Breytt afstaða Árna Mathiesen
Fyrir nokkru ritaði ég bréf til Árna Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, og fór fram á að hann drægi til baka ummæli um mig, sem höfð eru eftir honum í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið.
Í skýrslu RNA var haft eftir Árna að allir stjórnendur bankanna hafi vísvitandi logið að stjórnvöldum. Og verstur hafi ég verið, ég hafi sagt öðrum ósatt líka og þeir sagt ráðherranum að ekkert væri að marka það sem ég segði. Þessar lýsingar skutu svo aftur upp kollinum í bók Árna, Frá bankahruni til byltingar, sem gefin var út haustið 2010.
Eins og við mátti búast voru þessar lýsingar gripnar á lofti af fjölmiðlum og hafa valdið mér ómældum vanda. Það er illt að sitja undir ásökunum um að hafa komið óheiðarlega fram á ögurstundu.
Ég gerði mér grein fyrir að þessa síðustu helgi fyrir hrun bankanna mæddi mikið á fjármálaráðherra og eðlilegt að erfitt væri að greina hið rétta í hita leiksins. Ég var hins vegar sannfærður um að Árni væri sá drengskaparmaður að hann væri reiðubúinn til að endurskoða ummæli sín, í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa fram á síðustu árum um raunverulega stöðu mála á síðustu dögum fyrir hrun og hver hefði sagt þar satt og rétt frá.
Árni brást ekki vonum mínum, heldur sendi mér þetta svarbréf – og leyfi til að birta það á þessum vettvangi:
Sæll Björgólfur Thor,
Varðandi ummæli mín við yfirheyrslur hjá Rannsóknarnefnd Alþingis hefur þróun mála eftir hrun breytt skoðun minni á þeirri atburðarás sem ummælin fjalla um. Ég met það svo að staða þín hafi þá verið fjárhagslega sterkari en ég hélt og mat þitt á stöðu Kaupþings betra heldur en annarra og því ekki verið ástæða fyrir mig að ætla að þú hafir verið að segja ósatt um möguleika þína á því að afla fjár fyrir nýjan sameinaðan banka. Örlög Kaupþings dagana á eftir sýna hinsvegar að þeir fjármunir hefðu tapast og ekki dugað til björgunar úr því sem komið var á þeim tíma.
Mér þykir afar leitt ef ummæli mín hafa valdið þér vandræðum og alveg sjálfsagt að þú birtir þetta svar mitt á heimasíðu þinni.
Bestu kveðjur,
Árni M. Mathiesen