Ónákvæmni, rangfærslur og skallar

Í bókinni „Why Icelandi?“ fjallar höfundurinn, Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og fyrrum forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, talsvert um einkavæðingu bankanna sem hófst 1998 og lauk árið 2003. Af ástæðum sem ekki koma fram í bókinni er fjallað mun ítarlegar og oftar um einkavæðingu Landsbankans en Búnaðarbankans. Engu að síður gætir ónákvæmni hjá hagfræðingnum og víða eru skallar í frásögn hans en nákvæmlega er fjallað um söluna á Landsbankanum hér vefnum. Þá fer höfundur bókarinnar á nokkrum stöðum rangt með staðreyndir og er það ljóður á ráði höfundar að geta nær hvergi heimilda.

 

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur, heldur á lofti þeirri kenningu að vegna þess að ríkið seldi bankana til skuldsettra eignarhaldsfélaga hafi í einkavæðingu bankanna sem lauk 2003 orðið til það sem hann kallar „samlífi eða innræktun banka og eigenda þeirra“ – „a symbiotic – or incestuous relationship between banks and their owners“ (bls. 48-49). Þessi kenning fékk síðan byr undir báða vængi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem dregin var upp einhlít mynd af einkavæðingunni við hliðina á  yfirlitsmynd sem sýndi að eigendur íslensku bankanna í heild voru með alltof mikil lán í íslenska bankakerfinu. Ég hef opinberlega viðurkennt minn hlut í útlánaþróuninni hjá íslensku bönkunum, beðist afsökunar á honum og lýst mig sammála því að skuldsetning eigenda íslensku bankanna í íslenska kerfinu var of mikil. Engu að síður hef ég haldið til haga gagnrýni á aðferðir rannsóknarnefndarinnar við útreikning á það sem í skýrslunni eru sagðar mínar skuldir og þá hef ég einnig gert athugasemdir við rangfærslur og villur.

Kenning Ásgeirs eins og hún er sett fram í bók hans hefði verið marktækari hefið hann verið heppnari með val á dæmum til að rökstyðja mál sitt. Hann virðist í þessu efni einblína á Landsbankann sem er óheppilegt fyrir margra hluta sakir. Hér skulu gerðar nokkrar athugasemdir við það sem segir í bók Ásgeirs um einkavæðingu bankanna og áhrif hennar og eftirmál.

Í bókinni segir:

„In October (2002), the government suddenly decided to sell its 45.8 percent of Landsbanki‘s shares to the third –highest bidder: Samson Holding. Samson was then owned by a trio of businessmen who recently had sold a beer factory in St. Petersburg, Russia, to Heineken for $400 million, …“ (bls. 49)

Og síðar þegar hann fjallar um skuldir eignarhaldsfélaganna sem fóru með stærstu hlutana í bönkunum tekur hann aðeins dæmi af Samson. Hann segir:

„The holding companies had been leveraged from the very beginning. For example, Samson Holdings, the main owner of Landsbanki, had bought a 48.3 percent share of the bank when the state sought privatization in 2002; the deal included a 30 percent equity ratio with the remaining 70 vendor financed.“ (bls.92)

