Almennt : Yfirlit greina

Birta eftir árum

Ónákvæmni, rangfærslur og skallar

Í bókinni „Why Icelandi?“ fjallar höfundurinn, Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og fyrrum forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, talsvert um einkavæðingu bankanna sem hófst 1998 og lauk árið 2003. Af ástæðum sem ekki koma fram í bókinni er fjallað mun ítarlegar og oftar um einkavæðingu Landsbankans en Búnaðarbankans. Engu að síður gætir ónákvæmni hjá hagfræðingnum og víða eru skallar í frásögn hans en nákvæmlega er fjallað um söluna á Landsbankanum hér vefnum. Þá fer höfundur bókarinnar á nokkrum stöðum rangt með staðreyndir og er það ljóður á ráði höfundar að geta nær hvergi heimilda.

Sami aðdragandi og sama niðurstaða – Bandarísk rannsóknarnefnd um kreppuna þar í landi

Rannsóknarnefnd bandaríska þingsins skilaði í janúar sl. skýrslu um efnahagserfiðleikana þar í landi. Þar kveður að mörgu leyti við sama tón og í þeirri íslensku, sem kom út í fyrra, þó svo vinnubrögð séu önnur: Fjármálakerfið hefði átt að átta sig á varúðarmerkjum, en það hefðu stjórnvöld líka átt að gera. Reglur voru ófullnægjandi og eftirlit líka. Góðir stjórnarhættir voru of oft látnir lönd og leið og áhættusækni var allt of mikil, um leið og lánastarfsemi var ekki ábyrg. Stjórnvöld voru illa búin til að takast á við hrunið og ósamræmi í viðbrögðum þeirra varð til þess að auka á óvissuna og óðagotið sem greip um sig á mörkuðum. Þá bera greiningarfyrirtækin sannarlega sína ábyrgð með mati út úr öllu korti. Þetta eru kunnuglegar vangaveltur, sem enduróma nú í hverju landinu á eftir öðru, enda er kreppan vissulega alþjóðleg.

Vanþekking eða vanmat ráðherra – Kaupþingi treyst en neikvæðni í garð Landsbankans

 

Árni M. Mathiesen, fyrrum fjármálaráðherra, gaf út bók fyrir síðustu jól sem vakti þó nokkra athygli. Þar sem efnið varðar mig fannst mér rétt að kynna mér hana og þegar mér var ljóst að í henni voru mikilvægar upplýsingar um hvernig ráðherra reiddi sig á upplýsingar frá Kaupþingi um m.a. málefni sem snéru að mér fannst mér rétt að setja saman umsögn um bókina og birta hér á vefnum. Helstu ályktanir mínar eru að ráðherra hafi annað hvort vanmetið aðstæður eða ekki haft þekkingu á því viðfangsefni sem var á borði ríkisstjórnar haustið 2008. Þá blasir við að hann er neikvæður í garð Landsbankans af ástæðum sem illa koma fram á meðan hann treystir Kaupþingi og virðist í nánum samskiptum við forsvarsmenn hans. Meginniðurstaðan er hins vegar sú að bókin varpar litlu ljósi á þær þrjár ákvarðanir sem ríkisstjórnin tók og höfðu mikil áhrif á atburðarás hrunsins.

Ekki gerður munur á eyðslu eigin fjármuna eða annarra – hæðni í stíl

Í kafla um samfélaglega ábyrgð og lúxuslífið fjallar siðahópur rannsóknarnefndar Alþingis um lífstíl minn en gerir það oftast í sömu andrá og lífstíl annarra þeirra sem fóru fyrir íslensku fjármálafyrirtækjunum á árunum 2003-2008. Athygli mína vekur að siðahópur virðist ekki með neinum hætti gera greinarmun á hverjir hafi greitt fyrir lífstíl manna. Ég veit að ég greiddi með eigin peningum fyrir það sem hópurinn gerir hér að umtalsefni. Engin hlutafélög greiddu þessa hluti fyrir mig. Ég spyr: Gilti það sama um alla þá sem siðahópurinn setur undir hatt íslenskra auðmanna? Ætti það ekki að skipta máli í umfjöllun um siðferði? Er það síðan ekki mitt einkamál hvort ég eyði peningum mínum í einkaflugvél eða held eftirminnilega afmælisveislu með vinum mínum eða geymi þá aðgerðalausa í banka? Er það mál siðfræðinga í nefnd á vegum löggjafaþingsins að fjalla um á opinberum vettvangi? Síðan er augljóst að siðahópurinn reynir að bregða fyrir sig hæðni í frásögn sinni og læt ég lesendum eftir að hugleiða tilgang hópsins með því.