Ófullnægjandi umfjöllun um lánakjör og áhættu

 

 

Í skýrslu rannsóknarnefndar er fjallað í mörgum orðum um lánsfjármögnun á yfirtöku félaga tengdum mér á Actavis. Í ljósi þess að í skýrslunni er róið að því að ég hafi verið að misnota stöðu mína sem hluthafi til að fá mikil og eða hagstæð lán rennur manni í grun að umfjöllunin um lánin vegna yfirtökunnar á Actavis eigi að þjóna þeim tilgangi að sýna fram á að lán Deutche Bank hafi verið að einhverju leiti tryggari eða áhættuminni og því staða íslensku bankanna verri. Umfjöllun skýrslunnar um lánin og lánaskilmálana er ófullnægjandi. Ekki er með skýrum hætti dregið fram að aukna áhættu fengu íslensku bankarnir launaða með mjög háum vöxtum sem námu 32% í íslenskum krónum. 

Í kafla 8.8.2.1. á bls. 173 sem ber fyrirsögnina „Deutsche Bank tekur þátt í fjármögnun yfirtöku á Actavis“ segir:

Yfirtökutilboðið í Actavis var í evrum, 1,075 evra á hlut og alls voru viðskiptin upp á tæpa 3,2 milljarða hluta. Kaupverðið nam því tæpum 3,5 milljörðum evra. Það var félagið Actavis Pharma Holding 5 sem keypti Actavis og greiddi ofangreint kaupverð til seljenda Actavis. Actavis Pharma Holding 5 var efst í keðju 5 félaga með því sem næst sama nafn: Actavis Pharma Holding (APH) 1, 2, 3, 4 og 5. Keðjan var uppbyggð á eftirfarandi hátt:

Hluthafar APH 1 lögðu um einn milljarð evra inn í félagið. Þetta eiginfjárframlag var í rauninni sá hlutur sem félög tengd Björgólfi höfðu átt í Actavis fyrir yfirtökuna. Eiginfjárframlagið var lagt inn í APH 2 sem hlutafé. Jafnframt fékk APH 2 lán upp á um 1,2 milljarða evra. APH 2 lagði allt fé sitt, lánsféð og eiginfjárframlagið inn í APH 3. APH 3 lagði féð inn í APH 4 sem fékk einnig lán hjá Deutsche Bank upp á um 800 milljónir evra. Þessir heildarfjármunir voru svo lagðir inn í APH 5 sem keypti Actavis. Þessi keðja var í raun byggð upp til þess að ná fram forgangsröðun fjármögnunar. Með keðjufyrirkomulaginu var í raun lánið sem veitt var til APH 4 með fyrsta veðrétt á Actavis, lánið til APH 2 með annan veðrétt og aftast í kröfuröðinni voru svo hluthafarnir sem lögðu inn hlutafé í APH 1. 

Samkvæmt lánabókum Landsbankans og Straums-Burðaráss lánaði Landsbankinn upphaflega 300 milljónir evra (þá um 25 milljarðar króna) til APH 2 en í september tók Straumur-Burðarás yfir þriðjung af þeirri fjármögnun. Þannig lánuðu þessir tveir íslensku bankar inn í víkjandi hluta fjármögnunarinnar en Deutsche Bank var með fyrsta veð í Actavis í gegnum APH 4. Þetta víkjandi eðli fjármögnunarinnar var endurspeglað í kjörum lánanna til APH 2 en þau báru háa vexti, 23% á fjármögnun í evrum.

Athugasemdir sem fram koma við þennan kafla eru:

Grunnatriðið er sú staðreynd, sem rannsóknarskýrslan nefnir, að þetta fyrirkomulag var gert til að tryggja forgangsröðun fjármögnunar og er það alþekkt í alþjóðlegum fjármögnunarsamningum.

Íslensku bankarnir önnuðust  um 7% af heildarfjármögnun vegna yfirtökunnar á Actavis. Þegar talað er um að eigendur íslensku bankanna hafi misnotað þá er vert að hafa í huga að Deutsche Bank lánaði einnig til sama hluta lánsins og íslensku bankarnir sem fengu 23% vexti í evrum! Í byrjun júlí 2007 voru millibankavextir til eins árs í evrum um 4,5% samanborið við 13,5% í íslenskum krónum.  23% vextir í evrum voru því um það bil sambærilegir við 32% vexti í íslenskum krónum á þeim tíma. Að auki var lántökugjald allt að 3%.

Bankarnir tóku að vísu áhættu, en þeir fengu hana launaða með háum vöxtum. Íslenskir bankar fengu við yfirtökuna um 550 milljónir evra greiddar eða um 88 milljarða króna höfðu og kusu sumir þeirra að fjárfesta hluta þess fjár í Actavis á nýjan leik. Landsbankinn ákvað að endurfjárfesta í Actavis í formi láns og hlutafjár. Hann ákvað að fjárfesta í eigin nafni á ný fyrir rúmar 65 milljónir evra og lána jafnframt 200 milljónir evra. Áhugi banka á að vera þátttakandi í yfirtökunni var mjög mikill, enda ein stærsta yfirtaka í Evrópu frá upphafi. Glitnir sótti það til dæmis fast rétt eins UBS, Citi Bank, Credit Suisse, Barclays og Lehman Brothers. Ein af ástæðum þess að færri komust að en vildu var að Björgólfur Thor vildi halda sem stærstum hlut sjálfur, enda sannfærður á þeim tíma um að yfirtakan væri traust viðskiptaleg ákvörðun.

Hér er hægt er að kynna sér ítarlega yfirtöku Novators á Actavis.