Að draga siðferðilegar ályktanir af ófullnægjandi gögnum
Undir rannsóknarnefnd Alþingis starfaði nefnd um siðferði og starfshætti í tengslum við fall íslensku bankanna. Eins og fram hefur komið í athugasemdum mínum er gagnavinnslu rannsóknanefndar ófullnægjandi og ýmsar staðhæfingar beinlínis rangar. Í kafla siðahópsins eru sumar rangfærslurnar endurteknar og að auki vakna spurningar um gildi siðferðilegra ályktana sem dregnar eru af ófullnægjandi upplýsingum og röngum staðhæfingum. Í áliti siðahópsins eru bæði dregnar fram staðhæfingar um aðdraganda einkavæðingar bankanna sem ekki standast og þá leggur siðahópurinn útfrá samantekt rannsóknarnefndarinnar á uppgjöri og greiðslum Samsonar fyrir eignarhlut þeim sem félagið keypti í Landsbankanum. Í þeirri samantekt nefndarinnar er sleppt að geta þess að Samson efndi í einu og öllu samning þann sem félagið gerði við ríkisvaldið um þau viðskipti. Í siðferðilegu mati ættu upplýsingar um hvort samningar eru efndir eða ekki að skipta máli.
Í 8.bindi skýrslu rannsóknarnefndar er birt skýrsla vinnuhóps sem forsætisnefnd Alþingis skipaði og var falið að fjalla um í samráði við rannsóknarnefnd Alþingis um siðferði og starfshætti í tengslum við fall íslensku bankanna. 1.hluti þeirrar skýrslu fjallar um siðferði fjármálalífsins og starfshætti banka. Þar í kafla 1.1. um einkavæðingu og ábyrgð stjórnenda og eigenda. Þar er haft eftir Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni Kaupþings, að hann hafi talið ljóst af ummælum ráðamanna að Kaupþingsmenn kæmu ekki til greina sem kaupendur Búnaðarbanka eða Landsbanka. Þá segir á bls. 29:
Aðrir áhugamenn um kaup á bönkunum höfðu aftur á móti áhuga á að fá Kaupþing til liðs við sig með sameiningu í huga. „Ég man ég átti ítrekað fundi bæði með Björgólfi Thor og Björgólfi Guðmundssyni um þetta og þeir voru mjög áfram um það að Kaupþing og Landsbanki sameinuðust“, segir Sigurður [ . . . ] .
Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:
Hér hefði farið betur á ef rannsóknarnefndin hefði leitað frekari gagna. Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor funduðu árið 2001 með Hreiðari Má Sigurðssyni og öðrum þáverandi starfsmanni Kaupþings, Hallsteini Karlssyni. Sögðu þeir Hreiðar Már og Hallsteinn að Kaupþing hefði gert tilboð í Landsbanka og að menn væru að skoða bankalandslagið á Íslandi. Þann 11. september 2001 bauð Sigurður Einarsson Björgólfi Thor að kaupa hlut sem íslenskir sparisjóðir áttu í Kaupþingi. Björgólfur Thor var ekki hrifinn af þeirri hugmynd. Þar sem þetta var 11/9 2001 höfðu þeir og heimsbyggðin öll um annað að hugsa næstu daga og þetta datt upp fyrir. Björgólfur Thor var ekki spenntur fyrir þessari hugmynd fremur en að fara inn í Orca hópinn sem náði undirtökunum í Íslandsbanka eins og honum hafði áður verið boðið.
Hins vegar funduðu Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson aldrei með Sigurði um sameiningu Landsbanka og Kaupþings. Björgólfur Thor stakk hins vegar upp á að bankarnir tveir, Landsbankinn og Kaupþing, sameinuðust um kaup á búlgörskum banka veturinn 2002 – 2003. Vildi hann m.a. sjá hvernig samvinna á 50:50 grundvelli tækist. Hann fundaði m.a. með aðstoðarfjármálaráðherra Búlgaríu vegna málsins. Ástæða þess að þetta datt upp fyrir var að matsfyrirtækið Moody‘s gaf sterklega til kynna að óvissa fylgdi slíkri fjárfestingu og mat á áhættu Landsbankans myndi breytast sem hefði í för með sér að lánshæfismat bankans myndi lækka. Fallið var frá þessum kaupum.
