Samhengislaus og óljós atburðarás – tilefnislausar ásakanir

Í rannsóknarskýrslu Alþingis er reynt að draga fram atburðarás helgarinnar 3.-6.október 2008. Hvað varðar þá atburði sem ég tók þátt í eru lýsingar rannsóknarnefndarinnar í alla staði afar ófullnægandi – samhengislausar, óljósar og mýgrútur hálfkveðinna vísa. Þá eru birtar í skýrslunni ásakanir í minn garð hafðar eftir Kaupþingsmönnum sem eru rangar og illgjarnar og er með ólíkindum að sómakærir nefndarmenn birti þær án þess að gefa mér tækifæri á svörum, útskýrum eða andmælum. Látið er í veðri vaka að ég hafi verið að blekkja Kaupþingsmenn þegar ég segi þeim í stuttu símtali að Landsbankinn væri búinn að „redda“ málum en fram kemur að í framhaldinu funda þeir með ráðherrum og bera á mig að ég beiti blekkingum. Hið rétta var að Landsbankamönnum hafði tekist að lækka lausafjárþörf bankans í erlendri mynt úr 1000 evrum í 500 milljónir evra og töldu menn það á sínum tíma gleðilegan áfanga. Hins vegar gekk illa að koma á fundum með ráðmönnum til að upplýsa þá um breytta stöðu.

 

Í kafla 20.4 er fjallað um fall Landsbankans. Í almennum upphafskafla 20.4.1. segir á bls. 143.

Samkvæmt handskrifuðu minnisblaði Árna M. Mathiesen funduðu fulltrúar Kaupþings banka hf. og Landsbankans með ráðherrum kl. 17:00 5. október 2008. Hreiðar Már Sigurðsson lýsti því við skýrslutöku að hann, Sigurður Einarsson og Lýður Guðmundsson, forstjóri Exista, hefðu fundað með Björgólfi Thor Björgólfssyni nokkrum dögum áður. Hreiðar segir að Björgólfur Thor hafi þá verið búinn að taka yfir stjórn Landsbankans. Hreiðar segir að fulltrúar Kaupþings hafi ekki fengið réttar upplýsingar um stöðu bankans frá Björgólfi Thor. Um þetta segir Hreiðar: „[…] það var logið að okkur. Og við hringjum í hann [Björgólf Thor Björgólfsson] fyrir fundinn á sunnudeginum, hvort það sé búið að leysa þessi mál, augljóslega því vorum að keyra þessa hugmynd að bjarga bæði Landsbankanum og okkur, og hann staðfesti það við Sigurð og ég hlusta á það símtal: Það er í lagi, við erum búnir að redda þessu. …

Við skýrslutöku lýsti Sigurður Einarsson því að að kvöldi 3. eða 4. október 2008 hafi hann náð í Björgólf Thor, ,,sem greinilega – þótt hann þykist ekki með markaskrána að gera var nú greinilega allt í öllu – og hann sannfærir mig um það að Landsbankinn sé búinn að leysa úr sínum verstu málum. Og ég verð náttúrulega mjög glaður við og við förum um morguninn og hittum ráðherrana og allan þennan flokk þarna í Ráðherrabústaðnum.“ Fundinum með ráðherrum að morgni sunnudagsins 5. október 2008 lýsti Sigurður Einarsson með eftirfarandi orðum: „Og við förum að útlista þessar hugmyndir um að það væri best að Landsbankinn og Kaupþing geri þetta í sameiningu, þ.e. taka yfir Glitni og bjarga þessu kerfi. Og við sjáum að það kemur furðusvipur á ráðherrana. Og þá er okkur ljóst að Landsbankinn hefur sagt þeim eitthvað annað, þeir höfðu þá sagt okkur ósatt kvöldið áður. Svo koma þeir inn bankastjórarnir og Björgólfur Thor. Og ég fer eitthvað að spjalla við þá í anddyrinu, á ganginum. Og Halldór Jón fer að vera með einhverjar ægilegar vangaveltur um að þetta sé allt búið o.s.frv. Þá kemur Björgólfur Thor og rífur í hann inn í herbergi og vill greinilega ekki að við náum að tala saman. Mér fannst þetta allt mjög undarlegt. Þá síðar þann dag fréttum við af þessum „margin call-um“ í til dæmis í evrópska seðlabankanum, sem Landsbankinn hafði aldrei sagt okkur af. Og þá gerum [við] okkur grein fyrir því að Björgólfur Thor hafði verið að segja mér ósatt. Og ég veit ekkert hvort það hafði áhrif á það sem gerðist á eftir, að við vorum ekkert kallaðir aftur inn í Ráðherrabústaðinn.“

