Leiðin að lífsgæðum þjóða

Ráðstefnan „Social Progress – What works?“ verður haldin í Hörpu í dag, fimmtudag. Þar munu fjölmargir fræðimenn ræða nýjan mælikvarða til að meta gæði samfélagsinnviða. Slíkar mælingar eru tiltölulega nýjar af nálinni en löngu tímabærar því þær gefa mun heildstæðari mynd af samfélögum en þegar rýnt er í eintómar hagtölur. Fyrirtæki mitt, Novator, er stoltur styrktaraðili ráðstefnunnar.

Michael Porter, prófessor við Harvard, er upphafsmaður hins nýja mælikvarða og öflugasti talsmaður hans. Porter, sem talinn er einn áhrifamesti hugsuður í viðskiptum sem nú er uppi, þróaði hinn nýja mælikvarða í samstarfi við fjölmarga háskóla og leiðtoga í viðskiptalífinu. Í grein, sem Porter ritaði í apríl í fyrra, segir m.a.: „Efnahagslegur vöxtur hefur lyft hundruðum milljóna manna úr fátækt og bætt líf fjölmarga annarra á síðustu 50 árum. Það verður þó sífellt augljósara að efnahagslegur mælikvarði er ekki fullnægjandi til að meta lífsgæði. Það samfélag nær ekki árangri sem sinnir ekki grunnþörfum íbúanna, veitir fólki ekki leiðir til að bæta lífskjör sín, verndar ekki umhverfið og tryggir fólki ekki tækifæri. Sjálfbær vöxtur næst ekki nema með bæði efnahagslegum og  félagslegum framförum.“

Porter bendir á, að í mörgum tilvikum taki samfélög félagslegum framförum í takt við bættan efnahag. Slíkt sé þó ekki algilt. Hann nefnir Costa Rica sem dæmi, sem hafi náð mun betri félagslegri stöðu en Ítalía, þrátt fyrir að landsframleiðsla pr. íbúa nái vart þriðjungi af sambærilegri tölu hjá Ítölum. Hann segir hið sama gilda t.d. um Nýja Sjáland og Senegal, sem hafi tekist mun betur upp við að láta efnahagslegan vöxt endurspeglast í auknum lífsgæðum en t.d. Bandaríkjunum eða Nígeríu hefur tekist.

Á ráðstefnunni í dag verður fjallað um mörg og ólík lönd, t.d. Nepal og Rúanda, Ísland og Amazon-svæðið í Brasilíu, Nýja-Sjáland og Baskahéruð Spánar, Costa Rica og borgina Medellin í Kolumbíu. Það verður án efa mjög fróðlegt að heyra hvernig þessar ólíku þjóðir um allan heim nálgast þau viðfangsefni að auka lífsgæðin, með auknum mannréttindum, bættum aðgangi að menntun, heilbrigðisþjónustu og aukinni vitund um umhverfisvernd. Í raun hvernig hugað er að öllum þeim samfélagslegu og umhverfislegu þáttum, sem ráða líðan fólks.

Hinn 20. apríl sl. rituðu skipuleggjendur ráðstefnunnar hér á landi, Hákon Gunnarsson og Rósbjörg Jónsdóttir hjá Gekon, grein í Fréttablaðið þar sem segir m.a. : „Atburðir síðustu vikna hafa vakið upp margar spurningar um styrk samfélagslegra innviða á Íslandi. Margt bendir til að styrkur Íslands liggi á styrkri velferð og sjálfbærni orkunnar í stóru landi. Verkefnið framundan er því að laga hér hagstjórn og peningastefnu – en halda áfram í þá grunngerð, velferð og umburðarlyndi sem vissulega er hér til staðar. Social Progress Index er verkfæri sem gæti nýst hér.“

Ég tek heils hugar undir þessi orð og hlakka til að heyra hugmyndir fræðimanna á ráðstefnunni um hvaða leiðir séu vænlegastar til að auka lífsgæði þjóða.