Eldra efni : Yfirlit greina
Miklar lántökur, stórt bankakerfi, verðbólga og viðskiptahalli skiptu sköpum á Íslandi
Þórarinn G. Pétursson hefur í samvinnu við Þórarinn Tjörva Ólafsson sett saman áhugaverðan fyrirlestur um hið fjármálalega gjörningaveður 2007 – 2008. Þeir félagar sem báðir eru starfsmenn Seðlabanka Íslands reyna að svara spurningunni “Af hverju fauk Ísland um koll en önnur lönd sluppu betur?“ Svar þeirra er að miklar lántökur einkageirans, stórt bankakerfi, verðbólga og viðskiptahalli hafi skipt sköpum á Íslandi.
Var Straumur felldur til að koma á höggi?
Einn lesandi síðunnar sem var í hópi um 20 þúsund hluthafa í Straumi og vill ekki að nafn sitt komi fram spyr hvort ég telji að stjórnvöld hafi verið að koma á mig höggi með yfirtöku á bankanum í mars 2009 og hvort hluthafar geti krafið stjórnvöld um skaðabætur. Þetta eru athyglisverðar spurningar. Það koma fram vísbendingar um undarlegar ástæður stjórnvalda fyrir yfirtöku bankans í sagnfræðilegri samantekt sem unnin var um fall Straums og birt er hér á vefnum. Þá samþykktu kröfuhafar Straums í júlí sl. nauðasamninga sem fela í sér að tryggðar kröfur fást að fullu greiddar og að almennir kröfuhafar geti vænst að um helmingur verði endurheimtur. Þetta er óvenju hátt hlutfall endurheimta sem styður það sem áður var sagt um styrk bankans. Í ljósi þessa er eðlilegt að fyrrum hluthafar í Straumi skoði stöðu sína.
Samkomulag eykur virði eigna Landsbankans
Samkomulag skilanefndar Landsbankans við Björgólf Thor Björgólfsson, Actavis og Landsbankann í Lúxemborg hefur aukið virði eignasafns bankans um 6%. Þetta kom fram í kynningu skilanefndar Landsbankan fyrir kröfuhafa bankans í morgun, mánudag. Á Vísir.is kemur fram að endurheimtur hefðu aukist um 64 milljarða króna og segir þar að samningar við Björgólf Thor skipti mestu. Þá segir á mbl.is að áætlað verðmæti eignasafns skilanefndar sé 1,177 milljarðar króna.
Rangar „fréttir“
Mig langar að þakka enn og aftur góð viðbrögð við þessum vef. Flestir hafa góðan skilning á tilgangi hans, þ.e. að skapa mér vettvang til að koma óbjöguðum upplýsingum á framfæri við almenning á Íslandi. En þeir eru líka ýmsir, sem hafa uppi stór orð um áróður og gefa í skyn að fjölmiðlum einum sé treystandi til að fjalla um mín mál og hafa jafnvel fyrir satt að almannarómur ljúgi aldrei. En er það svo? Hér er rétt að nefna nokkrar af þeim röngu „fréttum“, sem hafa verið mest áberandi frá hruninu og sem mikilvægast hefur verið að leiðrétta. Eftir þann lestur getur fólk svarað þeirri spurningu, hvort ég geti treyst á aðra til að koma réttri mynd af mér og viðskiptum mínum til skila.