Landsdómur – Lærdómur

Málflutningi í Landsdómi er lokið. Lærdómurinn er margþættur:

  • Staðfest var að meginorsök bankahrunsins var að þegar á reyndi í verstu kreppu fjármálaheimsins í áttatíu ár voru íslensku bankarnir of stórir miðað við baklandið.
  • Þá birtist með nokkuð skýrum hætti að eftir 2006/2007 var fátt á valdi einstakra manna, fyrirtækja eða stofnana sem hefði dugað til að afstýra efnahagslegum hamförum.
  • Sömuleiðis birtist það í málflutningnum að einstaka þættir í aðdraganda hrunsins eru vanreifaðir – þrátt fyrir fádæma mikla opinbera umfjöllun, fyrir og eftir birtingu 3000 blaðsíðna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Engin greining eða mat liggur fyrir um hvernig ýmis einkenni fjármálakerfisins á Íslandi, eins og t.d. krosseignatengsl og lánveitingar til hlutabréfakaupa, áttu þátt í hruninu eða tapi ríkissjóðs eða þá almennings.  

Að þessu leyti er uppgjörið við hrunið komið stutt á veg. Ég hef áður sagt að Íslendingar hefðu átt að skipa sannleiks- og sáttanefnd sem starfaði fyrir opnum tjöldum þar sem allir þættir málsins kæmu fram. Lærdómurinn af Landsdómi er að við hefðum átt að gera málið upp strax á þann hátt. Það er e.t.v. ekki of seint nú þegar hlustunarskilyrði virðast vera í lagi. Alkunna er, að fólk vill fremur fá fram allar staðreyndir máls, jafnvel þótt þær séu þungbærar, en sjá aðeins hluta heildarmyndarinnar og þurfa að geta í eyðurnar. Með því að upplýsa um öll mál, undanbragðalaust, er von til að vinna úr reiðinni og ná fram sáttum í samfélaginu.

 

Málflutningurinn fyrir Landsdómi var innlegg í uppgjörið við hrunið. Þó svo greina mætti mismunandi áherslur hjá vitnum eftir því hvort menn voru við eftirlit í Seðlabankanum eða FME eða hvort þeir voru á dekki í bönkunum þá kom fátt fram hjá vitnum umfram það sem áður hefur legið fyrir og ég fjallaði um strax þegar þessi vefur opnaði á sínum tíma. Á það bæði við um almennan skilning á aðdraganda hrunsins eða sértæk málefni á borð við Icesave.

Sú mynd er að skýrast í umræðunni um hrunið að í ljósi þess að kreppa alþjóðafjármálakerfisins varð dýpri en nokkur hafði séð fyrir eða reynt í átta áratugi var erfitt að halda lífi í fjármálakerfi sem var 12 sinnum stærra en landsframleiðsla heimaríkis og byggði á mynt sem var sú hin minnsta í heiminum og bjó ekki að neinum gjaldeyrisforða. Vissulega má lengi skoða hvort ýmislegt hefði mátt gera öðruvísi og að einhverjum verðmætum hefði mátt bjarga en burt séð frá því hefði aldrei verið hægt að komast hjá miklu eignatjóni og verulegum skakkaföllum vegna óhjákvæmilegs hruns krónunnar. Sjálfur hef ég hugsað um það aftur og aftur hvort ég hefði getað gert eitthvað öðruvísi og stend í raun alltaf frammi fyrir því svari að mestu mistökin gerði ég á árunum 2002 – 2006. Eftir það fóru aðstæður að ráða fremur för. Ef ég horfi til baka á árin 2007 og 2008 sé ég ekki hvernig ég hefði getað komið í veg fyrir beint persónulegt eignatap sem nam um 70 milljörðum króna og er þá ekki meðtalið óbeint eignatap mitt vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu sem varað hefur nú í nærri fjögur ár.

