Miklar lántökur, stórt bankakerfi, verðbólga og viðskiptahalli skiptu sköpum á Íslandi

Þórarinn G. Pétursson hefur í samvinnu við Þórarinn Tjörva Ólafsson sett saman áhugaverðan fyrirlestur um hið fjármálalega gjörningaveður 2007 – 2008. Þeir félagar sem báðir eru starfsmenn Seðlabanka Íslands reyna að svara spurningunni “Af hverju fauk Ísland um koll en önnur lönd sluppu betur?“  Svar þeirra er að miklar lántökur einkageirans, stórt bankakerfi, verðbólga og viðskiptahalli hafi skipt sköpum á Íslandi.

 

Athugun og samantekt þeirra félaga úr Seðlabankanum er ferskt og vandað innlegg í umræðuna á Íslandi um hrunið sem í almennum fjölmiðlum hefur ekki síður einkennst af staðhæfingum og hálfsannleik en staðreyndum. Tvímenningarnir ganga útfrá því að meginorsakir vandans hafi verið alþjóðlegt fárviðri sem ekki var skapað af einstaka ríki eða fáeinum einstaklingum. Fárviðrið gekk allstaðar yfir en aðstæður í sérhverju landi voru mismunandi.Þess vegna koma lönd misjafnlega útúr óveðrinu. Í þessari athugun eru þessar mismunandi aðstæður skoðaðar. Hún byggir á tölulegum og tölfræðilegum samanburði gagna frá 32 Evrópulöndum og 14 löndum utan Evrópu. Löndin eiga það sameiginlegt að teljast meðal- og hátekjulönd. Megin niðurstöður athugunarinnar eru svohljóðandi:

•       Efnahagsaðstæður í aðdraganda alþjóðlegu fjármálakreppunnar skiptu miklu máli um hversu illa lönd komu út úr kreppunni

•       Lönd með traustan og sjálfbæran efnahag og sveigjanlegan hagstjórnarramma virðast hafa átt auðveldara með að takast á við kreppuna

•       Meginástæður þess að kreppan varð harkalegri hér á Íslandi og að hér varð kerfislæg banka- og gjaldeyriskreppa voru

–      Mjög gíraður einkageiri og óvenju stórt bankakerfi

–      Mikið efnahagslegt ójafnvægi eins og það birtist í verðbólgu og viðskiptahalla