Stjórnarformaður í tíu ár
Afskipti Björgólfs Thors af lyfjafyrirtækjum hófust í júní 1999 þegar félag sem hann átti ásamt öðrum, þ.á.m. íslenska lyfjafyrirtækinu Pharmaco, keypti 45% í búlgarska lyfjafyrirtækinu Balkanpharma. Voru þau viðskipti í félagi við Deutche Bank, sem einnig keypti 45%, og stjórnendur Balkanpharma sem keyptu 10%. Það var búlgarska ríkið sem átti fyrirtækið áður og var sala þess hluti af einkavæðingaráformum stjórnvalda.
Í mars árið 2000 keypti félag Björgólfs Thors 15% í Pharmaco á markaði á Íslandi. Seljandi var Búnaðarbanki Íslands. Björgólfur Thor var orðinn stærsti hluthafinn í Pharmaco og í kjölfar þessara viðskipta hófst undirbúningur að sameiningu Pharmaco og Balkanpharma sem varð að veruleika í ágúst sama ár. Eigendum Balkanpharma var greitt með hlutafé í Pharmaco sem var félag skráð í kauphöll sem þá hét Viðskiptaþing Íslands.
Eftir þessi viðskipti var félag Björgólfs Thors stærsti hluthafinn í sameinuðu félagi með um 30% hlutafjár og var Björgólfur kjörinn formaður stjórnar félagsins þá um haustið. Undir lok árs var hlutafé aukið og það boðið út og tók félag Björgólfs Thors þátt í því. Ári síðar seldi annar stjórnenda Balkanpharma félagi í eigu Björgólfs sinn hlut og átti hann þá um 35% í Pharmaco.
Á árinu 2002 keypti Pharmaco íslenska lyfjafyrirtækið Delta og sameinuðust félögin um haustið. Um svipað leiti voru gefin út ný hlutabréf í Pharmaco. Félag Björgólfs Thors tók ekki þátt í þeim útboðum og rýrnaði þá hlutur hans í félaginu. Í apríl 2003 og aftur í nóvember það ár keypti Björgólfur Thor hins vegar á markaði samtals yfir 7% í félaginu og var þá heildarhlutur hans í Pharmaco kominn yfir 36%.
Á haustmánuðum 2005 undirbjó félagið, sem þá hafði breytt um nafn og hét Actavis, umfangsmikla yfirtöku á bandaríska lyfjafyrirtækinu Amide. Af því tilefni voru gefin út ný hlutabréf og tók félag Björgólfs Thors þátt í því útboði. Þegar þarna var komið sögu var hlutur Björgólfs Thors um 36% líkt og þremur árum áður. Að baki lá hins vegar nærri 50% fleiri hlutabréf sem hann hafði keypt á leiðinni vegna útgáfu nýrra bréfa. Verðmæti hlutarins hafði jafnframt aukist gífurlega á þessum árum.
Sumarið 2007 var Actavis yfirtekið af félögum sem lutu forystu Björgólfs Thors Björgólfssonar og fjárfestingafélags hans. Í júní það ár höfðu um 60% hluthafa gengið að yfirtökutilboðinu og undir lok júlímánaðar hafði um 95% hluthafa tekið því. Í ágústmánuði var félagið afskráð úr Kauphöll Íslands. Félagið var komið í einkaeign og tugþúsundum hluthafa var greitt í evrum fyrir hlutabréfin sín. Heildarverðmæti viðskiptanna vor 5,3 milljarðar evra sem runnu til hluthafa og lánardrottna félagsins.
Björgólfur Thor Björgólfsson var áfram formaður stjórnar félagsins fram til haustins 2010 en þá lét hann af því starfi sem hann hafði gegnt í yfir áratug, en sat áfram í stjórn félagsins. Við formennskunni tók forstjóri félagsins, Claudio Albrecht. Bandaríska lyfjafyrirtækið Watson Pharmaceuticals keypti Actavis á vordögum 2012, en kaupin gengu formlega í gegn 1. nóvember 2012.