Ekki gerður munur á eyðslu eigin fjármuna eða annarra – hæðni í stíl

Í kafla um samfélaglega ábyrgð og lúxuslífið fjallar siðahópur rannsóknarnefndar Alþingis um lífstíl minn en gerir það oftast í sömu andrá og lífstíl annarra þeirra sem fóru fyrir íslensku fjármálafyrirtækjunum á árunum 2003-2008. Athygli mína vekur að siðahópur virðist ekki með neinum hætti gera greinarmun á hverjir hafi greitt fyrir lífstíl manna. Ég veit að ég greiddi með eigin peningum fyrir það sem hópurinn gerir hér að umtalsefni. Engin hlutafélög greiddu þessa hluti fyrir mig. Ég spyr: Gilti það sama um alla þá sem siðahópurinn setur undir hatt íslenskra auðmanna? Ætti það ekki að skipta máli í umfjöllun um siðferði? Er það síðan ekki mitt einkamál hvort ég eyði peningum mínum í einkaflugvél eða held eftirminnilega afmælisveislu með vinum mínum eða geymi þá aðgerðalausa í banka? Er það mál siðfræðinga í nefnd á vegum löggjafaþingsins að fjalla um á opinberum vettvangi? Síðan er augljóst að siðahópurinn reynir að bregða fyrir sig hæðni í frásögn sinni og læt ég lesendum eftir að hugleiða tilgang hópsins með því.

Í kafla siðahóps rannnsóknarnefndar Alþingis er fjallað um samfélagslega ábyrgð og lúxuslífið. Þar segir á bls. 83:

Í uppgangi áranna eftir aldamótin 2000 var vinsælt að tala um „nýja hagkerfið“ eða hagkerfi 21. aldarinnar. „Nýja hagkerfinu“ fylgdu nýir siðir sem ekki geta talist beinlínis umhverfisvænir. Margir forsvarsmenn fyrirtækjanna komu sér upp bækistöðvum erlendis til að sinna auknum umsvifum þar, en árið 2004 birti Frjáls verslun frétt um að fjöldi íslenskra athafnamanna væri fluttur til London. Nokkrir íslensku auðmannanna keyptu sér einkaþotur til þess að fara á milli landa. Björgólfur Thor reið á vaðið 2005 og keypti sér einkaþotu sem kostaði á annan milljarð króna ef marka má fjölmiðla.

Athugasemd við þessa málsgrein er eftirfarandi:

Björgólfur Thor, sem hafði búið erlendis um árabil, keypti þessa þotu fyrir eigin reikning og enginn íslenskur banki kom að fjármögnun þeirra kaupa. Það er athyglisvert að rannsóknarnefnd Alþingis skoðar ekki hverjir það voru sem greiddu fyrir einkaflug íslenskra viðskiptamanna á þessum árum. Hefði það verið gert er líklegt að í ljós kæmi að oftar en ekki greiddu íslensku almenningshlutafélögin fyrir einkaflug stærstu eigenda og stjórnenda en ekki þeir sjálfir. Björgólfur Thor var að eyða eigin fjármunum þegar hann flaug í sinni vél – ekki annarra.

Á bls. 84 segir eftirfarandi:

Björgólfur Thor hélt upp á fertugsafmæli sitt í kastala á Jamaíka og fékk skemmtikraftinn 50 cents til að gleðja mannskapinn. Þangað bauð hann 130 gestum frá Íslandi og leigði flugvél undir þá.

Athugasemdir við þessa málsgrein er þessi:

Erfitt er að sjá hvers vegna rannsóknarnefnd Alþingis gerir afmælisveislu einstaklings sem hann greiddi fyrir sjálfur með eigin fé að umtalsefni. Hafa ber í huga að engar staðfestar upplýsingar liggja fyrir um afmælisveislu þessa. Það sem birst hefur opinberlega á uppruna sinn að mestu leyti í tímaritinu Séð og heyrt. Rannsóknarnefnd Alþingis sá ekki ástæðu til að afla sér upplýsinga um atburði sem hún taldi þó ástæðu til að fjalla um.

Í kafla um 1.4. um stefnumótun og samskipti og smæð í alþjóðlegu samhengi og í undirkafla um sjálfsmyndina segir á bls. 86:

Ölvaður af velgengni Íslendinga skálaði líka einn af samstarfsmönnum Björgólfs Thors við íslenskar konur á árinu 2006 í London með orðunum: „Skál fyrir genunum, peningunum og framtíðinni!“

Athugasemdin við þessa tilvitnun er eftirfarandi:

Ein setning úr gamansamri tækifærisræðu manns, sem vildi svo til að starfaði með Björgólfi Thor á þessum tíma, er slitin gjörsamlega úr samhengi. Ræðan var haldin í kvöldverðarboði og Björgólfur Thor kom ekki að gerð hennar að neinu leyti. Getur verið að siðanefndin, sem skrifuð er fyrir 8. bindi skýrslunnar, hafi tekið þetta upp í skýrsluna af meira kappi en forsjá? Ekki verður betur séð en að þarna sé reynt að varpa rýrð á Björgólf Thor með vísan í orð sem samstarfsmaður lét falla í veislu, „ölvaður af velgengni Íslendinga“ samkvæmt hlutlausu og yfirveguðu mati siðanefndarinnar.