Veikur málflutningur – Almennar ásakanir með óljósa tilvísun í rannsóknarskýrslu Alþingis

Eins og bent hefur verið á í opinberri umfjöllun um bókina Árni Matt – Frá bankahruni til byltingar þá er bókin hvorki heimildarit né hlutlaus frásögn[1]. Bókin er varnarrit. Tilgangur hennar er að koma þeim skilaboðum á framfæri að Árni Matt, fyrrum ráðherra til sjö ára, hafi ekki með gerðum sínum eða aðgerðaleysi valdið neinu um hrunið. Þar með segir hann að ábyrgð og sök hvíli á herðum annarra. Hann bendir á bankana og ásakar þá um að hafa blekkt og villt um fyrir stjórnvöldum sem þar með hefðu ekki getað sinnt skyldum sínum.

Eins og sjá má hér að ofan þá standast ekki þau dæmi sem ráðherra nefnir um blekkingar Landsbankans. Alloft koma síðan fram í bók hans almennar fullyrðingar um að bankarnir hafi verið að blekkja og þá vitnar hann gjarnan með óljósum hætti í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Á einum stað segir hann:

„Hrunið sjálft verður fyrst og fremst vegna þess að bankarnir eru allt of stórir og viðskiptamódel þeirra alltof háð öðrum aðilum til þess að þeir gætu lifað af hremmingar hinnar alþjóðlegu kreppu á fjármálamörkuðum. Þeir eru langtum stærri en svo að ríkissjóður geti hjálpað þeim undir þessum kringumstæðum. Þegar svo kemur í ljós eftir að mál þeirra eru krufin til mergjar að allir innviðir eru feysknir, eigið fé uppblásið og falsað, útlán að stórum hluta áhættusöm, tengd og ótryggð er vafamál hvort þeir hefðu nokkurn tíma geta lifað af.“ (Bls. 144.)

Í umfjöllun um Icesave-málið segir síðan Árni Matt:

„Ef banki er færður þá þarf bankaeftirlitið í viðkomandi landi að viðurkenna hann, fara í gegnum fjárhag hans og rannsaka hver staða hans er. Ef við hefðum reynt það með einhvern bankanna okkar á árinu 2008, þá hefði að öllum líkindum ekki verið tekið við neinum þeirra. Ef þeir hefðu farið í gegn um lánabækurnar hefði komið í ljós hver staða lánanna var og þá hefði uppgötvast fölsun þeirra á eigin fé, þannig að þeir gátu aldrei flutt.

Þá hefði komið upp úr dúrnum að bankarnir blésu út á fölskum forsendum, þeir drógu ekki frá lánaskuldbindingar vegna eigin fjár í kerfinu. Það á að draga þær frá til þess að finna hvert eiginfjárhlutfallið er eins og reglur eru um, þannig að eigið fé þeirra var blásið út og þá gátu þeir blásið út útlánin á móti. Þeir voru því að stækka umfram það sem þeim var heimilt af því að þeir fóru á svig við reglurnar.

Skýrslan dregur þetta fram; allir voru blekktir, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn, ríkisstjórnin, allir. Þess vegna var svo erfitt að sætta sig við  það að vera talinn hafa vanrækt skyldur sínar, þegar það liggur fyrir og nefndin leggur það þannig upp, að við höfðum ekki rétta mynd af stöðunni og af vandamálinu. Eftirlitsaðilarnir gáfu okkur ranga mynd af stöðunni, ekki vegna þess að þeir væru að reyna að blekkja okkur, heldur vegna þess væntanlega að þeir höfðu ekki heldur réttu upplýsingarnar. Þá er ekki um annað að ræða en að álykta sem svo að bankarnir hafi blekkt.“ (Bls. 179-180)

Í þessu sambandi er mikilvægt að nefna að af 62 atriðum sem í skýrslu rannsóknarnefndar eru talin til orsaka á hruni bankakerfisins er ekki talað um „feyskna“ innviði, „útblásið eigið fé“, „falskar forsendur“ eða að „allir voru blekktir“. Ónákvæmni ráðherrans í þessu efni þjónar málflutningi hans því þó svo rannsóknarskýrsla Alþingis finni að mörgu í starfsháttum gömlu bankanna þá er ekki þar með sagt að þeir meinbugir hafi valdið eða stuðlað að hruninu. Í þeim efnum beinir skýrslan spjótum sínum ekki síður að stjórnvöldum sem skópu bönkunum skilyrði til gríðarlegs vaxtar og hvöttu til hans. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir einfaldlega að ráðherra hafi ekki „gripið til viðhlítandi ráðstafana“ og „með því athafnaleysi sínu hafi Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra látið hjá líða að bregðast við yfirvofandi hættu á viðeigandi hátt og með því sýnt af sér vanrækslu …“ (Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, 7. bindi, kafli 21.5, bls 315).

Ljóst er að í bók þessari reynir fjármálaráðherra ekki að kasta ljósi á athafnir og athafnaleysi Seðlabanka Íslands. Fjölmörgum spurningum á eftir að svara um þann banka. Hafa verður í huga að Seðlabanki Íslands var eini seðlabankinn í heiminum sem varð tæknilega gjaldþrota í þeim hremmingum sem gengu yfir heimsbyggðina haustið 2008. Það hlýtur að teljast athyglisvert að fjármálaráðherra deilir ekki með lesendum áliti sínu og skýringum á þeirri afar athyglisverðu staðreynd.

Það má því vera nokkuð ljóst að ásakanir Árna Mathiesen í garð bankanna er vörn hans vegna ásakana rannsóknarnefndarinnar á hendur honum um athafnaleysi og vanrækslu. Bókin Árni Matt – Frá bankahruni til byltingar þjónar því þeim tilgangi að kenna bönkunum og mönnum þeim tengdum um hrunið og þá ekki aðeins hrun bankakerfisins heldur einnig hrun krónunnar – hrun samfélags. Hún er ekki skrifuð til að varpa ljós á orsakir og ástæður eða til að varpa skýrara ljósi á forsendur mikilvægara ákvarðana – enda gerir hún það ekki.



 



[1] Ýmsir bókadómar hafa birst um bókina Árni Matt – Frá bankahruni til byltingar. Hér skal bent á umsögn Jóns Baldvins Hannibalssonar í sjónvarpsþættinum Silfur Egils 12.12.10 .