Málflutningurinn í Landsdómi leiddi einnig í ljós að þegar kemur að afmarkaðri þáttum hrunsins þá eru mál vanreifuð. Þrátt fyrir mikla umræðu í fjölmiðlum, meintar afhjúpanir og risavaxna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er ekki hægt að greina orsakasamhengi sem sýnir ljóslega að tilteknar aðgerðir eða aðgerðaleysi hafi valdið tilteknu tjóni. Af því má sjá að þær aðferðir sem stjórnvöld hafa valið til að gera upp hrunið, þ.e. með vinnu rannsóknarnefndar og Landsdómi, gefa ekki tæmandi mynd af því hvernig og hversvegna fjármálakerfið hrundi á Íslandi með þeim afleiðingum fyrir ríkissjóð og almenning – einkum skuldara, eins og raun ber vitni. Uppgjörið hefur mistekist. Ég hef, rétt eins og margir aðrir,  sagt að Íslendingar hefðu átt að skipa sannleiks- og sáttanefnd sem starfaði fyrir opnum tjöldum og í beinni útsendingu þar sem allir þættir málsins kæmu fram. Ég endurtek það hér.

Þá þótti mér eftirtektarvert að hjá ýmsum vitnum kom fram gagnrýni á vinnubrögð rannsóknarnefndar Alþingis.  Eins og mörgum er kunnugt setti ég fram ítarlega og skipulega gagnrýni á umfjöllun nefndarinnar um mig og fyrirtæki mér tengd, en mér þótti athyglisvert hversu sú umfjöllun var viðamikil án þess að ég hefði verið kallaður fyrir nefndina. Enda kom í ljós að sú umfjöllun var meingölluð. Flest vitnin fyrir Landsdómi sem fengu tækifæri til að bregðast við efni rannsóknarskýrslunnar gerðu athugasemdir  við framsetningu hennar. Helst vöktu athygli ummæli Stefáns Svavarssonar, endurskoðanda Seðlabankans og dósents við Háskólann í Reykjavík, þar sem sagði að í útskýringum sínum fyrir nefndinni hafi hann í dæmaskyni sett fram sviðsmyndir sem voru „teknar úr samhengi“ og rötuðu „illu heilli“ í skýrsluna.   Það er því ljóst að það eru fleiri en ég sem efast um gildi skýrslunnar í umfjöllun um einstök mál þó svo hún gefi vissulega skýra heildarmynd af íslenska bankakerfinu fyrir hrun.

Tvö vitnanna sem komu fyrir Landsdóm fjölluðu um mín mál í skýrslu rannsóknarnefndar eða á öðrum opinberum vettvangi. Ég hef áður fjallað um útgáfu Tryggva Þórs Herbertssonar af verkum sínum og einnig ummæli Árna Mathiessen í skýrslunni og í bók sinni. Vitnisburður þeirra breytir ekki þeirri skoðun minni að hvorugur þeirra hafði fullnægjandi skilning á vanda bankakerfisins þegar þeir voru ásamt öðrum ráðamönnum í stjórnsýslunni að manga um örlög þess.

Helsti lærdómurinn af Landsdómi  er að uppgjörið við hrunið er að mistakast. Þau sakamál sem eru til umfjöllunar hjá sérstökum saksóknara eða eru komin fyrir héraðsdóm eru afmörkuð og munu ekki svara spurningum um það hvar Íslendingar sem þjóð og samfélag misstigu sig. Spurningin er hvort við það verði unað. Þessi atburður ristir það djúpt í þjóðarsálina að hið eina rétta er að fá allt upp á borð.Um það gildir hið gamalkveðna að betra er seint en aldrei. Aðspurð í Landsdómi afhverju hún hefði ekki áður sagt hug sinn allan varðandi einstök atriði svaraði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, því til að hlustunarskilyrði hefðu ekki verið fyrir hendi. Á henni var að skilja að þau væru nú að komast í lag.

Ég ítreka enn þá skoðun mínaað Íslendingar eigi að skipa sannleiks- og sáttanefnd sem með skýrum markmiðum vinnur alla sína vinnu fyrir opnum tjöldum og í góðri samvinnu við allan almenning. Það verður langt ferli og vafalaust erfitt á köflum – en það er þess virði. Viðskiptalífið, stjórnvöld, Alþingi og fjölmiðlar eru enn rúin trausti. Við slíkar aðstæður verður ekki byggt upp til framtíðar.