Eldra efni : Yfirlit greina

Birta eftir árum

Ársreikningar

Fáránleg frétt á Stöð 2

Stöð 2 birti í gærkvöldi fáránlega frétt um „skuggastjórnendur“ íslensku bankanna fram til haustsins 2008 og segir í fréttinni að eigendurnir muni “ að öllum líkindum sleppa“. Fréttastofan tekur dæmi um mig sem „skuggastjórnanda“ þegar ég átti fundi með íslenskum ráðamönnum um mánaðarmótin september / október 2008. Þá rambaði bankakerfið á barmi hengiflugs og viðræður voru um sameiningar banka og breytingar á eignarhaldi þeirra. Ljóst er af þessum fréttaflutningi að Stöð 2 virðist ekki skilja hlutverk eigenda í fyrirtækjum og er umhugað um að tengja mig við athæfi sem ég muni „að öllum líkindum sleppa“ með. Af þessu tilefni sendi ég fréttastjóra Stöðvar 2 bréf. Annars er rétt að geta þess að íslensk lög hvorki kveða á um brot af því tagi sem fréttastofan hefur búið til né um refsiábygð sem menn eins og ég eiga að hafa sloppið undan.

William Fall ráðinn sem yfirmaður hjá RBS

William Fall, fyrrum forstjóri Straums, hefur verið ráðinn yfirmaður RBS og er starfsheiti hans á ensku Global Head of Financial Institutions Group. Það er ánægjulegt að sjá að vegur þessa manns fer vaxandi og óska ég honum velfarnaðar í nýju starfi. Ég taldi það á sínum tíma hvalreka fyrir íslenskt fjármálalíf þegar okkur í stjórn Straums tókst að ráða hann sem forstjóra. Mér finnst sjálfsagt að greina frá því hér að þegar skoðaðar voru hugmyndir um að sameina Landsbankann og Straum kom aldrei til greina annað en að William Fall yrði yfirmaður þess banka. Það var miður að íslensk yfirvöld sáu ekki ástæðu til að nýta kraft þessa manns við uppbyggingu íslenska fjármálakerfisins, en eins og Pressan hefur greint frá var ekkert gert með hugmyndir hans.

Lán í Búnaðarbanka að fullu greitt 2005 – Landsbankinn greiddur að fullu 2003

Á föstudag í síðustu viku fengum við send afrit af kvittunum fyrir fullnaðargreiðslu á láni sem Samson tók í apríl 2003 vegna greiðslna á 35% af kaupverði á 45,8% hlut í Landsbankanum. Fjölmiðlar hafa haldið því fram að það lán væri ógreitt og þess vegna væri Samson í raun ekki búið að borga fyrir Landsbankann. Þetta er rangt. Samson greiddi íslenska ríkinu að fullu árið 2003 samtals 139 milljonir bandaríkjadala fyrir hlut sinn í Landsbankanum. 65% þeirrar fjárhæðar kom úr vasa okkar, eigenda félagsins, – 35% voru fengin að láni í Búnaðarbanka Íslands eins og kaupsmningur við ríkið heimilaði og var það lán greitt að fullu í apríl 2005.