Athugasemdir við þennan kafla eru margvíslegar:

Hér birtir rannsóknarnefnd Alþingis samhengislaus efnisatriði úr minnisblöðum ráðherra sem hann hefur eftir mönnum sem í dag hafa réttarstöðu grunaðra í sakamáli sem sérstakur saksóknari hefur til rannsóknar. Þá birtir nefndin hér neikvæð ummæli sömu manna um Björgólf Thor en sér ekki ástæðu til að leita eftir skýringum hans á orðum hans og athöfnum. Furðulegt verður að teljast að nefndin sjái ástæðu til að birta margt af þessu en hafi ekki séð ástæðu til að ræða við Björgólf Thor eða leita eftir skýringum hans. Til að varpa skýrara ljósi á það sem rannsóknarnefndinni var ætlað að gera er rétt að eftirfarandi komi fram:

Í fyrsta lagi fundaði Björgólfur Thor aldrei með þeim þremur, Sigurði Einarssyni, Hreiðari Má Sigurðssyni og Lýð Guðmundssyni. Hann átti einn fund með Hreiðari Má, Lýði og Ágústi Guðmundssyni, í höfuðstöðvum Bakkavarar mörgum vikum fyrr og þá var rætt um stöðu og framtíð krónunnar. Björgólfur Thor var þá beðinn að beita sér fyrir að Sigurjón Þ. Árnason ynni með Kaupþingi að einhverjum lausnum, af því að Sigurjón hafði aldrei viljað vinna með KB. Sigurjón Þ. Árnason var hins vegar þeirrar sannfæringar að Kaupþing væri að fegra sínar bækur og þeim væri ekki treystandi (sjá nánar síðar).

Í öðru lagi er rétt að fram komi að á laugardeginum 4. október á Björgólfur Thor símtal við Sigurð Einarsson og á svo síðar fund með Lýði Guðmundssyni forstjóra Exista, sem var stærsti hluthafi Kaupþings. Í þessum samtölum er rætt almennt um stöðu mála og opnað á möguleika á einhverskonar sameiningar. Á þessu stigi skiptast menn ekki á neinum upplýsingum. Allir eru sammála um að vinna þurfi nótt og dag og að skoða þurfi alla möguleika og að menn verði í sambandi.

Í þriðja lagi er mikilvægt að fram komi að á fundi bankastjóra Landsbankans, Halldórs J. Kristjánssonar og Sigurjóns Árnasonar og Björgólfs Thors með ráðherrunum Geir H. Haarde, Össuri Skarphéðinssyni, Árna Mathiesen og Björgvini G. Sigurðssyni, efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar, Tryggva Þór Herbertssyni, formanni stjórnar FME, Jóni Sigurðssyni og ráðuneytisstjórum forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneytis, Bolla Þór Bollasyni, Baldri Guðlaugssyni og Jónínu Lárusdóttur, að morgni sunnudagsins 5. október, þar sem þeir kynna stjórnvöldum stöðu Landsbankans, eru þeir hvattir af ráðherrum til þess að ræða við Kaupþingsmenn. Ráðherrar segja þeim að Kaupþingsmenn séu með hugmyndir um að Landsbankinn/Straumur og Kaupþing skipti með sér Glitni. Ákveðið var að Landsbankamenn myndu hitta Kaupþingsmenn og síðan yrði fundað aftur síðar sama dag.

