13 milljarðar til gagnavers Verne Global
Verne Global hefur lokið við hlutafjáraukningu fyrir allt að 98 milljónir bandaríkjadala, eða um 13 milljarða króna. SÍA II, framtakssjóður í rekstri Stefnis, kemur ásamt hópi lífeyrissjóða nýr inn í hluthafahóp félagsins. Stærstu hluthafar Verne Global fyrir hlutafjáraukninguna – Wellcome Trust, Novator Partners og General Catalyst, tóku einnig þátt í hækkuninni.
Verne Global mun nota hið nýja hlutafé til að auka afkastagetu gagnaversins og útvíkka þjónustuframboð. Fjármögnunin gerir það að verkum að Verne Global getur ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar til að mæta vaxandi eftirspurn frá núverandi og nýjum viðskiptavinum.
Fjárfestingarfélag mitt, Novator, átti frumkvæði að stofnun Verne Global um mitt ár 2007 ásamt bandaríska fjárfestingasjóðnum General Catalyst. Þessir fjárfestar urðu fyrstir til að setja fé í alþjóðlegt gagnaver á Íslandi. Í janúar 2010 bættist Wellcome Trust í hópinn og varð stærsti einstaki hluthafinn – og er enn. Wellcome Trust er gríðarlega öflugur fjárfestir, en sjóðurinn er annar stærsti bakhjarl rannsókna í líf- og læknisfræði í heimi.
Hlutur Novators minnkaði um tíma, en þrátt fyrir þá erfiðleika sem efnahagshrun hafði óhjákvæmilega í för með sér tókst félaginu að styðja við bakið á gagnaverinu og er nú aftur stór hluthafi, með um 22% eignarhlut. Wellcome Trust er stærsti einstaki hluthafinn, sem fyrr sagði, með um 27% hlut, þar næst kemur íslenski lífeyrissjóðahópurinn með 25% hlut. Genereral Catalyst heldur á um 11%, en hlutur stjórnenda er nú um 15%.
Hlutur Novators í þessari tæplega 100 milljón dala fjárfestingu nemur um 30 miljónum dala, eða tæpum 4 milljörðum króna. Það er mikið ánægjuefni að geta fylgt félaginu svo vel eftir á vegferð þess. Frá upphafi hefur verið ljóst, að hér á landi væru einstakar aðstæður til að reka gagnaver – og eftirspurn eftir þeirri starfsemi hefur vaxið hröðum skrefum. Hlutafjáraukningin nú skýtur sterkari stoðum undir félagið og gerir því kleift að byggja áfram á þeim góða árangri sem náðst hefur.
Tæplega 13 milljarða hlutafjáraukning Verne Global hefur vakið athygli fjölmiðla í dag og þegar verið um hana fjallað á VB.is, Mbl.is, Vísi.is og Kjarnanum