DV fjallaði mest um einstaklinga tengda Landsbankanum – Morgunblaðið um Jón Ásgeir

Í rannsókn þar sem Creditinfo kannaði umfjöllun íslenskra prentmiðla fyrstu 12 mánuðina eftir hrun bankanna um nokkra nafngreinda einstaklinga sem voru í forystu fjármálafyrirtækja í aðdraganda þess kemur í ljós að DV fjallar hlutfallslega meira um einstaklinga sem tengdust Landsbankanum, þ.e. Björgólf Guðmundsson, mig – Björgólf Thor Björgólfsson og Sigurjón Þ. Árnason bankastjóra, en einstaklinga sem tengdust öðrum bönkum. Ef niðurstöður eru bornar saman við umfjöllun fjölmiðla eftir birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingi á orsökum hrunsins í apríl 2010 sést að umfjöllun um Landsbankamenn minnkaði verulega hlutfallslega. Þá er áberandi að Morgunblaðið fjallar hlutfallslega meira um Jón Ásgeir Jóhannesson en aðra þá sem mest voru í umræðunni eftir hrun. Hafa ber í huga að nýr ritstjóri, Davíð Oddsson, kom ekki að Morgunblaðinu fyrr en í lok þess tímabils sem prentmiðlarnir voru skoðaðir.

 

Creditinfo skoðaði að minni ósk umfjöllun prentmiðla um nafngreinda menn frá 6. október 2008 til sama dags ári síðar. Aðferðir við athugun þessa voru þær sömu Creditinfo beitti í athugun sem fyrirtækið vann fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um umfjöllun fjölmiðla um bankana í aðdraganda hrunsins.

Áberandi mest er fjallað um þrjá einstaklinga á þessum tíma – Björgólf Guðmundsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og mig, Björgólf Thor Björgólfsson. Hafa skal í huga að þetta var á þeim tíma sem upplýsingar rannsóknarnefndar Alþingis voru ekki opinberar og umfjöllun prentmiðla og annarra fjölmiðla byggja á staðfestum og óstaðfestum upplýsingum og leka innan úr bönkunum eða skilanefndum þeirra.

Mikla athygli vekur hversu ólíkar áherslur einstaka ritstjórnir leggja á mál tengdum þessum einstaklingum. Morgunblaðið fjallar mikið um málefni tengd Jóni Ásgeiri á meðan Fréttablaðið skrifar hlutfallslega minnst dagblaðanna um mál tengd honum. DV virðist hafa haft minnstan áhuga á Jóni Ásgeiri en mikinn áhuga á mönnum tengdum Landsbankanum því  framlag blaðsins til heildarumfjöllunar um Jón Ásgeir er 25% en um Landsbankamenn 33 – 37%. Flestar greinar blaðsins fjalla um Björgólf Guðmundsson, eða 191, næstflestar um mig, 141, þá Jón Ásgeir, samtals 119 fréttir og síðan Sigurjón Þ. Árnason, 69 fréttir. Af þessu sést að DV var að jafnaði með 3,6 fréttir á viku um Björgólf Guðmundsson. Fréttablaðið leggur minna til umræðunnar á umræddum 12 mánuðum um Jón Ásgeir en aðra en um fjórðungur allra blaðagreina um hann birtast í blaðinu.

Heildarfjöldi frétta:

Umfjöllun um: Morgunbl. Fréttabl. DV Viðskiptab. 24 stundir Samtals
Björgólfur Guðmunds. 153 127 191 37 4 512
Jón Ásgeir Jóhannes. 202 114 119 47 1 483
Björgólfur Thor 124 120 141 43 2 430
Sigurður Einarsson 87 60 68 12 2 229
Sigurjón Þ. Árnason 58 46 69 15 1 189

 

Hlutdeild hvers prentmiðils:

Mynd-C-Prent-2008-2009

Samanburður við sambærilega athugun um umfjöllun fjölmiðla frá mars til spetember 2010

Þegar skoðaðar eru niðurstöður sambærilegrar könnunar um umfjöllun prentmiðla eftir birtingu á skýrslu rannsóknanefndar Alþingis á þessu ári sést að Jón Ásgeir, ég og Sigurður Einarsson erum enn í sviðsljósi fjölmiðla en Björgólfur Guðmundsson og Sigurjón Þ. Árnason hafa dottið af listanum yfir þá fimm sem mest er fjallað um og í staðinn eru komnir Hreiðar Már Sigurðsson og Pálmi Haraldsson. Því er ljóst að eftir að  skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis varpaði gleggra ljósi á aðdraganda hrunsins dró mikið úr umfjöllun prentmiðla um menn tengda Landsbankanum en aðstandendur Kaupþings og Glitnis urðu meira áberandi.

