Ljósfælnir gammar og fingraför þeirra

Nú er loks opinbert hverjir standa að baki rógsherferð í formi hópmálsóknar gegn mér. Niðurstaðan kemur mér ekkert á óvart, höfundareinkennin duldust mér aldrei.  Frá upphafi hefur mörgum milljónum verið varið  í lögfræðiálit, auglýsingar, fundarhöld, langdregið vitnamál og tilhæfulausa stefnu, þótt helst væri að skilja á forsvarsmönnum málsóknar að þar færu smáir, hrjáðir – og félausir – riddarar réttlætisins.  Auðvitað var það ekki svo.

Kjarninn upplýsti á miðvikudag að málsóknarfélagið, sem hefur stefnt mér fyrir rétt, byggist að 2/3 hlutum á hlutabréfaeign félagsins Urriðahæðar, sem stofnað var í september sl. Þetta nýja félag átti að sjálfsögðu engan hlut í Landsbankanum þegar hann féll, en hefur undanfarið sankað að sér löngu afskrifuðum hlutabréfum lífeyrissjóða fyrir háar upphæðir og ætlar nú að krefjast bóta fyrir „tjón“ sitt. Í daglegu tali kallast félög sem þessi hrægammasjóðir. Samkvæmt frétt Kjarnans er eigandi þessa hrægammasjóðs Árni Harðarson, starfsmaður Róberts Wessman.  Það hefur ekki farið fram hjá neinum að á milli okkar hefur andað köldu síðan mér var nauðbeygður kostur að reka Róbert úr forstjórastóli Actavis eftir að félagið fór á hliðina undir hans stjórn. Þeir telja sig eiga harma að hefna og hafa leitað að átyllu til að fara í mál við mig. Átylluna fundu þeir að endingu í hugarburði um að ég beri ábyrgð á reikningsskilum Landsbanka Íslands.

Þeir hika ekki við að leggja í tugmilljóna kostnað til að reyna að klekkja á mér. Róbert hefur í digra sjóði að sækja, enda gætti hann þess vandlega að koma auð sínum undan kröfuhöfum, í stað þess að gera upp milljarða skuldir sínar við íslensku bankana eftir hrun. Auðvitað gera þeir sér engar vonir um bætur úr minni hendi, enda eina markmiðið að sverta mannorð mitt.

Fingraför þessara kumpána hafa verið á málinu frá upphafi. Fyrstur steig fram lögmaðurinn Ólafur  Kristinsson, uppfullur af heilagri vandlætingu og réttlætiskennd að því er virtist. En í raun var hann aðeins innblásinn af langri vináttu við sinn gamla samstarfsmann Árna Harðarson. Síðar bættist við persónulegur lögmaður Róberts Wessman og félagi Árna Harðarsonar, Jóhannes Bjarni Björnsson, sem ásamt lögmannsstofu sinni Landslögum gengur hart fram við smölun í hrægammasjóðinn.  Að endingu mun hann hagnast mest á þessu gróðabralli. Útvarp allra landsmanna dansar með og gaf lögmanninum ókeypis auglýsingu með einhliða málflutningi í Kastljósi.

Vilhjálmur Bjarnason hefur verið drjúgur liðsmaður hinna ljósfælnu upphafsmanna málsins. Hann fer í fylkingarbrjósti í því sem látið er líta út fyrir að vera herför fyrir litla fjárfesta. Hann hefur talið fólki  ranglega trú um að það hafi einhvern veginn verið blekkt með klækindum og lagakrókum og lokkar það með gylliboðum um óskilgreindan gróða út úr þeim skelfilega atburði sem bankahrunið hér var. Þessir almennu hluthafar gátu ekki vitað að þeir yrðu skjöldur fyrir óþverraviðskipti af þessu tagi og myndu meira að segja standa undir hluta kostnaðarins af þessari hefnigirni. Mér þykir ákaflega leitt að þeim hafi verið villt sýn með þessum hætti.  Það skyldi þó aldrei vera að Vilhjálmur hafi verið blekktur sjálfur?

Aðkoma lífeyrissjóðanna er sérstakur kapítuli. Fast var lagt að öllum stærstu sjóðunum að taka þátt í hópmálsókninni. Þeir skoðuðu málið vandlega með lögfróðustu mönnum og ákváðu að því búnu að afþakka þátttöku þar sem ekki þótti fótur fyrir málssókninni. Þá buðust gammarnir til að kaupa af þeim löngu, löngu afskrifuðu bréfin. Einhverjir létu undan og blönduðu sér með þeim hætti í persónulegar deilur mínar og þeirra kumpána. Ég leyfi mér að trúa því að lífeyrissjóðirnir hafi ekki vitað hverjir voru að baki kaupunum og að þeir árétti að þeir tengist ekki þessari herferð, nú þegar hið sanna er komið í ljós.  Ef þeir hins vegar vissu hverjir kaupendur voru þá hafa þeir metið siðferði sitt á 5-10 milljónir króna – og má vera að það sé yfir raunvirði.

Hinir ljósfælnu gammar og leppar þeirra kæra sig kollótta þótt almennir hluthafar séu blekktir og trúverðugleika lífeyrissjóða stefnt í voða. Lægra verður varla lagst.