Fyrst keypt í Balkanpharma síðan í Pharmaco

Í mars árið 2000 keypti Björgólfur Thor Björgólfsson 15% hlut Búnaðarbanka Íslands í íslenska lyfjafyrirtækinu Pharmaco, sem síðar, eða í maí 2004, fékk nafnið Actavis. Félagið var skráð á Verðbréfaþingi Íslands og fóru viðskiptin fram á markaði.

Í júní árið áður eða 1999 unnu Björgólfur Thor og forystumenn Pharmaco saman að kaupum í 45% hlut í búlgarska lyfjafyrirtækinu Balkanpharma af þarlendum stjórnvöldum. Balkanpharma var ríkisfyrirtæki og  eitt allra stærsta lyfjaframleiðslufyrirtæki í Austur-Evrópu.

Í ágúst árið 2000 var samþykktur samruni Pharmaco og Balkanpharma undir nafni og merkjum Pharmaco. Eigendur Balkanpharma fengu greitt með hlutabréfum í Pharmaco. Þegar þarna var komið við sögu var Björgólfur Thor orðinn stærsti einstaki hluthafinn í félaginu með um 35% hlutafjár og á aðalfundi sameinaðs félags var hann kjörinn formaður stjórnar.

Stefnan var skýrt mörkuð. Pharmaco átti að verða alþjóðlegt lyfjafyrirtæki með sterka stöðu á mörkuðum í Evrópu, einkum Mið- og Austur Evrópu. Í hönd fór tími vaxtar sem grundvallaðist á arðsömum rekstri og yfirtökum á öðrum lyfjafyrirtækjum. Hraður ytri vöxtur kallaði á útgáfu nýrra hlutabréfa og tók Björgólfur Thor ávallt þátt í útboði þeirra, auk þess sem hann keypti einnig bréf á markaði. Stærst slíkra útboða var í júní 2005 vegna kaupa á bandaríska lyfjafyrirtækinu Amide. Þá átti Björgólfur Thor áfram umi 35% allra hlutabréfa í fyrirtækinu en verðmæti félagsins hafði margfaldast á fimm árum og Actavis var á leiðinni að verða eitt fjögurra stærstu samheitalyfjafyrirtækja í heiminum.

Félög undir forystu Björgólfs Thors keyptu síðan öll hlutabréfin í Actavis í júlí 2007 og tóku það af lista skráðra félaga í Kauphöll Íslands. Voru það stærstu viðskiptin í allri viðskiptasögu Íslands. Heildarverðmæti viðskiptanna voru um 5.3 milljarðar evra. Hluthafar, fyrir utan félög Björgólfs Thors sem að stórum hluta voru íslensk fjárfestingarfélög, lífeyrissjóðir eða einstaklingar, fengu greidda út um 2 milljarða evra og var það eitt allra mesta innstreymi í íslenskt efnahagskerfi fyrr og síðar.

Actavis er í dag íslenskt fyrirtæki með rúmlega 10.000 manns í vinnu og þar af um 500 á Íslandi. Fyrirtækið er í eigu erlendra fjárfestingafélaga sem eru að 70% hluta í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar.