„Björgólfur Thor neitaði að taka stöðu gegn krónunni“

Sá dagur kemur líklega seint að DV birti fyrirsögnina „Björgólfur Thor neitaði að taka stöðu gegn krónunni“ eða þá fyrirsögnina „Björgólfur Thor stóð alltaf með krónunni“. Öll skrif blaðsins undanfarna daga um meinta stöðutöku gegn krónunni og birting gagna eru þó nánast samfelld röksemdafærsla fyrir þeirri afstöðu minni, þótt það hafi áreiðanlega ekki verið ætlun blaðamanns DV. Það sjá þeir sem til viðskipta af þessu tagi þekkja.

DV hefur nú teygt lopann í viku um ætlaða stöðutöku gegn krónunni og ráðist þar ítrekað að fyrrum félaga mínum í Novator, Heiðari Má Guðjónssyni.  Nýjasta framlag blaðsins er tilvísanir í minnisblað Heiðars Más, en blaðið lagði hann fyrir stjórnendur Landsbankans í ársbyrjun 2006. Heiðar hefur yfirburðaþekkingu á málefnum fjármálamarkaðarins og var óþreytandi að benda á óumflýjanlega lækkun krónunnar.  Það gerði hann í þessu minnisblaði og benti á hvernig best væri að verjast hinu óhjákvæmilega áfalli. DV kýs hins vegar að rangtúlka varnaðarorðin og ráðleggingarnar og fær út skaðlega stöðutöku gegn krónunni.

DV hefur eftir Heiðari Má og Ragnhildi Sverrisdóttur, talsmanni mínum, að umrætt minnisblað hafi verið kynnt fyrir stjórn Landsbankans, en blaðið segir aðrar heimildir þess herma að minnisblaðið hafi eingöngu verið kynnt fyrir mér í London en aldrei fyrir stjórn Landsbankans. Svo ritar blaðamaður: „Þetta atriði er mikilvægt þar sem hugsanlegt er að minnisblaðið geti sýnt fram á það hvernig Björgólfur Thor stýrði bæði Samson, Landsbankanum og Straumi frá skrifstofu Novators í London þrátt fyrir að vera ekki formlegur stjórnandi í Landsbankanum. Ýmislegt rennir stoðum undir að síðari túlkunin sé rétt.“

Þarna þykist DV vera búið að færa sönnur fyrir eins konar „skuggastjórnun“, en það hugtak hefur af og til skotið upp kollinum. „Skuggastjórnun“ er raunar ekki til sem hugtak að íslenskum lögum, hvað þá að við því liggi refsing, en umfjöllun DV byggir á augljósri rökvillu. Ef ég hefði í raun og veru lagt að Landsbankanum að taka stöðu gegn krónunni, en bankinn ekki fylgt þeim ráðum, hver er þá skuggastjórnunin?  Ef stjórnendur bankans litu svo á að þeir væru þar með að hunsa vilja eins stærsta hluthafans, þá er ekki samtímis hægt að fullyrða að sá sami hluthafi hafi ráðið því sem hann vildi innan bankans.  Það er ástæða til að þakka DV sérstaklega fyrir að draga fram þá staðreynd; það er hvimleitt að heyra sífellt hrópað um „skuggastjórnun“ Landsbankans þegar öll rök hníga til annars.

Svo virðist sem hægri hönd blaðamannsins viti ekki hvað sú vinstri skrifar. Í greininni eru upphrópanir um stöðutöku gegn krónunni í mínu nafni og Novators, en þegar rýnt er á milli þeirra upphrópana er ljóst að blaðamaðurinn tíundar ýmsar sannanir þess að engin slík stöðutaka hafi nokkurn tímann komið til greina.

DV sendi fyrir helgi spurningar á talsmann Novators, Ragnhildi Sverrisdóttur, sem hún svaraði í gær sunnudag. Blaðið sá ekki ástæðu til að birta spurnignar og svör í heild sinni og því eru þau birt hér:

  1. Af hverju skrifaði Heiðar þetta minnisblað og kynnti það fyrir Björgólfsfeðgum? Heiðar var starfsmaður Novators á þessum tíma.

