Almennt : Yfirlit greina
Órökstuddar tölulegar niðurstöður, ályktanir sem rekast á og óljósar staðhæfingar
Í rannsóknarskýrslu Alþingis segir að skuldir mínar hafi aukist um 97 milljarða evra frá janúarbyrjun 2007 til október 2008. Birt er tafla með tölulegu yfirliti um skuldir mínar án þess að skýringur séu gefnar á því hvernig þessar tölur eru fundnar. Þá er þessi framsetning á upplýsingum ekki í samræmi við það sem segir í kafla 8.7.4.3. hér að framan. Þar er heldur ekki gefnar skýringar á tilurð talna. Þá er sett fram illskiljanleg staðhæfing um að meirihluti nýrra lána sé „ótryggður eða tryggður með núverandi tryggingum“. Annaðhvort eru lán tryggð eða ótryggð og skiptir þá engu hvort veð eru ný eða gömul. Svo er því haldið fram að Samson hafi keypt meirhlutann í Landsbankanum en eins og flestir vita gerðist það aldrei. Og þá vekur það athygli þegar skrifað er að hlutir séu óútskýrðir þegar staðreyndin er sú að rannsóknarnefndin leitaði ekki til mín eftir skýringum.
Samið um lán að vori – síðasta greiðsla viku fyrir hrun
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er gefið í skyn að félag á mínum vegum hafi tekið lán í Landsbankanum í lok september rétt fyrir hrun íslensku bankanna. Það er ekki rétt að félag mitt hafi samið þá um lán heldur var samið um lánið á vormánuðum í tengslum við hlutafjáraukningu í Actavis en síðan var lánið greitt út í áföngum. Rétt er að sjótta og síðasta útborgun lánsins var 30.september 2008. Þessi rangfærsla er endurtekin fjórum sinnum í skýrslu nefndarinnar og ítrekað látið í veðri vaka að ég hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu rétt fyrir hrun. Rangfærslur í fremri hluta skýrslunnar verða að staðreyndum í síðari hluta hennar. Rétt er að fram komi að þetta lán var hluti af skuldauppgjöri mínu í júlí 2010.
Röng mynd – villandi og rangar upplýsingar
Sú mynd sem dregin er af skuldum mínum við íslenska banka í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er röng. Ýmsar upplýsingar sem settar eru fram eru rangar og aðrar eru villandi. Helst reynir rannsóknarnefndin að telja til minna skulda ýmsar skuldir félaga sem ég hafði lítið sem ekkert með að gera og átti lítið í. Sú aðferð rannsóknarnefndarinnar að telja það til minna skulda byggir hvorki á lagastoðum né venjum. Skuldir fyrirtækja sem ég leiddi voru að sönnu miklar og í rauninni of miklar eins og ég hef sjálfur viðurkennt. Ástæðulaust er hins vegar af rannsóknarnefndinni að bæta við þær skuldum sem ég efndi hvorki til né bar beina ábyrgð á.
Langt seilst hjá DV – án árangurs
DV heldur uppteknum hætti með skrif sín af málefnum sem tengjast kaupum á tölvuleikjaframleiðandanum CCP. Blaðið hefur að vísu þurft að leiðrétta fyrstu skrif sín, en heldur áfram að reyna að gera viðskiptin tortryggileg. Nú notar blaðið það ráð að hrópa um „innherjaupplýsingar“ og lítur þar framhjá þeirri staðreynd að félagið var alls ekki skráð á markaði. Lakari gerist viðskiptablaðamennskan varla.