Heimtur betri hjá gamla Landsbankanum en Kaupþingi og Glitni

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér hjá fyrrum stjórnendum Landsbankans þá eru heimtur skilanefnda mestar hjá Landsbankanum eða um 45% en um 40% hjá Glitni og Kaupþingi. Blaðamaður sem titlar sig hagfræðing hefur haldið því fram að heimtur séu verri hjá Landsbankanum vegna þess að hann nái rétt upp í forgangskröfur á meðan heimtur hinna bankana séu langt umfram forgangskröfur. Umræddur blaðamaður horfir horfir framhjá þeirri staðreynd að forgangskröfur eru hlutfallslega hærri í bú Landsbankans vegna þess að fjármögnun Landsbankans byggði helst á almennum innlánum, – svokölluðum Icesave-reikningum sem umræddur blaðamaður hefur skrifað óteljandi greinar um.

Venslamenn Kaupþings á Pressan.is hafa haldið því fram að heimtur Landsbankans séu minni en heimtur Kaupþings og Glitnis. Þær fullyrðingar er rökstuddar með því að síðarnefndu bankarnir hafi átt upp í allar forgangskröfur og um 30% upp í almennar kröfur en óvíst sé um hvort Landsbankinn eigi upp í forgangskröfur.  Sumir hafa gengið svo langt að í fullyrða að þetta sýni að fjármunir hafi horfið með óeðlilegum hætti og er spurt hvort Landsbankamenn hafi stolið peningum.

Eins og svo oft áður þá eru þeir hættulegastir sannleikanum sem halda á lofti hálfum sannleik. Staðreyndin er sú að vegna þess hve fjármögnun Landsbankans byggði mikið á almennum innlánum, – sem þegar til gjaldþrota kemur eru forgangskröfur, þá eru forgangskröfur í þrotabú Landsbankans hlutfallslega hærri en forgangskröfur í bú hinna bankanna. Forgangskröfur í bú Glitnis og Kaupþings nema um 10% af heildarkröfum en í tilfelli Landsbankans nema þær 45%. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá fyrrverandi bankastjórum Landsbankans nema heildarheimtur Landsbankans um 45% af heildarkröfum eða sem nemur öllum forgangskröfum. Glitnir og Kaupþing endurheimta um 40% upp í kröfur, – þe. upp í allar forgangskröfur og 30% upp í almennar kröfur. Þess vegna eru endurheimtur krafna í bú Landsbankans betri en hjá hinum bönkunum. Þess vegna ættu hagfræðingar og aðrir þeir sem telja sig sérfróða um þessi mál í hópi blaðamanna og álitsgjafa að spyrja frekar hvort peningum hafi verið stolið hjá Kaupþing og Glitni.