Heiðar Már var reyndar einn eigenda Novator Partners LLP, en ekki starfsmaður Björgólfs Thors, svo því sé haldið til haga. Hann sýndi alltaf frumkvæði og lagði fram ýmsar áhugaverðar hugmyndir. Sumum var hrint í framkvæmd og öðrum ekki. Heimildarmaður DV að þessu sinni,  fyrrverandi bankaráðsmaður í Landsbankanum, getur upplýst DV um að þessi tilvitnaða áætlun var ekki framkvæmd.

  1. Voru Heiðar Már og Björgólfur Thor og aðrir í hans herbúðum meðvitaðir um áætlanir Drobny-samtakanna þegar aðgerðaráætlunin var samin?

Nei. Björgólfur Thor hafði engin samskipti við Drobny-samtökin.

  1. Hvernig vissi Novator að áhættan sem steðjaði að íslenska fjármálakerfinu var svona aðkallandi?

Ýmsar hagstærðir bentu til þess og blöstu við þeim sem vildu sjá. Heiðar Már benti ítrekað á þessa hættu á opinberum vettvangi.

       4.  Hversu mikið af þeim aðgerðum sem Heiðar Már kynnti í minnisblaðinu urðu að veruleika?

 Þessari áætlun var aldrei hrint í framkvæmd.

  1. Tóku félög og fyrirtæki Björgólfs Thors með einum eða öðrum hætti skortstöðu gegn íslensku krónunni í kjölfarið á kynningunni á minnisblaði?

Nei, hvorki þá, fyrr né síðar. Þessu hefur ítrekað verið svarað og svörin breytast ekkert þótt oftar sé spurt. Félög á vegum Björgólfs Thors hafa lengi staðið í viðskiptum með gjaldeyri – bæði keypt og selt og þ.m.t. íslenskar krónur. Þau viðskipti hafa þjónað þeim tilgangi að mæta áhættu sem fylgir fjárfestingum í öðrum gjaldmiðlum en fyrirtæki hans kjósa helst að vinna með.  Þannig byggðu félög tengd Björgólfi Thor eða Novator upp umtalsverða gengisvörn , einkum á árunum 2005 og 2006, til að verja eignir sínar á Íslandi gegn mögulegri lækkun krónunnar.  Á þessum tíma veiktist hins vegar gjaldmiðillinn ekki, heldur þvert á móti styrktist, og er því ljóst að umrædd viðskipti höfðu ekki áhrif til lækkunar krónunnar.

Á þeim tíma sem krónan veiktist sem mest, sér í lagi á árinu 2008, seldu félög tengd Björgólfi Thor og Novator ekki krónur heldur þvert á móti keyptu þær og drógu úr umfangi áhættuvarna sinna.  Þetta sést með skýrum hætti á btb.is

Björgólfur Thor stendur enn við fyrri yfirlýsingar sínar að viðskipti félaga honum tengdum með gjaldeyri séu alls ekki áhrifavaldar í gengisfalli krónunnar á árinu 2008.

  1. Skortseldu félög og fyrirtæki í eigu Björgólfs Thors hlutabréf og skuldabréf í kjölfarið?

Nei.

  1. Rímar það við það sem gefið hefur verið út að Björgólfur Thor hafi ekki verið skuggastjórnandi í Landsbankanum þegar stærstu ákvarðanir um stjórnun bankans virðast hafa verið teknar á skrifstofu Novators í London? Eftirfarandi setning er í minnisblaðinu: ,,Landsbanki og Straumur eyða einnig viðskiptamannaáhættu með því að skortselja hlutabréf, skuldabréf og íslensku krónuna, þar sem við á.“

 Varðandi meinta „skuggastjórnun“ sem er raunar ekki til sem hugtak að íslenskum lögum, hvað þá að við því liggi refsing: Það er augljóst að engin ákvörðun var tekin um stjórnun Landsbankans á skrifstofu Novators í London. Bankastjórum og bankaráði Landsbankans var með þessu minnisblaði kynnt hver aðsteðjandi hætta væri og hvernig mætti bregðast við henni. Bankinn fylgdi ekki þeim ráðum.  Ef bankastjórar og bankaráðsmenn litu svo á að þeir væru þar með að hunsa vilja eins stærsta hluthafans, þá er ekki samtímis hægt að fullyrða að sá sami hluthafi hafi ráðið því sem hann vildi innan bankans.  Það er ástæða til að þakka DV sérstaklega fyrir að draga fram þá staðreynd; það er hvimleitt að heyra sífellt hrópað um „skuggastjórnun“ Landsbankans þegar öll rök hníga til annars.