Lítið um opinberar skýringar á meðan rannsókn Alþingis stóð yfir

Stjórnendur og bankaráðsmenn Landsbankans tjáðu sig lítið um orsakir falls Landsbankans og aðstæður á fjármálamörkuðum haustið 2008 eða um viðbrögð stjórnvalda við þeim á meðan rannsóknarnefnd á vegum Alþingis undir forsæti Páls Hreinssonar var að störfum. Þeir áttu ekki hægt um vik enda bundnir trúnaði um meðferð upplýsinga, – trúnaði sem rannsóknarnefndin er ekki bundin af. Formaður bankaráðs, Björgólfur Guðmundsson, fór í tvö viðtöl skömmu eftir hrunið, annað í Kastljósi Sjónvarpsins og hitt í Morgunblaðinu. Þar gerði hann að því marki sem honum var kleift grein fyrir orsökum og aðdraganda atburðanna haustið 2008 sem m.a. leiddu til persónulegs gjaldþrot hans.

Björgólfur Thor Björgólfsson kom síðan fram í viðtali í Kompásþætti á Stöð 2 þar sem hann greindi frá aðkomu sinni að málum íslensku bankanna í lok september og byrjun október. Aðkoma hans var vegna formennsku í Samson ehf. og vegna fjarveru föður hans og formanns Landsbankans, Björgólfs Guðmundsson, sem dvaldi erlendis af persónulegum ástæðum. Sjálfur sat Björgólfur Thor aldrei í bankaráði Landsbankans. Hann var hins vegar formaður stjórnar Straums fjárfestingabanka sem lenti rúmum fimm mánuðum síðar í lausafjárvanda og var tekinn yfir af FME.