Skuldauppgjör er ekki kyrrstaða

Ýmsir hafa séð ástæðu til að vekja athygli á samningum þeim sem ég gerði um uppgjör allra minna skulda. Því miður virðist gæta misskilnings á inntaki og formi þeirra, jafnvel hjá opinberum aðilum sem best eiga að þekkja til uppgjörsmála og leggja uppgjör mitt að jöfnu við einhverskonar kyrrstöðusamninga. Ragnhildur Sverrisdóttir, talsmaður Novator, skrifar grein í Fréttablaðið í morgun þar sem hún bendir á að skuldauppgjör mitt er ekki einhverjir kyrrstöðusamningar. Eins og fram hefur komið þá er ég ekki í aðstöðu til að fjalla um einstök atriði í samningsins vegna trúnaðar við þá erlendu og innlendu banka sem að þeim koma. 

Grein Ragnhildar Sverrisdóttur, talsmanns Novators, í Fréttablaðinu í morgun hljóðaði svona:

Ábyrgðarleysi og kyrrstaða

Felst einhver kyrrstaða í uppgjöri skulda?

Í fréttum í framhaldi af skuldauppgjöri Björgólfs Thors Björgólfsson er nánast látið liggja milli hluta að hann gekk frá samningum við innlenda og erlenda banka um greiðslu á skuldum sínum. Lánardrottnar hans fengu reiðufé, húseignir, eignarhluti í sumum fyrirtækjum, arð og væntanlegan söluhagnað af öðrum.  Í sumum tilvikum var lengt í lánum, en þau bera þá að sjálfsögðu vexti. Nú gapir hver upp í annan og fullyrðir að gerður hafi verið einhvers konar „kyrrstöðusamningur“ við Björgólf Thor og í því felist að hann geri ekkert og bankar enn minna!

Það sem virðist valda mestum misskilningi –og gerir að verkum að skuldauppgjör Björgólfs Thors er lagt að jöfnu við skuldaflótta annarra- er umræða um persónulegar ábyrgðir Björgólfs Thors. Eins og hann skýrði sjálfur frá í viðtali við Viðskiptablaðið í lok júlí gátu bankar hæglega gengið að þessum ábyrgðum og þar með keyrt hann í þrot. Það ákváðu þeir hins vegar að gera ekki, enda hefðu heimtur þá orðið lélegar, eignir farið á brunaútsölu og verðmæti gufað upp. Þess í stað fóru bankar þá leið að fresta ábyrgðunum þar til uppgjör hefur átt sér stað. Er ekki augljóst, að bankar ganga ekki að þessum ábyrgðum þegar búið er að semja um hvernig þeir fá greitt? Og greitt að fullu, í stað þess að fá brot af því sem þeim ber?

Af einhverjum ástæðum telja sumir sæmandi að leggja fullt skuldauppgjör eins manns að jöfnu við kyrrstöðu, athafnaleysi, dugleysi  og vaxtaleysi annarra. Hefur þó verið upplýst, að fyrir utan að leggja fram yfirlit yfir allar eigur sínar opnaði Björgólfur Thor sjóði, sem lánardrottnar hefðu aldrei getað fengið aðgang að með öðru móti, og notaði fé í þeim til greiðslu skulda. Þessum sjóðum hefði hann getað haldið og dregið úr þeim milljarð hér og milljarð þar, til kaupa á fyrirtækjum eða lúxusíbúðum. Hann lýsti því hins vegar yfir að hann kærði sig ekki um að vera á eilífum flótta frá samfélaginu, heldur vildi gera skuldir sínar upp.

Er ekki hægt að finna einhver skýrari dæmi um ábyrgðarleysi og kyrrstöðu?

Ragnhildur Sverrisdóttir

Talsmaður Novators