Í fjórða lagi þá hitta þremenningarnir úr Landsbankanum, ásamt Yngva Erni Kristinssyni, framkvæmdastjóra verðbréfasviðs Landsbankans og fyrrverandi yfirmanni hjá Seðlabankanum, Kaupþingsmennina Sigurð Einarsson og Hreiðar Má Sigurðsson í húsakynnum Exista síðdegis á sunnudegi.

Í fimmta lagi þá ganga bankastjórar Landsbankans, þeir Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, Yngvi Örn Kristinsson og Björgólfur Thor ásamt Kaupþingsmönnunum Sigurði Einarssyni og Hreiðari Má Sigurðssyni um kl. 17 á fund ráðherra, ráðuneytisstjóra ofl. og kynna sameiginlega viðskiptahugmynd sem var í grófum dráttum eftirfarandi:

  • Kaupþing yfirtaki allar innlendar innistæður og eignir Glitnis, selji áfram hluta til Landsbankans.
  • Á grundvelli þessara viðskipta yrði eiginfjárstaða beggja aðila tryggð og báðum aðilum séð fyrir lausafé – Kaupþingi 500 milljónum evra og Landsbanka 1.000 milljónum evra.

Ekki komu fram nein skýr viðbrögð frá ríkisstjórn og ráðherrum við þessari hugmynd.

Í sjótta lagi er nauðsynlegt að taka fram að strax eftir þennan fund eiga bankastjórar Landsbankans og varaformaður bankaráðsins símafund með Hector Sants, forstjóra FSA í Bretlandi. Þar var ræddur sá möguleiki að koma Icesave í breskt dótturfélag á einni viku – fimm virkum dögum (e. fast track) – gegn því að bankinn hefði eignir til að flytja á móti, þannig að jafnræði yrði  milli eigna og skulda í því félagi. Áfram var skilyrði FSA um lausafjárgreiðslur en þær höfðu lækkað úr 400 í 200 milljónir sterlingspunda sem urðu að vera greiddar til Englandsbanka. Landsbankamenn ætluðu að kanna þennan möguleika sín megin. Landsbankinn hafði fyrr um daginn skýrt fulltrúa FSA frá því að viðraðar hafi verið hugmyndir um samruna hluta Glitnis við Landsbankann, sem gæfu bankanum frekari eignir til að mæta óskum FSA um að færa eignir niður til breska dótturfélagsins og færa Icesave-reikninginn þar með inn í dótturfélag.

Í sjöunda lagi tilkynnti Seðlabanki Evrópu Landsbankanum á sunnudeginum að takmarkanir á endurhverfum viðskiptum sem tilkynnt var um á föstudaginn kæmu ekki til framkvæmda að sinni. Endurhverf viðskipti lækkuð því ekki um 400 milljónir evra eins og áður hafði verið sagt. Þörf Landsbankans fyrir lán eða fyrirgreiðslu var því orðin mun minni en kynnt hafði verið fyrr um daginn. Hún var nær 500 milljónum evra en 1.000 milljónum. Fyrirvari Landsbankans var sem fyrr að samkomulag geti tekist við FSA um eðlileg skilyrði innlána í Bretlandi.

