Stuðningi heitið en ekki ábyrgð

Á árunum 2007 og 2008 var umtalsverð umræða um hlutverk ríkis og Seðlabanka gagnvart ört stækkandi viðskiptabönkum. Ljóst var að Seðlabankinn var lánveitandi til þrautavara og þá höfðu íslenskir ráðamenn haft uppi yfirlýsingar um að ríkissjóður kæmi bönkunum til hjálpar ef á þyrfti að halda. Þá sendi viðskiptaráðuneytið breskum stjórnvöldum bréf í tengslum við stöðu Icesave-innlánareikninganna þegar umrótið var sem mest með heitum um stuðning við bankana. Það bréf var þó ekki hægt að skilja sem svo að ríkissjóður ábyrgðist allar innistæður. Fram hefur komið í fjölmiðlum að bankastjórar Landsbankans vísuðu í þennan stuðning síðan í samskiptum sínum við yfirvöld í Hollandi. Hafa ber í huga að nær öll stjórnvöld á Vesturlöndum höfðu með yfirlýsingum og aðgerðum reynt að styðja við banka í sínum löndum.  Lengst gekk írska ríkisstjórnin sem lýsti því yfir að hún „ábyrgðist“ innistæður írskra banka. Þetta olli miklu uppnámi á mörkuðum þar sem bankar annarra landa töldu að þarna væri írska ríkið að brjóta gegn einni af meginreglum Evrópusambandsins um að ríkisvald í einu ríki hygli ekki sínum fyrirtækjum í samkeppni á opnum evrópskum markaði.