Straumur-Burðarás – öflugur banki með mikið eigið fé

Í september 2005 sameinaðist  Burðarás bæði Straumi og Landsbankanum.  Um viðskiptin var tilkynnt 2. ágúst 2005. Tilteknar eignir Burðaráss gengu til Landsbankans en starfsemi félagsins ásamt öðrum eignum sameinaðist Straumi í nýjum fjárfestingarbanka sem hlaut nafnið Straumur – Burðarás Fjárfestingarbanki hf. Í daglegu tali var strax í upphafi aðeins talað um Straum.

Hluthafar í Burðarási fengu greitt í hlutabréfum Straums og Landsbankanum. Fyrir hverjar 100.000 krónur að nafnverði í Burðarási fengu hluthafar 36.675 krónur að nafnvirði í Landsbankanum og 76.975 krónur í Straumi. Skiptihlutfall gagnvart Straumi var 1,523317 en gagnvart Landsbankanum 0,72122.

Eigið fé beggja fjármálafyrlrtækjanna jókst verulega við þessi uppskipti og var eigið fé eftir sameiningu um 100 milljarðar króna hjá hvorum bankanum fyrir sig.

Samson Global Holding, félag í eigu Björgólfur Thor Björgólfsson og föður hans Björgólfs Guðmundssonar, var ásamt Landsbankanum stærsti hluthafinn í Burðarási fyrir sameiningu. Í kjölfar sameiningar sækir Samson Global um heimild til að fara með yfir 20% eignarhlut í Straumi og var hún veitt. Síðar á árinu sameina Björgóflur Thor og faðir hans alla eignarhluta sína í Straumi undir nafni Samson Global Holding. Það félag var alltaf stærsti einstaki hlutahfinn í Straumi, lengst af með um 35% af heildarhutafé félagsins.

Björgólfur Thor var á fyrsta hluthafafundi hins sameinaða félags kjörinn formaður stjórnar og Þórður Már Jóhannesson, fyrrum forstjóri Straums, var ráðinn forstjóri Straums-Burðaráss Fjárfestingarbanka hf. Friðrik Jóhannsson, forstjóri Burðaráss, lét af störfum að eigin ósk til að sinna eigin málum.

Fljótt varð vart ágreinings í félaginu, – jafnt hvað varðaði stefnu og starfshætti. Stjórnarmennirnir sem komu frá Straumi, Magnús Kristinsson, útgerðarmaður frá Vestmannaeyjum og Kristinn Björnsson fyrrum forstjóri Skeljungs, sáu sameinað fyrirtæki ekki í sama ljósi og Björgólfur Thor, hvorki hvernig byggja ætti upp innviði félagsins né hvernig standa ætti að því að gera bankann að alþjóðlegum fjárfestingarbanka. Svo virtist sem forstjóri félagsins, Þórður Már, ætti fremur samleið með samstarfsmönnum sínum úr gamla Straumi fremur en meirihluta stjórnar. Lyktir urðu þær að Þórði Má var sagt upp og Magnús, Kristinn og tengdir aðilar seldu 24,2% hlut sinn í félaginu til FL Group og stigu úr stjórn. Fyrrum forstjóri Burðaráss, Friðrik Jóhannsson, var kallaður til á nýjan leik og ráðinn tímabundið forstjóri Straums-Burðaráss. Björgólfur hóf þá leit að reyndum erlendum forstjóra en að hans mati skorti mjög á að íslenskt fjármálakerfi nyti góðs af reynslu erlendra bankamanna, sem hefðu lifað og hrærst í hinum alþjóðlega fjármálaheimi og vissu hvað klukkan slægi í þeim efnum. Einn slíkur maður fannst og  var William Fall ráðinn forstjóri félagsins í maí 2007. Hann hafði yfir 25 ára reynslu í alþjóðlegri bankastarfsemi, síðast sem yfirmaður Bank of America í Evrópu. Í kjölfarið var ákvörðun tekin um að minnka áhættu í rekstri bankans, með því að selja hlutabréf í hans eigu, og leggja aukna áherslu á þjónustu við viðskiptavini, fremur en kaup og sölu verðbréfa.

Hrun hinna íslensku viðskiptabankanna í byrjun október 2008 var mikið áfall fyrir rekstur Straums. Bankinn stóð þó af sér fárviðrið um stund en í byrjun mars 2009 blasti við umtalsverður lausafjárvandi. Óskaði bankinn eftir láni til þrautavara hjá Seðlabanka Íslands en því var synjað. Stjórn bankans og stjórnendur ætluðu í framhaldi af því að óska eftir því að fyrirtækið yrði sett í greiðslustöðvun. Áður en til þess kom ákvað stjórn FME að morgni mánudagsins 9. mars 2009 að nýta heimildir í neyðarlögum sem samþykkt voru á Alþingi í október 2008 og yfirtaka eignir og starfsemi bankans. Það var gert gegn vilja stjórnar og stjórnenda bankans. Þar með hafði Björgólfur Thor tapað öllum sínum eignum í íslenskum fjármálafyrirtækjum en í september 2008 voru þær metnar í kauphöllinni á nærri 70 milljarða króna.

Straumur greiddi út arð árin 2006 – 2007 og námu greiðslur til Samson Global Holding samtals nærri 3.9 milljörðum króna.

Björgólfur Thor Björgóllfsson og félög tengd honum urðu stærstu hluthafar í Straumu í ágúst 2003. Hann tók aldrei sæti í stjórn Straums en varð formaður stjórnar þegar Straumur sameinaðist Burðarási og varð að Straumi-Burðarás í september 2005. Hann gengdi þeirri stöðu allt þar til að íslensk stjórnvöld tóku yfir Straum í mars 2009.