Í áttunda lagi var upplýsingum og skilaboðum um tilboð um flýtimeðferð komið strax eftir símafundinn með FSA á framfæri við Seðlabanka Íslands með bréfi til bankastjóra Seðlabankans. Óskað er eftir fyrirgreiðslu upp á 500 milljónir evra.  Skilaboðum um tilboð FSA um flýtimeðferð var komið á framfæri við fulltrúa stjórnvalda, Tryggva Þór Herbertsson, efnahagsráðgjafa, og óskað eftir fundi með forsætis- og viðskiptaráðherra kl. 22 til að skýra nýlega þróun mála. Jafnframt var óskað eftir atbeina formanns FME um fund með ráðherrunum til að gera grein fyrir þessari þróun. Næðist um þetta samkomulag var forstjóri FSA tilbúinn að tilkynna það opinberlega strax næsta dag og minnka með því útflæðið úr Icesave og helst að ná að stöðva það. Samkomulagið um flýtimeðferðina hefði því verið mjög fýsilegur kostur í stöðunni. Bankastjórar Landsbanka mættu í ráðherrabústaðinn kl. 22 til að hitta forsætis- og viðskiptaráðherra. Á meðan beðið var eftir fundinum áttu þeir viðræður við efnahagsráðgjafa forsætisráðherra og formann FME, sem höfðu haft milligöngu um fundinn, þar sem málin voru rædd almennt. Ráðherrar mæta ekki á fund með Landsbankamönnum heldur héldu beint á þingflokksfundi. Undir miðnætti kom síðan forsætisráðherra fram í sjónvarpi og greindi frá því að engra ráðstafana væri þörf.

Í níunda lagi þá er ljóst af orðum og minnisblöðum Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, að gangvegir voru greiðari milli ríkisstjórnar og Kaupþings en ríkistjórnar og Landsbanka. Þar koma fram samskipti milli Kaupþings og ríkisstjórnar sem Björgólfir Thor var ekki kunnugt um. Hann taldi að eftir sameiginlegan fund Landsbankans, hans sem fulltrúa Straums og Kaupþings með ráðherrum hafi fulltrúar bankanna verið að vinna að sameiginlegri lausn. Þarna kemur hins vegar fram að Kaupþingsmenn eru á þeim tíma að bera ráðherra tíðindi af getuleysi Landsbankans. Og það sem kemur mest á óvart er að stjórnvöld taka orð Kaupþingsmanna trúanleg og sjá ekki ástæðu til að fá þau staðfest úr annarri átt eða hjá Landsbankamönnum sjálfum.[1]

Af fyrrgreindu má ljóst vera að margt var að gerast samtímis og að frásögn rannsóknarskýrslu Alþingis af rás atburða er mjög ófullkomin. Björgólfur Thor hafnar því að hann hafi gefið Kaupþingsmönnum villandi upplýsingar um stöðu Landsbankans. Hann hafði engar upplýsingar sem máli skiptu um Landsbankann undir höndum þar sem hann þekkti ekki til rekstrarins. Bankarstjórar Landsbankans veittu upplýsingarnar. Í sameiginlegum tillögum Kaupþings og Landsbankans sem kynntar voru ríkisstjórn er gert ráð fyrir 1000 milljóna evru fyrirgreiðslu til Landsbankans svo ljóst er að á þeirri stundu var bankinn ekki að leyna Kaupþingsmönnum neinu. Björgólfur Thor leit á sig sem fulltrúa Straums og jafnframt einskonar liðsstjora í Landsbankaliðinu. Hann viðurkennir að hafa verið bjartsýnn og hvetjandi og hugsanlega horft framhjá óþægilegum staðreyndum. Á hinn bóginn er það ljóst að Landsbankinn var búinn að vinna vel úr stöðu sinni á sunnudeginum.  Þegar komið var að kvöldi hafði tekist að lækka lánsfjárstuðninginn um 500 milljónir evra og að koma Icesave-málum í lausnarfarveg. Eðlilegt er að menn hafi þá talið sig vera búna að „redda“ einhverjum málum og víst er að það hýrnaði mjög yfir Landsbankamönnum. Hins vegar virðist vera að ráðherrum eða Seðlabanka hafi ekki borist skýr skilaboð um hversu mikið Landsbankanum hafi tekist að þoka sínum málum. Ráðherrar mættu ekki til fundar við Landsbankamenn og ef marka má óljósa frásögn skýrslunnar áttu ráðherrar fund með Kaupþingsmönnum einum þarna um kvöldið og hlusta þar á fullyrðingar þeirra um vanmátt Landsbankans. Þær fullyrðingar virðast hafa legið til grundvallar á mati ráðherra á stöðu bankanna þegar líða tók á þetta sunnudagskvöld. Upplýsingar um árangur Landsbankans við að draga úr vanda sínum síðdegis á sunnudag virðast a.m.k. ekki hafa ráðið neinu um þá ákvörðun að lána ekki Landsbankanum heldur Kaupþingi. Rannsóknarnefnd Alþingis tekst ekki að draga upp mynd af flókinni atburðarás þessa daga og henni bregst að varpa ljósi á forsendur þeirrar afdrifaríku ákvörðunar stjórnvalda að lána Kaupþingi í stað Landsbanka og þar með koma í veg fyrir að á samningsvilja FSA í Bretlandi reyndi vegna flýtiflutninga á Icesave í breska lögsögu.

