Sýndarlíf VBS framlengt – Straumur felldur

Slitastjórn VBS telur að Seðlabankinn og íslenska ríkið hafi vísvitandi dregið að setja VBS fjárfestingarbanka hf. í þrot til að sölsa undir sig veð í  nánast öllum eignum bankans á kostnað annarra kröfuhafa hans. Endurskoðendur höfðu komist að þeirri niðurstöðu að VBS hafi verið ógjaldfær í ársbyrjun 2008, rúmu ári áður en ríkisvaldið hljóp undir bagga og rúmum tveimur árum áður en löngu fyrirséð fall hans varð að veruleika, eins og skýrt hefur verið frá í fréttum. Á sama tíma og Seðlabankinn stóð í þessum sýndarviðskiptum var Straumi-Burðarás neitað um fyrirgreiðslu vegna tímabundins lausafjárvanda.

 

Viðskiptablaðið fjallaði á fimmtudag um afstöðu slitastjórnar VBS, sem hafnar veðtöku Seðlabanka Íslands til tryggingar kröfum Seðlabanka á hendur VBS. Slitastjórn sakar Seðlabankann og ríkissjóð um að halda lífi í VBS þrátt fyrir að hafa vitað að bankinn var ógjaldfær. Sú staða gat sannarlega ekki leynst neinum, þar sem endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young vann skýrslu um gjaldfærni bankans frá ársbyrjun 2008. Niðurstaða þeirrar könnunar var sú, að VBS hafi verið ógjaldfær í febrúar 2008. Samt sem áður var tekin sú ákvörðun að framlengja líf VBS með 26,4 milljarða láni frá ríkissjóði Íslands, með 2% vöxtum þegar markaðsvextir voru 12%. Seðlabankinn tók veð í nær öllum eigum VBS, sem slitastjórnin telur fela í sér grófa mismunun á jafnræði kröfuhafa.

Seðlabankinn tapar tugum milljarða

Ef þessi afstaða slitastjórnar stenst þá er ljóst að krafa Seðlabankans verður flokkuð sem almenn krafa og jafnrétthá öðrum kröfum í búið. Lýstar kröfur nema um 48 milljörðum, en aðeins er reiknað með að um fimmtungur náist upp í þær kröfur. Seðlabankinn mun því tapa tugum milljarða, að því er fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins.

Um leið og ríkið tryggði framhaldslíf VBS með tugum milljarða í mars 2009 – og Saga Capital fékk einnig tugmilljarða lán á sama tíma – var Straumi-Burðarás neitað um aðstoð. Þó var ljóst að bankinn átti aðeins við tímabundinn lausafjárvanda að stríða. Straumur hafði þegar samið við lánardrottna sína um að fresta afborgunum og náð að selja eignir. Stefnt var að frekari sölu eigna fyrir 200 milljónir evra á næstu mánuðum, en farið var fram á 100 milljóna evra að láni frá Seðlabankanum til að brúa bilið. Með fyrirgreiðslunni hefði bankinn getað greitt allar skuldir sem fyrirsjáanlegt var að standa þyrfti skil á.

Þrátt fyrir að Straumur-Burðarás hafi verið felldur finnst ekki eitt einasta skjal sem varðar málið í skjalasafni forsætisráðuneytisins, eins og rakið er í sagnfræðilegri samantekt. Engin skjöl hafa heldur fundist í fórum fjármálaráðuneytisins, viðskiptaráðuneytisins eða Seðlabankans. Allt bendir til að um órökstudda geðþóttaákvörðun hafi verið að ræða, líklega vegna þess að stjórnvöld hafi talið það pólitíska áhættu að grípa til aðgerða sem hægt væri að túlka sem einhverskonar stuðning við mig, stjórnarformann bankans.

Enginn reynir að þræta fyrir að í hruninu og fyrir hrun voru margar og stórar ákvarðanir teknar, sem reyndust síðar vera dýrkeypt mistök. Það er hins vegar algjörlega óafsakanlegt að taka svo ófaglegar ákvarðanir eftir hrun. Það er ekki að sjá að þeir sem tóku ákvörðun um að  láta VBS hökta áfram, þegar allir vissu að bankinn var í raun fallinn fyrir löngu, hafi lært neitt af hruninu.