Sami aðdragandi og sama niðurstaða – Bandarísk rannsóknarnefnd um kreppuna þar í landi

Rannsóknarnefnd bandaríska þingsins skilaði í janúar sl. skýrslu um efnahagserfiðleikana þar í landi. Þar kveður að mörgu leyti við sama tón og í þeirri íslensku, sem kom út í fyrra, þó svo vinnubrögð séu önnur: Fjármálakerfið hefði átt að átta sig á varúðarmerkjum, en það hefðu stjórnvöld líka átt að gera. Reglur voru ófullnægjandi og eftirlit líka. Góðir stjórnarhættir voru of oft látnir lönd og leið og áhættusækni var allt of mikil, um leið og lánastarfsemi var ekki ábyrg. Stjórnvöld voru illa búin til að takast á við hrunið og ósamræmi í viðbrögðum þeirra varð til þess að auka á óvissuna og óðagotið sem greip um sig á mörkuðum. Þá bera greiningarfyrirtækin sannarlega sína ábyrgð með mati út úr öllu korti. Þetta eru kunnuglegar vangaveltur, sem enduróma nú í hverju landinu á eftir öðru, enda er kreppan vissulega alþjóðleg.

 

Hlutverk bandarísku þingnefndarinnar var að varpa ljósi á hvað hefði ýtt fjármálakerfi landsins og efnahag fram á hengiflug og tilgangur starfsins var að hjálpa stjórnvöldum og almenningi að skilja þær hörmungar sem yfir dundu, eins og segir í aðfararorðum nefndarinnar. Nefndin bendir á að rúmum tveimur árum eftir að kreppan skall á sé efnahagur landsins enn í kröggum, milljónir manna hafi misst atvinnu sína og atvinnulífið sé enn að berjast við að ná sér á strik á nýjan leik. Milljónir fjölskyldna hafi misst heimili sín og milljónir til viðbótar sjái fram á slíkt á næstunni, eða séu í alvarlegum vanskilum. Eignabruni hafi verið gífurlegur, sparnaður hafi horfið og fyrirtæki, stór sem smá, berjist við mikinn samdrátt.

Nefndin bendir á að hrunið á haustdögum 2008 sé mesta fjármálakreppa sem Bandaríkin hafi þurft að kljást við frá Kreppunni miklu, sem skall á árið 1929 og átti upptök sín með hruni á verðbréfamörkuðum í Bandaríkjunum. „Mikil reiði ríkir vegna þess sem gerðist og varla nema von. Margt fólk, sem ávallt fór að öllum reglum, er nú án atvinnu og óöruggt um framtíðarhorfur sínar,“ skrifa nefndarmenn.

Heiftarleg mistök sem hefði mátt afstýra

Ástæður hrunsins og þeirrar miklu kreppu sem á eftir fylgdi eru allnokkrar, að mati nefndarinnar, sem segir að hægt hefði verið að koma í veg fyrir kreppuna, hún hafi verið afleiðing mannlegra gjörða og aðgerðaleysis, en hana mætti hvorki rekja til náttúruhamfara eða þess að tölvukerfi hefðu farið í hönk. Þeir sem voru í fararbroddi í fjármálum og hinir opinberu ráðsmenn fjármálakerfis þjóðarinnar hefðu hunsað viðvaranir og látið hjá líða að velta fyrir sér, skilja og stýra þeirri áhættu sem þróaðist innan kerfis, sem var forsenda velferðar bandarísku þjóðarinnar. Þeir hafi ekki misstigið sig lítillega, heldur gert heiftarleg mistök. Umfang hrunsins hefði ekki þurft að verða jafn gríðarlegt og raun bar vitni. Þrátt fyrir að margir, jafnt á Wall Street sem í Washington, hafi lýst því yfir að ekki hafi verið hægt að sjá hrunið fyrir eða forðast það, þá hafi verið ýmis varúðarmerki. „Ógæfan var sú, að þau voru hunsuð eða þeim tekið með fyrirvara,“ segja skýrsluhöfundar.

Meingallað regluverk og eftirlit

Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu, að mikill misbrestur hafi verið í því regluverki sem gilti um fjármálastarfsemi og sama hefði gilt um eftirlit með þeirri starfsemi. Sá misbrestur hafi reynst hafa hrikalegar afleiðingar fyrir stöðugleika fjármálamarkaða landsins. „Varðmaðurinn var ekki á varðstað sínum,“ segja skýrsluhöfundar og telja meginástæðu þess vera þá viðteknu skoðun, að markaðurinn myndi sjálfur leiðrétta það sem úrskeiðis færi.

Stjórnunarháttum fyrirtækja var ábótavant, segir rannsóknarnefndin, sem segir mikilvæg fjármálafyrirtæki hafa verið allt of áhættusækin. Eða, eins og nefndin orðar það: „Rétt eins og Íkarus óttuðust þau aldrei að fljúga sífellt nær sólu.“ Í framhaldinu nefnir nefndin svo tengd atriði á borð við óábyrgar lántökur, áhættusamar fjárfestingar og skort á gagnsæi.

Rannsóknarnefndin segir ákveðið siðrof hafa átt sér stað í aðdraganda hrunsins. Þá tiltekur hún einnig sérstaklega, að lánshæfismatsfyrirtækin hafi brugðist þegar þau lögðu blessun sína yfir fyrirtæki og viðskipti og að þau hafi þannig átt veigamikinn þátt í að fjármálamarkaðir fóru með himinskautum.

Að lokum er vert að nefna sérstaklega umfjöllun rannsóknarnefndar Bandaríkjaþings um stjórnvöld. „Niðurstaða okkar er sú, að ríkisstjórnin hafi verið illa í stakk búin til að takast á við kreppuna og að ósamræmi í viðbrögðum hennar hafi aukið á óvissuna og óðagotið á fjármálamörkuðum.“

„Þá mun þetta gerast aftur“

Rannsóknarnefnd bandaríska þingsins segir að niðurstöður hennar verði að lesa með mannlegt eðli, ábyrgð einstaklinga og ábyrgð samfélaga í huga. Það sé einfeldningslegt að rekja hrunið til græðgi eða hroka. Hins vegar hafi menn ekki reiknað með mannlegum veikleika og það hafi skipt sköpum. Nefndin sé þeirrar skoðunar að kreppan sé afleiðing mannlegra mistaka, dómgreindarleysis og misgjörða, sem hafi leitt til kerfishruns sem þjóðin hafi þurft að greiða dýrum dómum. Við lestur skýrslunnar komi í ljós, að ákveðin fyrirtæki og einstaklingar hafi hegðað sér á óábyrgan hátt. „Kreppa af þessari stærð getur ekki verið afleiðing gjörða nokkurra, slæmra gerenda og sú var heldur ekki raunin hér. Að sama skapi þýðir umfang kreppunnar ekki að öllum sé um að kenna; mörg fyrirtæki og einstaklingar tóku engan þátt í þeim óhæfuverkum sem gátu af sér hörmungarnar.“

 Rannsóknarnefndin leggur mikla áherslu á að ekki megi líta svo á að enginn hafi getað séð kreppuna fyrir og þess vegna hafi ekki verið unnt að grípa til nokkurra ráða. „Ef við föllumst á þá skoðun, þá mun þetta gerast aftur.“