RÚV leitar ekki skýringa – misskilur og staðhæfir

Fullyrðingar fréttamanna RÚV í gær um lánaafgreiðslu Landsbankans til Samsonar eignarhaldsfélags ehf. eftir að bankinn var fallinn styðjast ekki við staðreyndir máls. Öll þau lán sem fjallað er um í fundargerð lánanefndar bankans  9. október 2008 og RÚV gerir að umfjöllunarefni voru afgreidd út úr bankanum mánuðum og árum áður. Þær ákvarðanir sem þarna eru færðar til bókar varða breytingar á ábyrgðum vegna gamalla lána og voru þær teknar fyrir hrun fyrirtækjanna.  Rétt er að taka fram, að RÚV leitaði engra skýringa hjá aðstandendum Samsonar við undirbúning þessara frétta og öll þau mál sem tilgreind eru hafa verið tíunduð áður í fréttum og í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ekkert nýtt hefur komið fram, þótt nú sé reynt að bera vínið fram á nýjum belgjum.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær var því haldið fram að veitt hefðu verið lán til mín og föður míns eftir að Landsbankinn var fallinn. Fréttamaður segir:  „Lánin til Björgólfsfeðga varða ábyrgð Samson frá því 2006 að Eimskip seldi ferðaskrifstofuna XL Leisure Group til Jointrace, félags í eigu stjórnenda XL. Jointrace fékk 280 milljónir evra að láni hjá Landsbankanum en bankinn vildi ekki lána nema Eimskip ábyrgðist lánið. XL fór í gjaldþrot haustið 2008, Landsbankalánið var þá enn ógreitt og veðin voru í Eimskip, Jointrace og félögum í eigu Björgólfs Thors, meðal annars hlut hans í leikjafyrirtækinu CCP.“ 

Hið rétta í þessu máli er að lánið var veitt 2006 þegar Eimskip seldi frá sér flughluta félagsins. Greiðandi lánsins var XL Leisure en ábyrgðin hvíldi á Eimskip. Rétt er að geta þess að á þeim tíma voru eigendur Samson eignarhaldsfélags hvorki eigendur né með öðrum hætti tengdir Eimskipi eða XL Leisure.  Þegar stefnir í gjaldþrot XL Leisure í byrjun september 2008 er annar eigandi Samsonar, Björgólfur Guðmundsson, orðinn stærsti eigandi Eimskips og var ljóst að Eimskip gat ekki axlað ábyrgðina óstutt.Til að koma í veg fyrir að fall XL Leisure stefndi Eimskip í voða gekkst Samson við ábyrgðinni en Eimskip var eftir sem áður greiðandi skuldarinnar. Ábyrgðin var færð yfir þann 10. september 2008 og XL Leisure verður gjaldþrota tveimur dögurm síðar. Frá þessu var greint í fréttum og fréttaskýringum og í tilkynningu frá Eimskip á sínum tíma og hefðu fréttamenn RUV a.m.k. getað kynnt sér það áreynslulítið í stað þess að fimbulfamba í frétt sinni í gær.  Með þessum gjörningi var því verið að bæta stöðu bankans, bæði með ábyrgð Samson og viðbótarveði í öðrum eignum.  Þessi veð og ábyrgðir voru ekki til staðar áður. Bankinn var að sjálfsögðu betur settur með þessi veð en án þeirra .

Hvers vegna stjórnendur Landsbankans færa ekki þessar ákvarðanir í bækur lánanefndar fyrr en 9. október eða mánuði síðar kann ég ekki skýringar á. Vissulega kemur það spánskt fyrir sjónir almennings þegar færðar eru til bókar gamlar ákvarðanir um veð í fyrirtækjum sem eru farin í þrot. Hins vegar sýnist mér að ástæðan fyrir því að stjórnendur gera þetta eftir að bankinn er kominn í hendur FME sé sú að þeir vilja sýna í bókum bankans að þeir voru með þessum ákvörðunum að verja hagsmuni bankans. 

En áfram hélt frétt RÚV : „Hið athyglisverða er að á þessum fundi samþykkja stjórnendurnir þrír að Landsbankinn taki veð í XL þó félagið væri gjaldþrota. Stjórnendurnir samþykkja tæplega 28 milljarða lán svo Samson geti greitt lán í Straumi. Landsbankinn er því að létta á lánabagga Samsons við Straum en stærsti eigandinn í Straumi var Samson, félag Björgjólfsfeðga. XL gjaldþrotið vakti alheimsathygli á sínum tíma enda um 80 þúsund manns strandaglópar í ferðum á vegum ferðaskrifstofunnar. Þegar ábyrgð Björgólfsfeðga vitnaðist lýstu feðgarnir því yfir að þeir myndu greiða sínar ábyrgðir. Þarna virðist þó vera að stórum hluta þeirra ábyrgða hafi verið velt á Landsbankann.“

Við þessu er aðeins eitt svar: Samson fékk aldrei lán til að greiða Straumi eitt eða neitt og virðist hér grilla í sama misskilning og í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Rannsóknarnefndin hafði að vísu komist að þeirri niðurstöðu að fjárhæðinni hefði verið ráðstafað til lækkunar á skuldbindingum við Landsbankann og þar með tryggt betur hagsmuni hans, en fréttamaður RÚV nefnir Straum skyndilega til sögunnar, hvernig sem sú niðurstaða hefur fengist.

Ég minni að lokum á það sem gjarnan vill gleymast í fréttum, að ég hef samið við alla lánardrottna mína og þar með staðið skil á skuldbindingum mínum og ábyrgðum.