Stöð 2 dregur til baka frétt um stórfelda fjármagnsflutninga

Frettastofa Stöðvar 2 dróg í kvöld til baka frétt frá í júlí 2009 um að ég ásamt fleirum hefði látið flytja fúlgur fjár af reikningi mínum í Straumi til aflandseyja. Þrátt fyrir að ég hafi hringt á sínum tíma strax og fréttin birtist og lýst því yfir að þetta væri lygi stóð Fréttastofan við fréttina. Og það gerði hún líka eftir að Straumur hafði sent frá sér tilkynningu um að fréttin væri útí hött. Ég sá mig tilneyddan til að verja mig og kærði Fréttastofu Stöðvar 2 fyrir meiðyrði. Nú þegar Fréttastofan hefur viðurkennt mistök og dregið fréttina til baka tel ég enga ástæðu til að halda áfram málarekstri.

Yfirlýsing Fréttastofu Stöðvar 2 þar sem fréttin um stórfellda fjármagnsfluttninga er dregin til baka er svohljóðandi:

Fréttastofa Stöðvar 2 hefur ákveðið að draga til baka fréttaflutning af meintum fjármagnsflutningum nafngreindra manna til skattaskjóla sem birt var í júlí 2009.

Í lok júlí 2009 birti Stöð 2 og vefmiðillinn visir.is frétt þess efnis að fjórir nafngreindir menn, Björgólfur Thor Björgólfsson, Björgólfur Guðmundsson, Karl Wernerson og Magnús Þorsteinsson, hefðu látið flytja milljarða króna úr Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka í erlend skattaskjól á sama tíma og tilkynnt var um þjóðnýtingu Glitnis banka. Þá var eignarhaldsfélagið Samson sagt koma við sögu þessara meintu fjármagnsflutninga.

Í fréttatilkynningu Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka í kjölfarið segir að efni fréttarinnar hafi ekki verið borið undir fjárfestingarbankann og að hún sé tilhæfulaus. Þá hefur skiptastjóri þrotabús Samson staðfest, að engar slíkar millifærslur hafi átt sér stað.

Fréttastofan byggði fréttaflutninginn á frásögn heimildarmanns, en hafði ekki nein gögn undir höndum er studdu frásögn hans. Fréttastofan telur við nánari skoðun að heimildir fyrir fréttinni hafi verið ófullnægjandi og rangar og var frétt fréttastofu Stöðvar 2 af málinu því röng.

Vinnulag fréttastofu var ekki í samræmi við siðareglur 365 miðla um mat heimilda og rétt aðila umfjöllunarefnis til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þeir starfshættir hafa verið endurskoðaðir til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

Fréttastofa Stöðvar 2 dregur fréttina til baka og biðst velvirðingar á þeim skaða sem hún kann að hafa valdið hlutaðeigandi.

Reykjavík 10. maí 2010,

Fyrir hönd Fréttastofu Stöðvar 2 og visir.is,
Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri