Hverjum skal reyna að bjarga (eða ekki)?

Símtal
þáverandi seðlabankastjóra og forsætisráðherra 6. október 2008 verður að
teljast um margt áhugavert.  Ég hef frá hruni velt því fyrir mér hvers
vegna reynt var að bjarga Kaupþingi en Landsbankanum fórnað. Með því er ég ekki
að segja að tilraun til að koma Landsbankanum gegnum hrunið á alþjóðlegum
fjármálamarkaði hefði endilega borið árangur.  Eftiráspeki lík og sú, sem
beitt hefur verið í hrunmálum, er að sjálfsögðu meingölluð eins og allir vita. Mér er hins vegar fyrirmunað að skilja
hvað réð kasti. Ástæðan er sú að ég veit fyrir víst að Landsbankinn var með
miklu traustari veð fyrir mun lægri lánsupphæð.  Fjárhæð sem hefði a.m.k.
dugað til að koma Icesave í skjól, sem var jú eitt mesta áhyggjuefni
stjórmálamanna á þessum tímapunkti (sérfræðingar sem störfuðu með mér höfðu
reyndar ítrekað bent þeim aðilum á að engin ríkisábyrgð væri á Tryggingasjóði
innistæðueigenda, en það er önnur saga). Auk þess veit ég að fjárhagsstaða
Landsbankans var síst verri en Kaupþings, og líklega mun betri.

Símtalið þar sem örlög bankanna voru ráðin

 Það sem stendur upp úr er að örlög íslensku
bankanna voru afgreidd í afar ómerkilegu og lítið grunduðu samtali í hádeginu
mánudaginn 6. október 2008.  Reyndar virðist Seðlabankinn vera faglegri í
sinni nálgun, en forsætisráðherra er ekkert nema fum og fát.
 Í endurriti símtalsins kemur fram að Geir H.
Haarde spyr Seðlabankastjórann hvort Landsbankinn hafi ekki veð. „En er
Landsbankinn ekki með neitt slíkt, sem hann getur látið okkur hafa?“ spyr hann,
þegar Davíð seðlabankastjóri ræðir um veð Kaupþings. „Já, en þá er að við erum
ekki með pening í þetta,“ svarar seðlabankastjórinn.

Það er skiljanlegt að Seðlabanki Íslands hafi ekki
getað stutt alla bankana í hruninu. En ekki er útskýrt hvers vegna Seðlabankinn
fór „inn að beini“ eins og seðlabankastjórinn orðar það, með því að lána
Kaupþingi 500 milljónir evra, í stað þess að lána Landsbankanum 300 milljónir
evra. Þegar seðlabankastjóri ítrekar þetta atriði („Þú ert að tala um það að við eig­um frek­ar að
reyna að hjálpa Kaupþingi“) þá svarar forsætisráðherrann: „Það slær mig þannig sko og mér fannst þeir vera
líka á þeirri línu í gær­kvöldi alla­vega þess­ir Morg­an menn.“

Þetta var öll fagmennskan! Einhver tilfinning fyrir því hvað
einhverjir sögðu daginn áður, „allavega þessir Morgan menn“. Þar var
forsætisráðherra eflaust að vísa til erlendra sérfræðinga, sem voru nýkomnir
til landsins og höfðu skimað yfir bankalandslagið. Ekki bera þessir „Morgan
menn“ ábyrgð á þeirri ákvörðun sem tekin var? Hún virtist tekin af því að „það
slær mig þannig sko“!

Traust veð Landsbanka

Landsbankinn bauð fram mjög traust veð fyrir þessu
300 milljóna evra láni. Alls námu þær eignir 2 milljörðum evra, eða rúmlega
sexfaldri upphæð þess láns sem óskað var eftir. Þar af var 1 milljarður í
evrópskum ríkisskuldabréfum og 500 milljónir í íslenskum ríkisskuldabréfum, auk
500 milljóna evra í skuldabréfum frá íslenska lífeyrissjóðakerfinu. Allt eignir
sem ekki rýrnuðu í hruninu. Hvers vegna fékk Landsbankinn ekki 300 milljónir
evra gegn svo traustum veðum? Hvers vegna kusu menn frekar að láta Kaupþing fá
miklu hærri upphæð, gegn veði í dönskum banka?

Pólitísk ákvörðun, ekki
fagleg

Í bók
minni, Billions to Bust and Back,
kemst ég að þeirri niðurstöðu að ákvörðunin hafi eingöngu verið pólitísk, en
ekki fagleg. En einhver rök hljóta þó að hafa verið lögð fram fyrir
því að Kaupþing varð fyrir valinu, fremur en Landsbankinn sem þurfti minni
fjárhæð og var með traustustu veðin. Fyrir utan þá staðreynd, að lán til
Landsbanka hefði runnið beint til Seðlabanka Bretlands, milliríkjadeilu hefði
verið afstýrt og íslenska þjóðin losnað við háværar deilur, hræðsluáróður og nær 22 þúsund
Icesave-fréttir, frá hruni Landsbankans og fram að dómi EFTA-dómstólsins í
janúar 2013 – og þúsundir frétta til viðbótar frá þeim tíma til dagsins í dag.
En hvert rann gjaldeyrisforðinn, sem Kaupþing fékk? Geir H. Haarde sagði
sjálfur fyrir Landsdómi að féð hefði farið „annað en það átti að fara“ og enn
hafa ekki fengist fullnægjandi skýringar.

Það er líka
rétt að taka fram, að stærstu hluthafar Landsbankans lýstu því yfir við
stjórnvöld að þeir væru reiðubúnir að gefa eftir sína stöðu og veita hverja þá
aðstoð sem óskað væri eftir, svo bjarga mætti bankakerfinu. Engin viðbrögð
fengust við slíkum hugmyndum, en á sama tíma ákváðu menn að leggja allt sitt
traust á Kaupþingsmenn.

Gögnin verða að koma fram

Símtal seðlabankastjóra og forsætisráðherra segir
alls ekki alla söguna. Kannski varpar væntanleg skýrsla Seðlabankans einhverju
ljósi á málið, þótt ég sé ekki bjartsýnn á að svo verði. Ekki verður betur séð
en að margir séu þeirrar skoðunar að þjóðinni komi ekkert við hvað varð um
gjaldeyrisforða hennar þennan örlagaríka dag í október 2008. Slíkt er auðvitað
fjarstæða. Sá sem hlýtur að vera endanlega ábyrgur fyrir ákvörðuninni,
þáverandi forsætisráðherra, ætti ekki að draga lengur að leggja fram þau rök,
sem voru að baki henni. Í fórum hans eða forsætisráðuneytisins hlýtur a.m.k. að
vera eitthvað minnisblað, sem skýrir þessa ákvörðun, þó ekki væri nema nokkrar
setningar hripaðar niður eftir Morgan-mönnunum svokölluðu. Þjóðin á rétt á að
vita, hvernig mál voru vegin og metin, hvaða gögn lágu til grundvallar og hvað
endanlega réði því að Kaupþing fékk lánið.