Virðing og vönduð vinnubrögð

Framkvæmdir á Fríkirkjuveginum ganga vel. Þar eru úrvalsmenn við öll verk, enda mikilvægt að sýna þessu sögufræga húsi sem allra mestan sóma. Ég hlakka verulega til að sjá það fullbúið.

Ásgeir Ásgeirsson arkitekt var í viðtali við Stöð 2 á sunnudag. Þar lýsti hann endurbótum á húsinu og kvaðst nálgast það verkefni af virðingu. Ásgeir, sem hefur sérmenntað sig í viðhaldi gamalla húsa, hefur lagt mikla vinnu í að tryggja að allar endurbætur séu í samræmi við þann stórhug sem einkenndi byggingu hússins árið 1907.

Til að endurbæturnar heppnist sem best þarf að tryggja vönduð vinnubrögð í öllum verkum. Þess vegna var til dæmis veggfóðrarinn og dúkalagningameistarinn Beinteinn Ásgeirsson ræstur út á níræðisaldri. Beinteinn og synir hans eru í hópi örfárra iðnaðarmanna sem enn kunna þá gömlu kúnst að strekkja striga á veggi og í loft. Þeir feðgar eru því besta teymið sem völ er á til að tryggja að það gamla handverk fái að njóta sín í húsinu, rétt eins og þegar það var nýbyggt.

Reyndar var Beinteinn ekki einn um að vera sérstaklega kallaður til vegna verksins. Elsti sonurinn, Ásgeir, lærði iðnina hjá föður sínum á árum áður en sneri sér svo að skólastjórn og hefur stýrt Háteigsskóla um árabil. Hann sendi nemendur út í vorið og skellti sér svo beint í vinnugallann og tók til við strigann á Fríkirkjuveginum.

Fréttavefurinn mbl.is fékk pata af starfi Beinteins og sona og tók við þá skemmtilegt viðtal.