Órökstuddar tölulegar niðurstöður, ályktanir sem rekast á og óljósar staðhæfingar

Í rannsóknarskýrslu Alþingis segir að skuldir mínar hafi aukist um 97 milljarða evra frá janúarbyrjun 2007 til október 2008. Birt er tafla með tölulegu yfirliti um skuldir mínar án þess að skýringur séu gefnar á því hvernig þessar tölur eru fundnar. Þá er þessi framsetning á upplýsingum ekki í samræmi við það sem segir í kafla 8.7.4.3. hér að framan. Þar er heldur ekki gefnar skýringar á tilurð talna. Þá er sett fram illskiljanleg staðhæfing um  að meirihluti nýrra lána sé „ótryggður eða tryggður með núverandi tryggingum“. Annaðhvort eru lán tryggð eða ótryggð og skiptir þá engu hvort veð eru ný eða gömul. Svo er því haldið fram að Samson hafi keypt meirhlutann í Landsbankanum en eins og flestir vita gerðist það aldrei. Og þá vekur það athygli þegar skrifað er að hlutir séu óútskýrðir þegar staðreyndin er sú að rannsóknarnefndin leitaði ekki til mín eftir skýringum.

Í kafla 8.12.3.4. er fjallað um Björgólf Thor og tengd félög. Þar segir að áhættuskuldbindingar hafi í október numið 170,4 milljörðum króna. Síðan segir á bls. 216:

Björgólfur Thor Björgólfsson hefur verið umsvifamikill fjárfestir, bæði innanlands og utan. Ásamt föður sínum, Björgólfi Guðmundssyni, og fleirum rak hann Bravo-bruggverksmiðjuna í Rússlandi sem þeir seldu síðar til Heineken.Við einkavæðingu bankanna keyptu þeir feðgar ásamt félaga sínum, Magnúsi Þorsteinssyni, meirihluta í Landsbanka Íslands hf. í gegnum eignarhaldsfélag þeirra, Samson. Meðal annarra fjárfestinga Björgólfs Thors má nefna hluti í Actavis og Straumi-Burðarás. Þá hefur Björgólfur verið mjög virkur í fjárfestingum á fjarskiptamarkaði og átti m.a. stóra hluti í símafyrirtækjum í Búlgaríu,Tékklandi og Póllandi um tíma. Fjárfestingarfélag Björgólfs Thors, Novator, fjárfesti einnig töluvert í Finnlandi, m.a. í finnska símafyrirtækinu Elisa. Meðal annarra fjárfestinga Novators á Íslandi má nefna símafyrirtækið Nova (100%), CCP hf. (34% í gegnum félagið NP ehf.) og Verne Holdings ehf. (50%).

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

Nauðsynlegt er að leiðrétta rangfærslur þegar segir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að „þeir feðgar, ásamt félaga sínum, Magnúsi Þorsteinssyni, (hafi keypt) meirihluta í Landsbanka Íslands hf. í gegnum eignarhaldsfélag þeirra Samson.“ Þetta er ekki rétt. Samson keypti 45,8% hluti í Landsbankanum en það er ekki meirihluti.

Í skýrslunni segir síðan:

Björgólfur Thor leiddi í flestum tilfellum starfsemi sinna félaga en meðal náinna samstarfsmanna má nefna Tómas Ottó Hansson (í stjórn Novators ehf.), Sigþór Sigmarsson (í stjórn Novators ehf.), Heiðar Má Guðjónsson (framkvæmdastjóra hjá Novator Partners LLP) og Andra Sveinsson (fjármálastjóra Novator Partners LLP), en sá síðastnefndi sat í bankaráði Landsbankans.

Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hækkuðu skuldir Björgólfs Thors og tengdra félaga í íslenskum krónum um 97,0 milljarða. Sé litið til breytinga í evrum, þá hækka heildarskuldbindingar um 395,4 milljónir eða 51% frá upphafi til loka tímabils:

RNA---Tafla-35

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

Rannsóknarnefnd Alþingis gerir ekki grein fyrir því hvernig hún rekst að þeirri ályktun að skuldir Björgólfs Thors og tengdra félaga hafi hækkað um 97 milljarða króna eða um 51% ef talið er í evrum. Að auki stangast upplýsingar hér á við það sem segir fyrr í skýrslu nefndarinnar en á mynd 61 í kafla 8.7.3.4. eru skuldirnar sagðar nema um 1,100 milljónum evra í ársbyrjun 2007og teygja sig nær 1.350 milljónum um mitt það ár en vera komnar niður fyrir 900 milljónir evra undir lok september 2008. Samkvæmt þeirri töflu hafa skuldirnar semsagt minnkað en ekki aukist eins og segir hér.

Mynd 61 í kafla 8.7.3.4.

RNA---Mynd-61

Þá er rétt að ítreka hér að í þessum útreikningum telur rannsóknarnefnd Alþingis, þvert á lög og reglur, til skulda Björgólfs Thors skuldir rekstrarfélaga sem hann átti aðeins lítinn hlut í og kom ekki nálægt rekstri á.

Ennfremur segir í skýrslu rannsóknarnefndar:

Nýjar lánveitingar samkvæmt ákvörðun lánanefnda námu 50,0 milljörðum króna á milli tímabila. Andvirði þessara lána var að stærstum hluta ráðstafað til rekstrar (25,7 ma.kr.), til verðbréfakaupa (22 ma.kr.) og til annars (2,3 ma.kr.). Endurfjármögnun eldri lána á tímabilinu nam um 21,6 milljörðum króna eða sem svarar til 29% af skuldastöðu í upphafi tímabilsins.

Meirihluti nýrra lánveitinga var ótryggður eða tryggður með núverandi tryggingum, 19,4 milljarðar króna voru tryggðir með hlutabréfum, 100 milljónir króna með reiðufé og aðrar tryggingar námu 8,4 milljörðum króna.

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

 Erfitt er að skilja hvað átt er við þegar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir að meirihluti lánveitinga hafi verið „ótryggður eða tryggður með núverandi tryggingum.“ Annað hvort eru lán tryggð eða ekki. Í tilfelli lána til Björgólfs Thors voru engin lán ótryggð og gerir það umsögn rannsóknarnefndarinnar enn torkennilegri.

Sú aukning lána sem hér um ræðir er nær öll vegna yfirtöku Novators á Actavis sumarið 2007 og vegna hlutafjáraukningar í sama félagi árið 2008. Veð vegna þessara lána voru í hlutabréfum í Actavis og töldust með bestu veðum á íslenskum lánamarkaði árin 2007 og 2008. Eins og fram hefur komið sóttust innlendir og erlendir bankar eftir því að lána til þessara verkefna. Við fjárhagslega endurskipulagningu Actavis, sem tilkynnt var um í júlí 2010, var samið um uppgjör þessara lána.

Þá segir í skýrslu rannsóknarnefndar:

Stærsta aukningin í fyrirgreiðslu til Björgólfs Thors er til félagsins BeeTeeBee Ltd., um 23,7 milljarðar króna. Um 8 milljarðar af því voru veittir í lok júní 2008, en í lok september er samkomulaginu breytt þannig að lánafyrirgreiðslan verður samtals 23,7 milljarðar króna (153 milljónir evra). Þetta lán er veitt í þeim tilgangi að BeeTeeBee geti svo lánað Actavis fjármagnið sem víkjandi langtímalán. Deutsche Bank hafði þá gefið til kynna að Actavis væri við það að brjóta lánaskilmála í sambandi við of lágt eigið fé og þurfti því víkjandi lán til að styrkja Actavis.Þetta lán er rætt nánar í kafla 8.8.2.1.Annar hluti af aukinni fyrirgreiðslu Landsbankans til Björgólfs Thors er óskýrður enda var fyrirgreiðslan veitt í gegnum félög í Lúxemborg og aðgengi að upplýsingum um lán veitt þar er takmarkað. Um er að ræða aukna fyrirgreiðslu til Novator International Holding Ltd., 6 milljarða króna, Novator Asset Management, 5 milljarða króna, og Novator Finland Oy, 7,8 milljarða króna. Einnig eru upplýsingar varðandi lánveitingar til Novator Pharma Holding takmarkaðar. Það eru því engar upplýsingar um tilgang þessara lánveitinga, tryggingar eða annað. Lítilsháttar aukning varð á fyrirgreiðslu Straums til Björgólfs Thors og félaga á tímabilinu sem til skoðunar var en fyrst og fremst voru afgreiðslur lánanefndar framlengingar og endurfjármögnun áður veittra lána.

Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:

Þegar í skýrslu rannsóknarnefndar segir að „hluti af aukinni fyrirgreiðslu Landsbankans til Björgólfs Thors er óútskýrður“ þá er það hagræðing á sannleikanum því skýringar eru til en rannsóknarnefndin leitaði ekki eftir þeim. Hefði nefndin t.d. leitað eftir samtali við Björgólf Thor eða kallað eftir upplýsingum hefðu skýringar auðveldlega fengist.  Í greinargerð Björgólfs Thors um lánamál sín á Íslandi frá 19. apríl 2010 eru fullnægjandi skýringar á þeim lánum og tryggingum sem hér eru til umfjöllunar. Þar kemur eftirfarandi fram:

Um lán til BeeTeeBee: Tryggingar voru veð í breytanlegu skuldabréfi í Actavis, sem í raun þýðir að veð var  í hlutabréfum Björgólfs Thors í Actavis, persónuleg ábyrgð auk annarra verðmætra trygginga. Samið var uppgjör þessa láns við fjárhagslega endurskipulagningu Actavis í júlí 2010.

Um lán til Novator International Holding Ltd: Lánið var tryggt með handveði í peningafjárhæð í eigu félagsins inni á reikningi hjá Landsbankanum í Lúxemborg. Áhætta bankans vegna útlánsins var því engin og hefur lánið þegar verið gert upp.

Um lán til Novator Asset Management: Lánið er tryggt með handveði í 20% eignarhlut Björgólfs Thors í eignastýringafélagi í London en það félag er ekki tengt Novator eða Björgólfi Thor með öðrum hætti.  Lánið nam 39 milljónum evra og hefur verið gert upp nema hvað um 3 milljór evra eru útistandandi eftirstöðvar af láni þessu og þegar hefur verið samið um uppgjör þeirra. Markaðsverð félagsins var talið um 500 milljónir evra í ársbyrjun 2007 og er reiknað með að arðgreiðslur verði nægjanlegar til að greiða niður þau lán sem hvíla á félaginu á innan við þremur árum.

Um lán til Novator Finland Oy: Lánið var tryggt með veði í skráðum finnskum hlutabréfum. Lánið var greitt að stórum hluta í mars 2008 og við sölu bréfanna þann 2. júlí 2009 var lánið greitt upp að fullu.

Um Novator Pharma Holding: Novator Pharma félögin voru tvö, annars vegar félag um beina fjárfestingu Straums og Landsbankans í hlutafé Actavis Group. Þar var því ekki um lán að ræða. Novator Pharma Holdings 2 (sem heitir í raun Actavis Pharma Holdings 2 ehf.) fékk lán að upphæð 200 milljónir evra frá Landsbankanum og 100 milljónir evra frá Straumi og var í báðum tilvikum um að ræða eingreiðslulán til 11 ára. Var þetta hluti af alþjóðlegu sambankaláni sem Deutsche Bank hafði forystu um. Lánið var í evrum og bar 23% vexti. Við fjárhagslega endurskipulagningu Actavis í júlí 2010 var lánið gert upp við Landsbankann og Straum.