Fyrst er rétt að benda á að Ásgeir styður fullyrðingar sínar ekki með gögnum eða heimildum og því er ekki hægt að kanna áreiðanleika þess sem hann segir. Í öðru lagi gætir ósamkvæmni  því í fyrri tilvitnun bókarinnar segir að 45,8 % hlutur í Landsbankanum hafi verið seldur  en í þeirri síðari 48.3%. Það er fyrri talan sem er rétt eins og lesa má í kaupsamningnum sem gerður var opinber hér á vefnum á síðasta ári. Í þriðja lagi er það síðan ekki rétt sem segir að Landsbankinn hafi skyndilega verið seldur Samson í október 2003. Hið rétta er að opinber umræða hafði verið um söluna til Samsonar allt frá því að Samson óskaði eftir viðræðum við stjórnvöld um hugsanleg kaup á kjölfestuhlut í Landsbankanum í júní sama ár. Frá því var greint í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi var mikil umræða um frumkvæði Samsonar og síðan það ferli einkavæðingar sem stjórnvöld ákváðu að setja málið í. Í fjórða lagi er það ekki allur sannleikurinn að bankinn hafi verið seldur þeim sem var með þriðja hæsta tilboðið því í útboðsgögnum kom skýrt fram að tekið yrði tillit til fleiri þátta en verðsins og var það gert. Samson var með besta tilboðið samkvæmt mati sérfræðinga breska bankans HSBC en það var vissulega ekki hæst þeirra. Í fimmta lagi segir Ásgeir – án þess að vísa í heimildir, að eiginfjárhlutfall viðskiptanna hafi verið 30%. Það er ekki rétt eins og kemur fram í kaupsamningi því þar segir skýrum orðum að hlufallið sé 34.5% og staðfesti FME  þá fjármögnun í mati á hæfi Samson til að fara með kjölfestuhlut í Landsbankanum. Í sjótta lagi segir hagfræðingurinn að 70% kaupverðs hafi verið fjármagnað með einhverskonar seljandaláni (e. vendor financing). Það er ekki rétt.  Ríkið átti engan þátt í fjármögnun á hlut Samsonar í Landsbankanum en um þá fjármögnun má lesa hér á þessum vef.

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, endurtekur síðan rangfærslurnar hér að ofan þegar hann gefur sér pólitískt samhengi hlutanna. Hann segir ennfremur:

„As prime minister he (David Oddsson) approved the sale of 46 percent of Landsbanki to Samson Holding, with about 70 percent leverage, even though there were two higher bids on the table. Afterward, Oddsson‘s closest Independence Party associate, managing director Kjartan Gunnarsson, became vice-chairman of the board at the new private bank.“

Þó ekki sé ætlunin hér að gera lítið úr traustu sambandi Davíðs Oddssonar og Kjartans Gunnarssonar þá hefði mátt gera frásögnina fyllri með því að geta þess að Kjartan var fyrrum formaður bankaráðs Landsbankans og fyrrum formaður endurskoðunarnefndar hans auk þess að vera í hópi þeirra einstaklinga sem voru hvað stærstir hluthafa í bankanum. Kjartan var talinn styrkja bankaráðið með nærveru sinni þar sem hann þekkti starfsemi bankans betur en flestir og alls ekki þótti heppilegt að skipta út öllum fráfarandi bankaráðsmönnum.

Sköllótt frásögn af einkavæðingu bankanna

Annars vekur það einna mesta athygli við umfjöllun Ásgeirs Jónssonar, hagfræðings, um einkavæðingu bankanna og „innræktun bankanna og eigendanna“ hversu lítinn gaum hann gefur sölu ríkisins á kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands.  Eftir ítarlega lýsingu á sölu Landsbankans og aðstandendum hans – bls. 49-50, segir um einkavæðingu Búnaðarbankans:

„Next, the government sold its remaining shares in Bunadarbanki. The buyer was the socalled S-group, a coalition of investors with ties to the once mighty Icelandic cooperative movement and the once isolationist Progressive Party. In this sale, however, the highest bid was taken.“ (bls. 50)

