Langt seilst hjá DV – án árangurs

DV heldur uppteknum hætti með skrif sín af málefnum sem tengjast kaupum á tölvuleikjaframleiðandanum CCP. Blaðið hefur að vísu þurft að leiðrétta fyrstu skrif sín, en heldur áfram að reyna að gera viðskiptin tortryggileg. Nú notar blaðið það ráð að hrópa um „innherjaupplýsingar“ og lítur þar framhjá þeirri staðreynd að félagið var alls ekki skráð á markaði. Lakari gerist viðskiptablaðamennskan varla.

Í dag heldur DV áfram að skrifa um kaup eignarhaldsfélagsins NP á hlut í CCP snemma árs 2006. Núna heldur blaðið því fram að ég hafi búið yfir innherjaupplýsingum þegar kaupin voru gerð. Blaðið virðist ekki átta sig á að seljandinn, Brú Venture Capital, bjó að sjálfsögðu yfir mun ítarlegri upplýsingum um félagið en kaupandinn, enda átti seljandinn fulltrúa í stjórn þar sem fjallað var ítarlega um alla þætti í rekstrinum og framtíðarhorfur. Þá gilda innherjareglur eingöngu um skráð fyrirtæki, eins og þeim á að vera ljóst, sem ritar um viðskipti. Blaðið vísar í heimildarmann, sem er jafn ófróður, því hann heldur því fram að menn hafi furðað sig á að FME hafi ekki gert athugasemd við viðskiptin hjá þessu óskráða fyrirtæki!

DV þurfti að éta ofan í sig fyrri fullyrðingar sínar um að hagnaður af CCP rynni til aflandsfélaga, eftir að blaðinu var bent á að CCP hefði aldrei greitt eigendum sínum arð. Þá tekur blaðamaður DV þann kostinn að búa til nýja fléttu, á þá leið að eignarhaldsfélög sem haldi um hlut í CCP geti bókfært hækkandi verðmæti hlutarins og þannig greitt sér sjálf út arð. En með hvaða fé? Því svarar DV að sjálfsögðu ekki.