Forstjóri fastur í speglasal
Róbert Wessman gaf lesendum Markaðarins innsýn í hugarheim sinn í gær. Að horfa á þá mynd var eins og að svipast um í speglasal, allt bjagað og snúið. Hann býsnast yfir yfirtöku Pharmaco á Delta árið 2002 og segir að hann hafi ekki haft fjármuni til að verjast yfirtökunni. Staðreyndin er sú að hann var starfsmaður félagsins og hafði auðvitað ekkert um það að segja hvort eigendur þess seldu hlut sinn eða ekki. Hann kennir viðskiptabanka félagsins um að hafa sent sig úr landi og „á meðan plottuðu þeir yfirtökuna“. Á mannamáli heitir þetta að nokkrir hluthafa hafi fallist á að selja – og þurftu auðvitað ekki að spyrja starfsmann sinn leyfis.
Róbert starfaði áfram sem forstjóri næstu 6 árin og lætur eins og það hafi hann gert tilneyddur! Hann var forstjóri Actavis þegar félagið var tekið af markaði, tók fullan þátt í að semja um skuldsetningu þess við Deutsche Bank og var þar byggt á áætlunum hans sjálfs. Vandamál tengd kaupum forstjórans á gölluðu fyrirtæki í Bandaríkjunum ollu félaginu gríðarlegu fjártjóni. Sú staðreynd, auk þess sem síðar reyndust vera fullkomlega óraunhæfar áætlanir forstjórans, urðu til þess að Actavis varð ógjaldfært. Róbert var m.a. vegna þessa rekinn úr forstjórastóli, eins og fram hefur komið, en hann hefur valið að endurskrifa söguna. Það að hann hafi ákveðið að hætta á þessum tímapunkti eftir áralanga gremju verður að teljast heldur ótrúverðugt, enda eignir hans bundnar í Actavis.
Dylgjur Róberts um að ég hafi fyllst einhverri afbrýðisemi vegna kaupa hans í Glitni eru enn ein bjögunin. Það sem mér féll illa voru sífellt vaxandi umsvif forstjóra Actavis á öðrum og óskyldum vettvangi sem samræmdust ekki forstjóraskyldum hans. Róbert rak 10 manna fjárfestingarfélag sitt, Salt Investments, á sama tíma og hann átti að einbeita sér að fullu að rekstri stórfyrirtækis. Við yfirtökuna á Actavis fékk forstjórinn frá mér hlut að verðmæti yfir 100 milljónir evra í félaginu og þurfti aðeins að greiða brot fyrir. Hann veðsetti þennan eignarhlut, þrátt fyrir að honum væri það óheimilt, og hóf að kaupa eignir um allar trissur.
Við hrun voru skuldir Salt Investments gríðarlegar, sem og persónulegar skuldir Róberts. Það er ástæða þess að „hlutir hans í Actavis [voru] teknir af honum eftir hrun“. Eitt félaga hans, Salt Generics, var skráð fyrir hlutnum í Actavis. 2010 var það félag komið í eigu GL Investments, sem aftur var í eigu Glitnis. Þessar breytingar urðu um svipað leyti og tilkynnt var um fjárhagslega endurskipulagningu Actavis. Óbjöguð er sagan svona: Róbert skuldaði Glitni milljarða á milljarða ofan. Þær skuldir voru að mestu afskrifaðar, en bankinn leysti auðvitað til sín þær eignir sem voru veðsettar honum, þar á meðal eignarhlut Róberts í Actavis. Hlut sem hann hafði fengið að mestu gefins og varð verðlaus undir hans stjórn. Að halda því fram að ég hafi fengið þann hlut gefins sýnir undarlegt innsæi stórforstjórans á því hvernig viðskipti ganga fyrir sig.
Það merkilegasta í viðtalinu er að þar viðurkennir Róbert í fyrsta skipti opinberlega að vera stór hluthafi í Alvogen með tugmilljarða hlut. Hvers vegna hefur starfsmaður hans Árni Harðarson ávallt verið sagður eigandi þess hlutar? Ætli það tengist samningum Róberts við íslensku bankana um skuldir hans og tengdra félaga, sem samkvæmt Rannsóknarskýrslu Alþingis námu um 30 millljörðum króna, og voru afskrifaðar að mestu? Spyr sá sem ekki veit.
(Grein þessi birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. júní)