Það hlýtur að vera eitthvað bogið við þetta!
Í júlí gat ég skýrt frá því opinberlega að samkomulag hefði náðst um uppgjör skulda minna og fjárfestingarfélags míns, Novators, við innlenda og erlenda lánardrottna. Í uppgjörinu fólst að skuldir yrðu ekki gefnar eftir og gerðar upp að fullu og samkomulag er við lánardrottna um ráðstöfun nær allra minna eigna. Uppgjör mitt á dögunum var flestum auðskiljanlegt enda gerðu flestir fjölmiðlar góða grein fyrir því. Hins vegar er ekki hægt að gera ítarlega grein fyrir uppgjörinu þar sem um trúnaðarmál í viðskiptum mínum við fleiri en sex fjármálafyrirtæki er að ræða. Þetta skilja allir sem koma nálægt miðlun upplýsinga um viðskipti með einn undantekningu þó – íslenskri. Á þeim bæ gáfu menn sér að eitthvað hlyti að vera bogið við uppgjörið.
Af einhverjum ástæðum tók DV þann pól í hæðina að það hlyti að vera eitthvað bogið við uppgjörið. Blaðið hefur ekki fjallað um meginatriði uppgjörsins eða leitað til innlendra eða erlendra lánadrottna um staðfestingu eða viðbrögð en ljóst má vera af lestri skýrslu rannsóknarnefndar hverjir þeir eru. Í þess stað hefur blaðið ítrekað reynt að tortryggja uppgjörið. Ýmist með því að gera það grunsamlegt að ég hafi lagt sjóði sem ég átti persónulega á borðið við uppgjörið, eða með vísun í nafnlausa bankamenn sem blaðið segir að brosi af uppgjörinu eða með því að halda fram að leynd hvíldi yfir þessu uppgjöri, sem þó var sagt frá opinberlega. Opinberlega var líka skýrt frá því að eigur mínar og Novators hafi legið til grundvallar uppgjörinu, samkvæmt ítarlegri úttekt alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis. Það var upplýst, að arður af fyrirtækjum og hugsanlegur söluhagnaður síðar rennur til kröfuhafa. Það kom líka fram, að ýmsar persónulegar eigur liggja að baki, t.d. einbýlishús, sumarhús o.fl.
Og enn er hægt að telja: Það hefur komið fram að lánardrottnar höfðu aðgang að erlendum eignarsjóðum, svokölluðum trusts, sem kröfuhafar hafa alla jafna engan aðgang að, og fengu þar greiddar háar fjárhæðir í reiðufé.
Lánardrottnar fá sem sagt ýmsar eigur mínar, arð af öðrum og söluhagnað þegar fram líða stundir og jafnframt háar fjárhæðir í reiðufé. Og í einhverjum tilvikum var lengt í lánum, sem þá bera að sjálfsögðu vexti, eins og venja er.
En af því að DV fær ekki upplýsingar um hvort tiltekin skuld hafi verið greidd í reiðufé eða á annan hátt, þá heitir það að „leynd hvíli yfir“ uppgjöri mínu! Mánudaginn 30. ágúst virtist DV nánast þykja aukaatriði að ég hefði gert upp milljarða skuld við Glitni, af því að ekki var nákvæmlega tíundað hvernig að því uppgjöri var staðið!
Ég er bundinn trúnaði við lánardrottna mína, rétt eins og þeir við mig, en hélt satt best að segja að mestu skipti að semja um fullt uppgjör. Lánardrottnar mínir líta að sjálfsögðu svo á, en DV er auðvitað á öðru máli.