Burðarás verður öflugt fjárfestingarfélag
Veturinn 2003 -2004 vann ný stjórn HF Eimskipafélags Íslands undir forystu Magnúsar Gunnarssonar að markvissum breytingum á skipulagi og áherslum félagsins sem miðuðu að því að gera fjárfestingastarfsemi að þungamiðju félagsins. Boðað var til aðalfundar í mars 2004. Á þeim fundi var nafni félagsins, HF Eimskipafélag Íslands, breytt í Burðarás hf. og voru jafnframt kynnt áform félagsins um að beina sjónum sínum fyrst og fremst að fjárfestingum. Þetta þýddi að móðurfélagið varð fjárfestingarfélag sem hét Burðarás hf. Þá var nafni flutningafélagsins Eimskip, sem var dótturfélag Burðaráss hf., breytt í Eimskipafélag Íslands.
Risinn brotinn upp
Áður var HF Eimskipafélag Íslands móðurfélag þriggja félaga í ólíkri starfsemi, í sjávarútvegi, flutningastarfsemi og fjárfestingum. Þetta voru félögin Brim, Eimskip og Burðarás. Þessu var breytt. Risi með arma í ólíkum starfgreinum var brotinn upp í sérhæfð félög sem hvert þekkti sína fjöl. Brim var selt með umtalsverðum hagnaði og undirbúningur hófst að þeim breytingum sem urðu að veruleika á aðalfundinum í mars 2004 þegar Burðarás varð sjálfstætt fjárfestingarfélag og Eimskipt sjálfstætt dótturfélag í flutningastarfsemi. Í kjölfar breytinganna fór af stað umræða um mikla skuldsetningu félagsins við yfirtöku. Á aðalfundinum svaraði Magnús Gunnarsson þeirri gagnrýni þegar hann sagði: „Gagnstætt þeirri umræðu sem fram hefur farið í fjölmiðlum síðustu daga hafa þær breytingar sem gerðar hafa verið á Eimskipafélaginu ekki brotið það niður eða aukið skuldsetningu þess, þvert á móti hefur fyrirtækið eflst fjárhagslega og er það nú betur í stakk búið til að hefja nýja sókn en það var fyrir sex mánuðum.“ Magnús leit svo á að hans hlutverki sem formanns sem leiða myndi félagið í gegnum fyrsta skeið breytinga væri lokið þar sem skipulag félagsins og stefna til framtíðar væri orðin skýr.
Björgólfur Thor formaður stjórnar
Björgólfur Thor Björgólfsson varð formaður stjórnar Burðaráss á aðalfundi félagsins í mars 2004. Á fundinum hafði verið samþykkt sú stefna Burðaráss hf., og var Björgólfi Thor mjög að skapi, að auka fjárfestingar erlendis og voru kynnt markmið um að erlendar fjárfestingar yrðu til jafns við þær innlendu en félagið yrði eftir sem áður bakhjarl og burðarás íslenskra fyrirtækja. Friðrik Jóhannsson, sem verið hafði framkvæmdastjóri Burðaráss var ráðinn forstjóri félagsins.
Aðdragandi þess að Björgólfur Thor settist í sæti formanns í Burðarási hf. var að í september 2003 festu félög tengd Landsbankanum kaup á um 26% hlut í HF Eimskipafélagi Íslands af Sjóva-Almennum tryggingum hf. og Fjárfestingafélaginu Straumi hf.. Þar með hurfu frá félaginu þeir hluthafar sem farið höfðu með forystu í félaginu í ár og áratugi á undan. Þá hafði félag í eigu Björgólfs Thors og Björgólfs Guðmundssonar, Samson Global Holding keypti skömmu fyrir aðalfund 6,3% hlut af Tryggingamiðstöðinni í félaginu og varð þar með einn stærsti hluthafi félagsins með um 16.8% af heildarhlutafé. Eftir yfirtöku Burðaráss á Kaldbaki um haustið 2004 átti hlutafé Samson Global Holding enn eftir að aukast. Þá var Landsbankinn stærsti hluthafinn í Burðarási með um 23.2% hlutafár og Samson Global Holding sá næststærsti með um um 19,8% af heildarhlutafé í félaginu.
Rekstur blómstraði
Í hönd fór gott ár þar sem hagnaður var 9.3 milljarðar króna og arðsemi eigin fjár var 38,4%. Friðrik Jóhannsson segir í ársskýrslu ársins 2004 að rekstur félagsins hafi aldrei verið betri. Nýjar áherslur komu skýrt fram þar sem félagið hafði aukið fjárfestingar í fjármálafyrirtækjum og aukið erlendar fjárfestingar. Athygli vakti á árinu 2004 kaup Burðaráss á um 9% hluti í breska bankanum Singer & Friedlander og um 20% í sænska fjárfestingarbankanum D. Carnegie og Co. Fram kom á aðalfundi árið 2005 að markmið Burðarás til framtíðar væri að 70% fjárfestinga félagsins yrðu erlendis og að mestu í Evrópu.
Í maílok 2005 var stærsta einstaka eign Burðaráss, flutningafélagið Eimiskipafélag Íslands, seld fyrir 290 milljónir evra eða sem nam 21,6 milljarði króna . Kaupandi var Avion Group sem greiddi 12.7 milljarða með peningum en tæpir 9 milljarðar með bréfum í Avion Group.
Það var síðan um mánaðamótin í byrjun ágúst 2005 að stjórn Burðarás hf. samþykkti fyrir sitt leyti tvíþætta sameiningu, – annars vegar við Landsbankanum og hins vegar Straumi fjárfestingabanka hf.. Fjármálaeftirlitið og Samkeppnisstofnun samþykktu síðan undir lok september samrunaáætlun félaganna og gekk hann því um garð. Þá hafði gengi bréfa í Burðarási þrefaldast á tveimur árum eða frá september 2003, úr 6,2 í 18 í september 2005. Björgólfur Thor varð formaður stjórnar Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf