Héraðsdómur vísar hópmálsókn frá dómi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá máli sem hópmálsóknarfélag höfðaði á hendur mér. Í úrskurðinum kemur fram að ekki liggi fyrir að félagsmenn í hópmálsóknarfélaginu eigi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr viðurkenningarkröfum sínum og að kröfugerð þeirra feli eingöngu í sér beiðni um álit á lögfræðilegu efni án þess að fyrir liggi að hún sé nauðsynleg til úrlausnar á ákveðnum kröfum.

Ég ítreka að málefni mín og Landsbankans hafa verið rannsökuð í þaula af þar til bærum yfirvöldum og ekki talin ástæða til aðgerða í nokkru þeirra.  Þar að auki hef ég gert upp allar mínar skuldir við bankann og hann því skaðlaus af viðskiptum við mig.  Slitastjórn bankans hefur staðfest að hann eigi engar kröfur á mig. Misfærslum í skýrslu rannsóknarnefndar hef ég svarað ítarlega enda hef ég ekkert saknæmt unnið.