Kaupþing var eini bankinn sem fékk fyrirgreiðslu hjá Seðlabanka Íslands, í þeirri trú að sú fyrirgreiðsla gæti forðað bankanum frá falli. Stjórnendur Kaupþings náðu eyrum stjórnvalda, þeir voru einu bankastjórnendurnir sem mark var tekið á. Fyrst menn lögðu trúnað á þá mynd, sem Kaupþing dró upp, þá er ekki furða þótt menn hafi talið að Björgólfur Thor segði ósatt um alla hluti. Síðan þá hafa birst upplýsingar um að Kaupþing var með falsaðan efnahagsreikning sem faldi m.a. áhættu af undirmálslánum og Kaupþingsmenn upplýstu ekki um samskipti sín við bresk yfirvöld og þá voru þeir einnig að segja meira um stuðning lífeyrissjóðanna við bankann en efni stóðu til,  eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þá rannsakar Serious Fraud Office í Bretlandi ráðstöfun þeirra á lausafjármunum síðustu dagana fyrir hrun. Ætla má af fréttaflutningi að lán Seðlabankans til bankans hafi að mestu runnið til félaga sem stóðu stjórnendum nærri og stórra viðskiptavina bankans sem voru jafnframt helstu hluthafar bankans.

Í skýrslunni er dregin upp sú mynd að Björgólfur Thor hafi leynt raunverulegri stöðu Landsbankans og komið í veg fyrir að bankamenn tjáðu sig. Þetta er alrangt. Hvernig var sú ákvörðun tekin að lána Kaupþingi 500 milljónir evra, en neita á sama tíma Landsbankanum um þær 200 milljónir punda, sem hefðu nægt til að flytja Icesave í breska lögsögu – þrátt fyrir að veð Landsbankans væru tryggari en veðin sem Kaupþing bauð? Í ljósi þeirra upplýsinga, sem síðar hafa komið fram, er sú ákvörðun illskiljanleg. Það hentar hins vegar þeim sem hana tóku, og þá sem sannfærðu þá um að veita Kaupþingi slíkt lán, að draga upp þá mynd að Björgólfur Thor hafi ekki komið heiðarlega fram. Þessi tilraun fellur um sjálfa sig.

Ljóst er að rannsóknarnefndin hefði getað fengið skýrari mynd af því sem fram fór þessa helgi hefði hún rætt við Björgólf Thor eða leitað eftir upplýsingum honum. Það gerði nefndin ekki en birtir þess í stað óhróður um hann án þess að gefa honum færi á að svara fyrir sig.

Rannsóknarnefnd Alþingis bregst í því vandasama verkefni að draga fram með skýrum hætti staðreyndir um rás atburða þessa örlagaríku daga.



[1] Traust Árna Mathiesen á Kauþingi og trúnaður hans við stjórnendur þar kemur skýrar fram í bók sem hann og Þórhallur Jósepsson, fréttamaður, sendu frá sér: Árni Matt – Frá bankahruni til byltingar, útgefandi Veröld 2010.