Það er ljóst að rannsóknarnefnd Alþingis dregur upp ófullnægjandi atburðarás að aðdraganda sölu ríkisins á hlutum þess í Landsbankanum og Búnaðarbankanum á árunum 2002 og 2003. Ályktanir siðahóps nefndarinnar byggja því á veikum stoðum.
Ennfremur segir á bls. 29 í kafla sem heitir Hvaðan koma peningarnir?.
Í íslensku viðskiptalífi vakti mikla athygli þegar Óli Kr. Sigurðsson kenndur við Olís keypti fyrirtækið 1986 en hann mun hafa greitt fyrstu afborgun af ávísanareikningi Olís. Fjármálaeftirlitið fylgdist grannt með því að hinir nýju eigendur íslensku bankanna greiddu ekki fyrir hlutinn með fjármagni úr viðkomandi banka. Fjármálaeftirlitið virðist ekki hafa hugleitt þann möguleika að hinir nýju eigendur fengju lán hvor frá öðrum eins og raunin var, en staðfest er að Landsbanki lánaði S-hópi og Búnaðarbanki Samson. Samson fékk lán fyrir 2/3 af kaupverði Landsbankans hjá Búnaðarbankanum síðar Kaupþingi, eða til að greiða 2. og 3. greiðslu kaupverðs. Þegar bankinn féll hafði aðeins um 1/2 af láninu verið greiddur til baka en 1/2 var ennþá útistandandi.
Athugasemdir við þennan kafla eru eftirfarandi:
Þetta er rangt. Hluthafar í Samson lánuðu félaginu fyrir þriðju og síðustu greiðslunni. Lán sem félagið tók hjá Kaupþingi árið 2004 rann til annarra verkefna. Lánið sem tekið var fyrir annarri greiðslu í Búnaðarbankanum var að fullu greitt.
Til upprifjunar er rétt að taka fram að Samson greiddi ríkinu fyrir 45,8% hlut í Landsbankanum í þremur greiðslum:
- Fyrsta greiðsla var eiginfjárframlag Samson og var greidd við undirritun samnings. Greiðslan var að upphæð USD 48.081.731. Um er að ræða greiðslu sem að var um 35% af heildarkaupverði.
- Önnur greiðsla var fjármögnuð með láni frá Búnaðarbanka, síðar KB, og var greidd 30. april 2003. Greiðslan var að upphæð USD 48.272.204. Um er að ræða greiðslu sem að var 35% af heildarkaupverði. Lán þetta var greitt að fullu í apríl 2005.
- Þriðja greiðslan var svo eiginfjárframlag, í formi lána frá hluthöfum, og var greidd 29. desember 2003. Greiðslan var að upphæð USD41.725.653. Um er að ræða greiðslu sem var um 30% af heildarkaupverði.
Því var Samson búinn að greiða að fullu kaup sín á 45,8% hlut ríkisins í Landsbanka Íslands í árslok 2003 eða innan árs frá undirritun kaupsamnings. Allar greiðslurnar, samtals tæpar 140 milljónir bandaríkjadala, voru greiddar inná reikning íslenska ríkissjóðsins í Seðlabanka Bandaríkjanna í New York. Kaupin voru fjármögnuð 65% með eigin fé frá eigendum og 35% með láni.
Loks skal enn ítrekað að öll lán Samsonar í Búnaðarbankanum og Kaupþingi vegna einkavæðingar Landsbankans voru endurgreidd að fullu ásamt vöxtum. Annað lán sem tekið var í KB banka, í desember 2005, og var ógreitt við fall bankanna, var hluti af skuldauppgjöri Björgólfs Thors Björgólfssonar í júlí 2010.
