Ríkið bar ekki ábyrgð þegar Landsbankinn var einkabanki

Þegar í ljós kom að viðbrögð stjórnvalda við falli Glitnis í lok september 2008 leiddu til þess að hæfismat á öllu íslenska bankakerfinu var lækkað og sá möguleiki varð ljós hjá þeim sem næst málum stóðu að íslensku viðskiptabankarnir gætu fallið vöknuðu spurningar um tryggingar innlána. Björgólfur Thor Björgólfsson veit að bankastjórar Landsbankans og sérfræðingar þeirra litu svo á þann 6. október 2008, – á síðasta starfsdegi sínum, að innistæður viðskiptavina bankans væru á ábyrgð bankans og þær fyrst og fremst tryggðar með eignum hans. Ekki var þannig litið á að íslenska ríkið væri ábyrgðaraðili innistæðna, hvorki í útibúum á Íslandi né erlendis og þá heldur ekki í dótturfélögum. Síðar hefur komið fram að forstjóri norska tryggingasjóðsins segir að samkvæmt Evrópuskipan beri norska ríkið ekki ábyrgð á norska innistæðutryggingasjóðnum. Í svari framkvæmdastjórnar ESB til norska fréttavefjarins ABC Nyheter segir undanbragðalaust að ríki á EES-svæðinu beri ekki ábyrgð á innistæðum fallinna banka umfram greiðslugetu innistæðutryggingasjóða.  Þess vegna er það svo að fullyrðingar um að íslenski ríkissjóðurinn beri ekki ábyrgð eiga við rök að styðjast eða a.m.k. gátu þær staðist allt fram undir miðnætti mánudaginn 6.október þegar neyðarlög um starfsemi fjármálafyrirtækja voru samþykkt frá Alþingi Íslendinga.

Líkt og kemur fram í svari framkvæmdastjórnar ESB til norska fréttavefjarins er því haldið fram að íslenska ríkið hafi bakað sér ábyrgð með að hafa vanrækt innleyðingu á reglum um innistæðutryggingar. En það á ekki við rök að styðjast. Íslensk stjórnvöld höfðu staðið við skuldbindingar vegna Evrópusamstarfsins um að setja á fót tryggingakerfi innistæðna, sbr. lög frá Alþingi sem samþykkt voru 1999, sem mættu í einu og öllu kröfum Evrópusambandsins og eftir þeim kröfum var gengið hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum. Aldrei barst nein athugasemd frá ESB um innleyðingu þessara reglna á Íslandi. Því var þar ekki um neina vanrækslu að ræða að hálfu íslenskra stjórnvalda.