Almennt : Yfirlit greina

Birta eftir árum

Ekki gerður munur á eyðslu eigin fjármuna eða annarra – hæðni í stíl

Í kafla um samfélaglega ábyrgð og lúxuslífið fjallar siðahópur rannsóknarnefndar Alþingis um lífstíl minn en gerir það oftast í sömu andrá og lífstíl annarra þeirra sem fóru fyrir íslensku fjármálafyrirtækjunum á árunum 2003-2008. Athygli mína vekur að siðahópur virðist ekki með neinum hætti gera greinarmun á hverjir hafi greitt fyrir lífstíl manna. Ég veit að ég greiddi með eigin peningum fyrir það sem hópurinn gerir hér að umtalsefni. Engin hlutafélög greiddu þessa hluti fyrir mig. Ég spyr: Gilti það sama um alla þá sem siðahópurinn setur undir hatt íslenskra auðmanna? Ætti það ekki að skipta máli í umfjöllun um siðferði? Er það síðan ekki mitt einkamál hvort ég eyði peningum mínum í einkaflugvél eða held eftirminnilega afmælisveislu með vinum mínum eða geymi þá aðgerðalausa í banka? Er það mál siðfræðinga í nefnd á vegum löggjafaþingsins að fjalla um á opinberum vettvangi? Síðan er augljóst að siðahópurinn reynir að bregða fyrir sig hæðni í frásögn sinni og læt ég lesendum eftir að hugleiða tilgang hópsins með því.

Samhengislaus og óljós atburðarás – tilefnislausar ásakanir

Í rannsóknarskýrslu Alþingis er reynt að draga fram atburðarás helgarinnar 3.-6.október 2008. Hvað varðar þá atburði sem ég tók þátt í eru lýsingar rannsóknarnefndarinnar í alla staði afar ófullnægandi – samhengislausar, óljósar og mýgrútur hálfkveðinna vísa. Þá eru birtar í skýrslunni ásakanir í minn garð hafðar eftir Kaupþingsmönnum sem eru rangar og illgjarnar og er með ólíkindum að sómakærir nefndarmenn birti þær án þess að gefa mér tækifæri á svörum, útskýrum eða andmælum. Látið er í veðri vaka að ég hafi verið að blekkja Kaupþingsmenn þegar ég segi þeim í stuttu símtali að Landsbankinn væri búinn að „redda“ málum en fram kemur að í framhaldinu funda þeir með ráðherrum og bera á mig að ég beiti blekkingum. Hið rétta var að Landsbankamönnum hafði tekist að lækka lausafjárþörf bankans í erlendri mynt úr 1000 evrum í 500 milljónir evra og töldu menn það á sínum tíma gleðilegan áfanga. Hins vegar gekk illa að koma á fundum með ráðmönnum til að upplýsa þá um breytta stöðu.

Fullur vilji til sameiningar – alltaf ljóst að nýtt eigið fé gat ekki komið frá eigendum

Í aðdraganda hrunsins benti ég á m.a. í viðtölum við fjölmiðla að aðstæður væru þannig á árinu 2008 að eigendur bankanna væru ekki einráðir um framtíð bankanna – skuldir væru það miklar að kröfuhafar réðu för. Mér var það ljóst að sameining banka á Íslandi væri til lítils ef ekki fengist nýtt eigið fé sem enginn á Íslandi gat lagt fram nema þá ríkissjóður. Það kemur mér á óvart að í rannsóknarskýrslu Alþingis séu ummæli Geirs H. Haarde sett fram þannig að ég hafi verið tregur til viðræðna um sameiningu Landsbankans og Glitnis. Þá minnist ég þess ekki að hafa heyrt talað um 30 milljarða króna framlag ríkisins. Furðu mína vekur að rannsóknarnefndin birti einhliða frásagnir af þessum fundi og hirðir ekki um mína hlið mála en hafa skal í huga að verkefni nefndarinnar var að leita sannleikans.

Novator One LP ekki í eigu Novators –Stuðningur við Straum tortryggður

Í umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Novator One LP sjóðinn kemur ekki skýrt fram sú staðreynd að sjóðurinn er í eigu Straums. Þá eru skýringar á láni mínu til Straums tveimur mánuðum eftir hrun stóru bankanna þriggja ófullnægjandi og þar er ekki tekið fram að ég var að styðja við Straum með innláni þegar ég gat ráðstafað fénu á ýmsan annan öruggari og arðbærari hátt.