Nova sparaði tugi milljarða
Fjölmiðlar gerðu sölunni á Nova góð skil, enda ekki á hverjum degi sem erlendir fjárfestar kaupa eitt öflugasta fyrirtæki landsins. Ég sagði í viðtali við mbl.is að ég væri meyr á þessum tímamótum, enda væri erfitt að sleppa hendinni af svo góðu fyrirtæki. Samkeppnin frá Nova hefur tryggt íslenskum neytendum miklar lækkun á farsímakostnaði. Sú lækkun nemur samtals rúmum 60 milljörðum króna á sl. 10 árum. Ég er stoltur af árangri Nova, sem hefur sannarlega ekki sagt sitt síðasta á farsímamarkaði.
Það er gaman að rýna í tölur, sem sýna hvernig innkoma Nova á staðnaðan markað hristi duglega upp í hlutunum. Núna er heildarkostnaður íslenskra fyrirtækja og heimila af farsímaþjónustu mjög svipaður og hann var árið 2006, eða um 16 milljarðar króna á ári. En á sama tíma hefur almennt verðlag hækkað rúmlega 70%, fjöldi tækja í umferð hefur tvöfaldast og þjónustan margfaldast, hvort sem rætt er um fjölda mínútna, fjölda megabæta, útbreiðslu eða hvaða viðmið annað sem menn vilja skoða. Sparnaðurinn, 60 milljarðar króna, er fjórfalt söluverðið á Nova núna. Skýringarmyndin sem hér fylgir sýnir þetta ágætlega.
Fákeppni og stöðnun
Þegar Nova tók til starfa í desember 2007 voru tvö símafyrirtæki á markaðnum, þetta var fákeppnismarkaður og hvorugt fyrirtækjanna sá ástæðu til að rugga bátnum. Það gerði Nova hins vegar heldur betur! Gömlum, svifaseinum þursum líkar slíkt ekki og margoft var reynt að leggja stein í götu Nova. Það er erfitt að verjast samkeppnisbrotum, því stjórnvöld sem bregðast eiga við vinna oft að málum í marga mánuði, jafnvel ár, áður en úrlausn fæst. Sá tími er erfiður fyrir fyrirtæki sem eru að fóta sig á nýjum markaði í harðri samkeppni við gamla risa. Það er líka undarlegt að fylgjast með því hvernig risinn getur í sumum tilvikum undirritað sátt og greitt málamyndasekt til samkeppnisyfirvalda, án þess að játa á sig brot, á meðan fyrirtækið sem brotið var á situr eftir með skaðann.
Fjarskiptaþjónusta í fremstu röð
En það er ástæðulaust að dvelja við gömul gremjuefni núna. Nova var sneggra, hugmyndaríkara og skemmtilegra en gömlu fyrirtækin og viðskiptavinirnir voru fljótir að átta sig á því. Yngstu viðskiptavinirnir vildu helst vera hjá Nova og saman hafa þeir og fyrirtækið stækkað og þroskast.
Þegar Nova kom á markaðinn var staðan sú að Ísland var með síðustu þjóðum Evrópu til að bjóða 3G þjónustu. Nova varð fyrsta farsímafyrirtækið á Íslandi til að bjóða 4G, en á þeim tíma buðu fá evrópsk lönd þá þjónustu. Þannig stökk markaðurinn úr fákeppni og stöðnun yfir í að vera með því besta sem þekkist.
Hjá Nova starfar frábært fólk, sem hefur unnið þrekvirki við að koma þessu öfluga fjarskiptafyrirtæki í fremstu röð. Samstarfið við þann góða hóp hefur umfram allt verið mjög skemmtilegt. Ég óska þeim áframhaldandi góðs gengis og skemmtunar.
Eftir söluna á Nova fór ég í viðtal við Markaðinn, viðskiptablað Fréttablaðsins. Þar ræddi ég auðvitað um Nova, en líka almennt um frumkvöðlastarf, símafyrirtækin Play í Póllandi og WOM í Chile, lyfjamarkaðinn og ýmislegt fleira. Lesa má viðtalið hér.