Þetta er allt og sumt.  Vekur það athygli því verðlaunaðar fréttagreinar hafa varpað skýru ljósi á margt í sölunni á Búnaðarbankanum og eins og þar kemur fram var erindrekstur stjórnmálamanna afdráttarlaus og eindreginn. Það vekur í raun spurningar afhverju hagfræðingurinn og fyrrum forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings skýrir ekki betur frá fjármögnun kaupanna á Búnaðarbankanum og mjög óvæntum kaupum þessa S-hóps skömmu áður á tryggingafélaginu VÍS frá Landsbankanum sem þá var enn í ríkiseiguog síðan ráðningu fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins í forstjórastól VÍS rétt á meðan sala ríkisins á bankanum átti sér stað. Þá var aðkoma erlendra fjárfesta að hópnum ævintýraleg –  lengst af átti franski stórbankinn Society General að vera þátttakandi í kaupunum en þar sem enginn innan dyra kannaðist við málið þegar íslenskir fjölmiðlar fóru að spyrjast fyrir um fjárfestingar bankans á Íslandi ríkti um tíma þögn um hinn erlenda þátttakanda. Á síðustu stundu, sama dag og kaupsamningur var undirritaður, kom í ljós að erlendi fjárfestirinn var austurrískur einkabanki, Hauck und Aufhauser, sem var ekki stærri en svo að meintur hlutur hans í Búnaðarbankanum hefði þanið efnahagsreikning hans um 50%.Til þess kom ekki því einhverra hluta vegna sást þessi merka eign aldrei í bókum þessa banka. Og síðast en ekki síst vekur það undrun að ekki er fjallað um hina undra skjótu yfirtöku Kaupþings á Búnaðarbankanum en aðeins örfáum vikum eftir undirritun samninga við ríkið eru kaupendur Búnaðarbankans komnir með hlutabréf Kaupþings í hendurnar og áhyggjur S-hópsins af fjármögnun kaupanna á Búnaðarbankanum horfnar – væntanlega farnar sömu leið og svörin við spurningunum um fjármögnun kaupanna, hlutverk Hauck und Aufhauser og hvað það kostaði að ná banka úr höndum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og afhenda síðan erkióvininum – Kaupþingi, samdægurs.

Það má velta því fyrir sér hvort það hafi frekar verið forstöðumaðurinn hjá Kaupþingi sem skrifaði kaflann um einkavæðinguna í bókina „Why Iceland?“ en hagfræðingurinn með doktorsprófið frá virtum amerískum háskóla. Það má með sanni segja að frásögnin sé sköllótt þó svo einnig megi færa rök fyrir því að hún sé hlutdræg og að mikilvægum upplýsingum sé skipulega haldið frá lesandanum.

 Vangaveltur um tregðu

Ásgeiri Jónssyni  er mikið í mun að tortryggja sölu ríkisins á Landsbankanum á sama tíma og hann minnist vart á einkavæðingu Búnaðarbankans. Hann heldur því ítrekað fram að FME hafi verið tregt til að samþykkja að Samson færi með kjölfestuhlut í Landsbankanum. Í bókinni segir – enn og aftur er engra heimilda getið:

 „The Icelandic FSA was reluctant to approve the deal and deferred its decision for four months. For one thing, it was troubling that the bank should be owned by a leveraged holding company, with the state providing 70 percent vendor financing. And many looked askance at the prospect of these investors controlling a bank. Nevertheless, on February 3, 2003, the sale was approved.“ (bls. 49)

Síðar eru þessar fullyrðingar endurteknar:

 „The Icelandic FSA, which opposed this sale initially, grudgingly gave approval after months of lobbying.“ (bls. 143)

Í fyrsta lagi er rétt að leiðrétta að FME afgreiddi umsóknina á þremur mánuðum en ekki fjórum. Umsóknin var send 12.nóvember 2002 og hún afgreidd 3.febrúar 2003. Ekki er hægt að tala um tregðu af hálfu FME heldur fylgdu í kjölfar umsóknarinnar óskir frá FME um ítarlegri upplýsingar og fóru vikurnar á aðventunni og fyrstu vikur nýs árs í margvísleg bréfaskipti eins og hægt er að kynnar sér hér. Í ljósi þess að fullyrðingar Ásgeirs um tregðu og ósætti FME við afgreiðslu á hæfismati Samsonar eru órökstuddar og án allra heimilda hljóta þær í ljósi þeirra samskipta Samsonar og FME sem ég birti hér á vefnum, að teljast í besta falli vafasamar. Þá endurtekur Ásgeir hér aftur rangfærslurnar um að eigiðfjárhlutfallið í viðskiptunum um Landsbankann hafi verið 30% og þá segir hann ósatt um að kaupin hafi verið fjármögnuð að 70% hluta af seljanda (e. vendor financing).

Það er því ljóst að í annars ágætri bók Ásgeirs Jónssonar – „Why Iceland?“ er að finna í umfjöllun um einkavæðingu bankanna 1998-2003 ónákvæmni, rangfærslur og skalla sem virðast gera hlut Landsbankans og Samsonar verri í því ferli en t.d. Kaupþings, Búnaðarbankans, S-hópsins svo ekki sé minnst á tiltekna meðlimi þess hóps.