Fréttaflutningur varð málflutningur

Ragnhildur Sverrisdóttir, talsmaður Björgólfs Thors Björgólfssonar, skrifar:


 


Fjölmiðlar hafa undanfarið sagt af því fréttir að Ólafur Kristinsson lögmaður hyggi á vitnamál gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni. Ríkisútvarpið er einn þessara fjölmiðla, en í Speglinum á fimmtudagskvöld breyttist fréttaflutningurinn hins vegar í málflutning. Virtist fréttamaðurinn Sigrún Davíðsdóttir leggja sig fram um að grafa upp atriði, sem hún teldi að gætu hugsanlega orðið vitnamálinu til framdráttar. Í því skyni bar hún á borð hálfsannleika og vitnaði í þessa heimasíðu máli sínu til stuðning.

 

Sigrún Davíðsdóttir lætur eins og hún hafi fundið aðdróttunum sínum um „skuggastjórnun“ stað á þessari heimasíðu. Hún vísar til þessara skrifa Björgólfs Thors: „Í ágætri bók sinni „Why Iceland?“ fjallar Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og fyrrum forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings á sanngjarnan hátt og af þekkingu um það sem ég var að reyna að gera en hann segir að í aðdragandanum hafi ég verið að reyna að bjarga Landsbankanum og breyta honum.“ Þetta telur Sigrún til marks um að Björgólfur Thor hafi stýrt bankanum í raun.

Hérna er tilvitnuð færsla. Þeir sem lesa hana alla, eins og eðlilegt er að gera kröfu til að fréttamenn geri, sjá að Sigrún rífur ummælin úr öllu samhengi.   Björgólfur Thor var að vísa til skrifa Ásgeirs um þá staðreynd að hann gekkst í ábyrgðir á lánum Landsbankans til XL Leisure þegar stefndi í að lánin féllu á Landsbankann. Björgólfur Thor var líka að vísa til tilrauna sinna til að  stuðla að sameiningu Landsbankans og Straums, sem höfðu það að markmiði að nýta eiginfjárstyrk Straums og lausafjárstyrk Landsbankans til að búa til banka sem gæti staðið af sér mestu fjármálakreppu allra tíma.  Hvernig Sigrún Davíðsdóttir getur túlkað þetta sem einhvers konar „skuggastjórnun“ er óskiljanlegt.

Þar sem Sigrúnu er „skuggastjórnun“ hugleikin, um leið og hún þó viðurkennir að hugtakið sé ekki til í íslenskum rétti, þá mætti ætla að hún leitaði víðar fanga í tilraunum sínum til að skjóta stoðum undir hugsanlegan málarekstur. Á þessari heimasíðu er t.d. að finna viðtal Viðskiptablaðsins við Björgólf Thor, þar sem hann svarar þessu á skýran hátt. Þá er sambærileg svör að finna hér og hér.

Sigrún fer einnig mikinn í útlistunum sínum á „tengdum aðilum“, en þeim atriðum hefur  jafnframt verið svarað á þessari heimasíðu, t.d. hér. Þá færslu hefur fréttamaðurinn augljóslega ekki séð, eða kosið að greina ekki sérstaklega frá henni.

Sigrún segir að það vilji oft gleymast að í bankahruninu hafi þúsundir lítilla fjárfesta tapað hlutafé sínu. Það held ég reyndar að sé ekki rétt hjá henni, mér hefur virst sem allir geri sér grein fyrir því tjóni sem litlir fjárfestar urðu fyrir. Hins vegar hefur brunnið við að talað sé og ritað á þann veg, að stórir hluthafar hafi engu tapað. Sigrún nefnir þannig hvergi, að þegar hlutafé í Landsbankanum varð verðlaust tapaði Björgólfur Thor tugum milljarða. Ábyrgðir, sem hann gekkst í til að tryggja hag Landsbankans, féllu jafnframt á hann. Við málflutning þykir ef til vill við hæfi að sleppa slíkum atriðum, en um fréttaflutning á að gilda öðru máli.