni þær hefði hún kallað hann til viðtals og óskað eftir upplýsingum. Líklegt verður að telja að mynd rannsóknarnefndar af þessum hluta aðdraganda hrunsins væri þá önnur en raun ber vitni.

Í 7.bindi rannsóknarskýrslunnar, kafla 20 er fjallað um atburðarásina frá því beiðni Gltinis um fyrirgreiðslu kom fram þar til bankarnir féllu. Í undirkafla 20.2.5 er fjallað um tilraunir til sameiningar á bankamarkaði og þar fjallað aftur um fund minn með forsætisráðherra í ágúst byrjun 2008. Þar segir á bls. 39:

Í júlí 2008 réð Geir H. Haarde Tryggva Þór Herbertsson sem sérstakan efnahagsráðgjafa sinn. Tryggvi ræddi í kjölfarið við forsvarsmenn Glitnis og Landsbankans og kannaði hvort vilji væri fyrir samruna. Í hugmyndinni fólst að auk samrunans kæmi ríkið inn í sameinaðan banka með um 30 milljarða króna. Af þessu tilefni ræddi Geir sérstaklega við Björgólf Thor Björgólfsson snemma í ágúst 2008. Geir segir að Björgólfur hafi þá ekki talið samruna tímabæran.

Athugasemdir við þessa málsgrein eru eftirfarandi:

Björgólfur Thor kannast ekki við að Tryggvi Þór Herbertsson hafi nokkru sinni nefnt framlag ríkisins að fjárhæð 30 milljarðar króna. Björgólfur Thor taldi að erfitt yrði að sameina bankana fyrr en eftir sumarleyfi í Evrópu því hann vissi sem var að nauðsynlegt var að fá erlenda ráðgjafa að verkefninu einkum vegna samskipta við erlenda kröfuhafa sem þegar þarna var komið sögu gátu ráðið miklu. Hann hafði þegar fengið erlenda sérfræðinga til að kanna hvaða möguleikar væru til staðar á íslenskum fjármálamarkaði. Þau gögn eru trúnaðarupplýsingar en hefði rannsóknarnefnd Alþingis séð ástæðu til að ræða við Björgólf Thor hefði hann fúslega veitt nefndinni aðgang að þeim skýrslum sem unnar voru og hefðu þær varpað skýrara ljósi á forsendur samskipta hans og stjórnvalda og því getað skýrt atburðarásina þessa daga.

Jafnframt segir í skýrslunni:

Tryggvi Þór Herbertsson lýsti því við skýrslutöku að hugmynd sín hefði verið sú að sameina Glitni og Landsbankann og selja síðan norræna starfsemi þeirra til FIH, dansks dótturfélags Kaupþings banka hf. Tryggvi segir að eftir að hann hafi rætt við Björgólf Thor Björgólfsson hafi hann áttað sig á því að þetta mundi „aldrei ganga upp“ því Björgólfur hafi ekki talið hugmyndina tímabæra.

Athugasemir við þessar málsgrein eru svohljóðandi:

Björgólfur Thor lagði áherslu á að fá óháðan, erlendan banka að málinu sem ráðgjafa, t.d. Credit Suisse en sá banki hafði skoðað málið. Björgólfur Thor taldi jafnframt nauðsynlegt að ná samkomulagi við lánardrottna ef ná ætti að sameina bankana og tóku Geir Haarde, forsætisráðherra og Tryggi Þór, ráðgjafi hans, vel í það en þeir höfðu áður ekki séð nokkra ástæðu til að taka tillit til erlendra lánardrottna eða annarra fjármögnunaraðila.