Markmiðið skýrt – hámarka verðmæti eigna og stuðla að sem mestum heimtum

Stöð 2 greindi frá efnisatriðum
samkomulagsins sem ég og fyrirtæki mitt gerði við lánardrottna í júlí sl. Því
miður get ég ekkert sagt um einstök atriði samningsins vegna trúnaðar sem ég er
bundinn. Fréttin er túlkuð á alla kanta í fjölmiðlum og á vefnum. Það sem mér
finnst ekki koma skýrt fram í fréttinni er að markmið samkomulagsins var að
skapa aðstæður til að hámarka verðmæti eigna minna og fyrirtækja minna svo
heimtur lánardrottna gætu orðið sem allra mestar. Bloggari að nafni Andri
Haraldsson
virðist hafa hitt naglann á höfuðið þegar hann segir: „Semsagt, með
því að fella niður persónulegar ábyrgðir og taka þess í stað ábyrgðir sem
tengjast eignum sem ekki eru persónulegar eignir BTB, þá er bankinn að auka
heimtur sínar um 95% stig — eða 20 sinnum meiri innheimtur en gert var ráð
fyrir.“

Ég sé einnig  að réttur Landsbankans till að lögsækja mig er að valda misskilningi.  Hann er að sjálfsögðu til staðar. Hins vegar ræddi ég við bankann sem staðfesti að rannsóknir hefðu staðið yfir lengi af hálfu sérstaks rannsóknarteymis frá Deloitte í Bretlandi og kom fram að engar málshöfðanir væru fyrirhugaðar og heldur engin tilefni riftana á gjörningum. Hið sama gildir raunar um rannsókn PriceWaterhouseCoopers á starfsemi  Straums Burðaráss, þar hafa engin tilefni fundist til riftunar samninga við mig, eins og skýrt var frá í fréttum í júní sl.

Annað sem veldur misskilningi varðar persónuábyrgðir mínar. Eins og ég tók fram í viðtali við Viðskiptablaðið í lok júlí þá gátu bankar gengið eftir persónuábyrgðum og keyrt mig í þrot. Það gera þeir ekki vegna þess að þeir telja að heimtur verði  betri með því að semja um greiðslur. Persónuábyrgðir eru ekki felldar niður.  Þeim er aðeins frestað þar til uppgjör hefur átt sér stað. Það segir sig sjálft: Bankar ganga ekki að persónulegum ábyrgðum þegar búið er að semja um hvernig skuldirnar eru gerðar upp. Af hverju ætti að ganga að persónulegum ábyrgðum þegar skuldir eru greiddar og öll lán í skilum? Hitt er svo annað mál, að vissulega var lögð mikil áhersla á að ná öllum bönkum að málinu. Hefði einn þeirra ákveðið að fella ábyrgðir á mig og knúið fram gjaldþrot, þá hefði það þurft að gera samstundis, með tilheyrandi brunaútsölu, verðfalli eigna og uppgufun verðmæta.

En eins og áður segir þá er gagn af því að lesa útskýringar Andra Haraldssonar á blogginu um þetta uppgjör:

Andri Haraldsson 1.9 2010 20:32

Án þess að fella nokkurn dóm um þetta mál eða menn því tengdu, þá virðist mér fréttin segja annað en það sem um hana hefur verið skrifað.

Það segir í henni að ef LÍ hefði farið á eftir BTB persónulega fyrir hans ábyrgðum, þá hefði bankinn geta reiknað með 3-5% heimtum. Með þessu samkomulagi telur bankinn sig líklegan til að fá 100% af peningunum til baka. Semsagt, með því að fella niður persónulegar ábyrgðir og taka þess í stað ábyrgðir sem tengjast eignum sem ekki eru persónulegar eignir BTB, þá er bankinn að auka heimtur sínar um 95% stig — eða 20 sinnum meiri innheimtur en gert var ráð fyrir.

Úr fréttinni:
„Áður en skilanefnd Landsbankans gerði samkomulag við Björgólf Thor var þeim rétt skýrsla, unnin af ráðgjafarfyrirtæki í Lundúnum, sem gerði ráð fyrir að endurheimtur kröfuhafa á hendur honum yrðu 3-5 prósent. Landsbankinn mat því hagsmuni sína þannig að betra væri að vera þátttakandi í samkomulaginu og fella niður persónulegar ábyrgðir Björgólfs Thors. Ef áætlanir um vöxt Actavis ganga eftir fær bankinn hins vegar stærstan hluta skulda sinna greiddan og hugsanlega alla skuldina.“

Væntanlega er þetta ein ástæða þess að menn telja að minna sé eftir að Icesave skuldinni en áður. Ef ég hef rangt fyrir mér um túlkun fréttarinnar, þá þætti mér vænt um ef einhver leiðrétti mig.

Og aftur skrifar Andri þegar hann svara öðrum bloggara:

Andri Haraldsson 1.9 2010 21:32

@Sigthor

Þetta er hárrétt hjá þér. LÍ hefur breytt því hvernig þeir geta fengið peningana endurgreidda, í stað þess að vera 100% viss í dag um að fá 5%, þá eru einhverjar líkur á að fá 100% eftir 3-5 ár. Ef þær líkur eru betri en svona 10%, þá er bankinn betur settur (að meðtöldum fjármagnskostnaði).

Til að meta þetta að fullu þá gæti bankinn athugað líkurnar á innheimtum frá 0 og upp í 100%. Vegið meðaltal myndi þá segja hverjar líklegar heimtur eru. Enn önnur aðferð væri að meta hversu líklegt er að bankinn fái meira en hann telur öruggt hann fái í dag. Ef sú tala væri t.d., 90% þá myndi maður ætla að jafnvel íhaldsamasti bankamaður myndi láta á það reyna (en það byggist aftur á hversu mikið meira en heimturnar eru áætlaðar í dag)..