Þá segir á bls. 30:
Þegar Landsbankinn var einkavæddur voru væntingar um að erlent fjármagn kæmi inn í landið sem þótti nokkur sárabót fyrir þá staðreynd að ekki hafði tekist að fá erlenda fjárfesta að einkavæðingunni. Björgólfur Guðmundsson staðfesti við skýrslutöku að eigendur Samson hafi greitt með erlendu fé. Það mun hafa verið um 48 milljónir dollara en heildarkaupverðið var 140 milljónir dollara.
Athugasmedir við þennan kafla eru eftirfarandi:
Enn er rétt að ítreka að 65% kaupverðs Landsbankans var erlent fé sem eigendur Samson komu með til landsins. 35% voru fjármögnuð með láni. Samkvæmt kaupsamningi við ríkið bar Samson ekki skylda til að leggja fram meira en 34,5% í eigin fé. Þá var Samson alls ekki meinað að fá lánað fyrir hluta kaupverðsins, svo framarlega sem slíkt gerðist ekki hjá Landsbankanum og var það sérstaklega tiltekið í samningi að Samson myndi fjármagna hluta greiðslna með lánum. Höfundar siðferðishluta skýrslunnar álykta af litlu tilefni að „Fjármálaeftirlitið virðist ekki hafa hugleitt þann möguleika að hinir nýju eigendur fengju lán hvor frá öðrum . . .“ Hið augljósa er að stjórnvöld vildu ekki takmarka fjármögnun kaupanna frekar – að sjálfsögðu voru slíkar takmarkanir hugleiddar. Stjórnvöld hefðu getað sett ítarlegri skilyrði en gert var og verða þau að svara fyrir af hverju þau gerðu það ekki. Kaupendur fóru að reglum sem stjórnvöld settu.
Í umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis um hvernig staðið var að greiðlum og frágangi viðskipta Samsonar og ríkisins með kjölfestuhlut í Landsbanka Íslands er ekki fjallað með skýrum hætti um hvort kaupendur uppfylltu þau skilyrði og skilmála sem seljandinn – ríkið, gerði. Samson efndi kaupsamning að fullu og öllu og hafði greitt upp þau lán sem tekin voru vegna kaupanna þremur árum eftir afhendingu bankans. Helst má lesa í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að sök Samson hafi verið sú að uppfylla ekki skilyrði sem aldrei voru sett. Þegar siðahópur rannsóknarnefndar dregur síðan sínar ályktanir af ályktunum rannsóknarnefndar er hætta á að ónákvæmnin í upphafi vindi upp á sig. Ályktanir siðahóps byggja á veikum grunni. Í siðferðilegu mati ættu upplýsingar um hvort samningar eru efndir eða ekki að skipta máli.
Í kaflanum um ábyrgð stjórna og bankaráða með gildishlöðnu undirheiti „Starfsreglur bankaráðanna og máttur hinna stóru“ segir á bls. 38:
Björgólfur Thor Björgólfsson skuldaði um 170 milljarða í Landsbanka og Straumi, þar sem hann var aðaleigandi, haustið 2008.
Athugsemdin við þessa endurtekningu er eftirfarandi:
Ítrekað hefur verið bent á að rannsóknarskýrsla Alþingis oftelur skuldir Björgólfs Thors og tengdra aðila og vantelur innistæður í peningum og aðra frádráttarliði við mat á heildaráhættu skuldbindinga.
Á bls 39 segir síðan:
Einnig hefur vakið athygli að Björgólfur Thor og faðir hans Björgólfur Guðmundsson voru ekki flokkaðir sem tengdir aðilar í Landsbanka.
Athugasemd við þessa setningu er einföld:
Reglur um tengda aðila í bankaviðskiptum eru nokkuð skýrar. Þær fjalla um hvernig sjálfstæðir lögaðilar deila með sér eignarhlutum í skiptanlegum og óskiptanlegum eignum þegar áhætta af viðskiptum er metin – ekki blóðbönd eða fjölskylduvensl eins og rannsóknarnefndin virðist gera hér að umfjöllunarefni.