Áhugaverðar endurbætur á Fríkirkjuvegi

Margt áhugavert hefur komið í ljós við endurbætur á Fríkirkjuvegi 11. Framkvæmdir hófust þar í vor, en reiknað er með að húsið verði komið í upprunalegt horf að utan í haust. Þá hefjast framkvæmdir innan dyra, en þær munu taka drjúgan tíma enda verður leitast við eftir fremsta megni að varðveita þær menningarsögulegu minjar, sem felast í húsinu.

Til að húsið verði sem næst upprunalegri mynd sinni hefur málning innan dyra og utan verið greind. Með því að fara í gegnum hvert lagið af öðru hefur verið hægt að greina hvernig upprunalegir litir voru. Málningin verður pöntuð frá verksmiðju í Noregi, sem hefur sérhæft sig í framleiðslu á eins litum og notaðir voru fyrir rúmri öld. Þá hefur t.d. verið tekin mynd af upprunalegu gleri í annarri hurðinni úr forstofu inn á gang. Sú mynd verður notuð til að framleiða aðra slíka rúðu í hina hurðina, en hún brotnaði fyrir langa löngu.
Það verður gaman að sjá húsið smám saman taka á sig upprunalega mynd og áreiðanlega mikil prýði að því í miðborginni þegar dúkaðir vinnupallarnir verða fjarlægðir í haust.
Morgunblaðið kom í heimsókn á Fríkirkjuveginn og fékk margvíslega fróðleik frá Ásgeiri Ásgeirssyni arkitekt. Grein birtist í blaðinu miðvikudaginn 8. júlí og sama dag birtist allítarlegt myndband á mbl.is. Ég hvet lesendur til að kynna sér þessar framkvæmdir og er þess fullviss að borgarbúar munu fagna því að eiga þess kost að ganga þarna um sali á ný.