Eftirtektarvert er einnig að hlutfall DV í umfjöllun um þessa einstaklinga eykst frá árinu 2009 til 2010. Framlag blaðsins var 25-37% fyrsta árið eftir hrun en verður 36-43% fyrst eftir birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Mikla athygli vekur síðan við samanburð á þessum könnunum að áhugi Fréttablaðsins á Jóni Ásgeir var minni eftir birtingu skýrslur rannsóknarnefndar Alþingis því þá var framlag Fréttablaðsins til umfjöllunar um eiganda sinn innan við 22% en hafði verið 24%.

Ein helsta niðurstaða rannsóknar Creditinfo á umfjöllun fjölmiðla um hina svokölluðu útrásarvíkinga á árinu 2010 var að rit- og fréttastjórnir fjölmiðla í eigu 365 miðla hf. voru tregari til að draga eigendur sína fram í fréttaljósið. Könnun á umfjöllun um prentmiðla um sömu menn fyrst eftir hrun bankanna kemst því hér að sömu niðurstöðu.

Eignarhald á prentmiðlum og ritstjórnir

Rétt er að minna á að Jón Ásgeir Jóhannesson tengist Fréttablaðinu og útgáfufélagi þess, 365 miðlum ehf. Hann var aðaleigandi blaðsins frá 2002 og þegar blaðið sameinaðist Stöð 2 og Bylgjunni undir merkjum 365 miðla ehf. varð hann aðaleigandi þess félags. Það hélst óbreytt út árið 2009 þó einhverjar tilfærslur hafi verið á eignarhaldsfélögum. Á árinu 2009 varð sú breyting á ritstjórn Fréttablaðsins að Þorsteinn Pálsson lætur af störfum á miðju ári og situr Jón Kaldal áfram sem eini ritstjóri blaðsins. Morgunblaðið tengist ekki neinum þessara fimm einstaklinga sem blaðið fjallar mest um en fram til ársloka 2008 voru ég og Björgólfur Guðmundsson í hópi eigenda þess. Frá þeim tíma hefur verið skipt um eigendur og framkvæmdastjóra félagsins og ritstjóra blaðsins. Nýir eigendur koma að blaðinu á árinu 2009 þegar hópur undir forystu Guðbjargar Matthíasdóttur, útgerðarmanns,eignast blaðið. Undir lok þess tímabils sem athugun Creditinfo nær til hættir Ólafur Stephensen sem ritstjóri Morgunblaðsins og Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen taka við. Á árinu 2009 er DV í eigu Hreins Loftssonar sem verið hefur viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs um áratugabil og Reynir Traustason er ritstjóri blaðsins allt rannsóknartímabilið. Ekki hefur verið upplýst um eignarhald á Viðskiptablaðinu fram til ársins 2009, en vitað er að þá tengdust Kaupþing banki og/eða stjórnendur og forystumenn hans þeir Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson Viðskiptablaðinu með beinum eða óbeinum hætti. Árið 2009 var  útgefandi Viðskiptablaðsins Myllusetur ehf. sem fram að hausti það ár var skráð í 100% eigu Haraldar Johannessen fyrrverandi ritstjóra blaðsins, en Pétur Árni Jónsson framkvæmdastjóri blaðsins á blaðið nú að 2/3 og Sveinn Biering Jónsson þriðjung.  Lengst af þetta rannsóknartímabil er Haraldur Johannessen ritstjóri Viðskiptablaðsins en undir lok tímabilsins færir hann sig yfir á Morgunblaðið og Björgvin Guðmundsson tekur við starfi hans.