Fréttablaðið fjallar minnst um Jón Ásgeir og Pálma Haraldsson

Mynd-A-Prent-2010Í rannsókn þar sem Creditinfo kannaði umfjöllun um nokkra nafngreinda einstaklinga sem voru í forystu fjármálafyrirtækja í aðdraganda hrunsins 2008 kemur í ljós að Fréttablaðið fjallar hlutfallslega minna um Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálma Haraldsson en aðra úr hópi þeirra sem fjölmiðlar fjölluðu mest um. Auk þeirra tveggja  er oftast fjallað um Sigurð Einarsson,  Hreiðar Má Sigurðsson og mig, Björgólf Thor Björgólfsson. Þá er áberandi að DV fjallar mun oftar um þessa menn en aðrir prentmiðlar þrátt fyrir að blaðið komi út aðeins þrisvar í viku. Athuganir eins og þessar gefa til kynna hvaða áherslur ritstjórnir viðkomandi fjölmiðla leggja á málefni sem tengjast umræddum einstaklingum.

 

Í athugun þessari, sem var framkvæmd að minni ósk, kannaði Creditinfo umfjöllun prentmiðla frá því snemma í  mars 2010 og allt fram í aðra viku september eða í slétta 6 mánuði. Rétt er að geta þess að ályktanir þær sem dregnar eru af tölulegum niðurstöðum rannsóknar Creditinfo eru mínar. Mikilvægt er að hafa í huga að á þessu tímabili birtist skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og embætti sérstaks saksóknara í málum tengdum hruninu greip til opinberra aðgerða við rannsókn mála sem tengjast Kaupþingi.

Íslenskir prentmiðlar fjalla langmest um Jón Ásgeir Jóhannesson. Samtals birtust 413 greinar um hann á tímabilinu, tæplega 40% þeirra birtust í DV, um 27% í Morgunblaðinu, ríflega 21% í Fréttablaðinu og um 12% í Viðskiptablaðinu. Næst mest er fjallað um mig eða í 196 skipti. Mest í DV og síðan í Fréttablaðinu en um 80% allra frétta prentmiðla um mig eru í þessum tveimur miðlum. Því næst fjalla íslenskir prentmiðlar mest um Sigurð Einarsson, Hreiðar Má Sigurðsson og Pálma Haraldsson.

Heildarfjöldi frétta:

Umfjöllun um: DV Fréttablaðið Morgunblaðið Viðskiptablaðið Samtals
Jón Ásgeir Jóhannesson 164 88 111 50 413
Björgólfur Thor 81 57 36 22 196
Sigurður Einarsson 60 47 38 18 163
Hreiðar Már Sigurðsson 64 40 27 17 148
Pálmi Haraldsson 55 28 28 21 132

 

Hlutdeild hvers prentmiðils:

Mynd-A-Prent-2010

Áhugavert er að skoða framlag einstakra fjölmiðla til heildarumfjöllunar um þessa fimm einstaklinga. Með samanburði koma í ljós mismunandi áherslur ritstjórnanna á hvern þessara einstaklinga. Ljóst er að DV telur málefni tengd þessum mönnum mikilvæg enda eru 36% – 43% greinanna um þá í DV sem er athyglisvert því blaðið kemur út aðeins þrisvar í viku á meðan útgáfudagar Morgunblaðs og Fréttablaðs eru fimm og Viðskiptablaðs einn.

Morgunblaðið fjallar áberandi oftar um Jón Ásgeir en aðra en með því að skoða hlutdeild hvers fjölmiðils í heildarumfjöllun sést að framlag blaðsins er rúmur fjórðungur. Þá er hlutfallsleg umfjöllun Fréttablaðsins minnst um Jón Ásgeir og Pálma Haraldsson eða rétt um 21% en hlutdeild blaðsins í umfjöllunum um mig, Sigurð Einarsson og Hreiðar Már er álíka eða frá 27% til 29%.

Eignarhald á prentmiðlum og ritstjórnir

Rétt er að hafa í huga að Jón Ásgeir Jóhannesson tengist Fréttablaðinu og útgáfufélagi þess, 365 miðlum ehf. Hann var aðaleigandi blaðsins frá 2002 og þegar blaðið sameinaðist Stöð 2 og Bylgjunni undir merkjum 365 miðla ehf. varð hann aðaleigandi þess félags. Hann var aðaleigandi félagsins þar til eiginkona hans fékk yfirráðin yfir um 90% hlut í því í framhaldi af hlutafjáraukningu í marslok 2010. Þá hafa verið sagðar fréttir af tengslum Pálma Haraldssonar við það félag. Ritstjóri Fréttablaðsins á rannsóknartímabilinu er Ólafur Stephensen. Morgunblaðið var á þessu tímabili og er enn í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, útgerðarmanns í Eyjum, og fleiri undir hennar forystu. Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen voru ritstjórar blaðsins á rannsóknartímabilinu og eru enn. DV var á þessum tíma og er enn í eigu hóps fjárfesta undir forystu Lilju Skaptadóttur sem býr í Frakklandi og hluta starfsfólks.  Fram til þessa árs var DV þó í eigu Hreins Loftssonar sem verið hefur viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs um áratugabil en ekki hefur orðið breyting á forystu ritstjórnar blaðsins en þar ráða ríkjum feðgarnir Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson.  Árið 2009 var  útgefandi Viðskiptablaðsins Myllusetur ehf. sem fram að hausti það ár var skráð í 100% eigu Haraldar Johannessen fyrrverandi ritstjóra blaðsins, en Pétur Árni Jónsson framkvæmdastjóri blaðsins hefur í símtali við talsmann Novators upplýst að hann eigi nú blaðið að 2/3 og Sveinn Biering Jónsson þriðjung.  Björgvin Guðmundsson var ritstjóri blaðsins á umræddu rannsóknartímabili og er enn.